Að sættast við nekt þína

Þetta sagði hún:

“Þú verður að sættast við líkamann. Eftir að brjóstið var tekið af mér klæddist ég alltaf og afklæddist inni á baði. Svo tókum við okkur síðbúna hveitibrauðsdaga. Maðurinn minn var ósáttur við að ég skyldi fela mig inni á snyrtingunni. “Komdu fram –ég elska þig,” sagði hann. “Þú varst yndisleg með tvö brjóst en mér finnst þú líka yndisleg með eitt!”

- Emily

“Í hálft ár forðaðist ég að líta á mig í spegli. Þegar ég loks lét verða af því, var það alls ekki svo slæmt. Það var eins og það hefði verið saumuð hvít bót á bringuna á mér.”

- Sonja

Hafi sjálfsmynd þín beðið hnekki við að greinast með brjóstakrabbamein, þarftu að vinna að því að öðlast jákvæða mynd af sjálfri þér á nýjan leik.

Forðastu eftir megni að líta á örin á bringunni? Það er skiljanlegt að þú sért ófús að virða þau fyrir þér en sérfræðingar á sviði afturbata halda því fram að mikilvægt sé að komast yfir þá tregðu.

Fötin fela

Þokkafull undirföt eða náttföt liggja beint við sem leið til að hlífa maka þínum við áfalli í fyrsta sinn sem þið hafið mök. Finnist þér þú þurfa á vörn að halda, einhverjum dularklæðum, skaltu endilega láta það eftir þér. Láttu einnig eftir þér að kaupa það fallegasta sem þú finnur. Ekki má heldur gleyma að margar konur afklæðast aldrei alveg við samfarir hvort eð er. Líklegt er að elskhuginn finni lítinn mun á venjulegu brjósti og brjósti sem hefur verið endurgert eða vel heppnuðu gervibrjósti: Gervibrjóstið lætur undan þrýstingi og hefur sömu þyngd og fjöðrun og venjulegt konubrjóst.

Á meðan þú hugleiðir hvort þú vilt láta byggja upp brjóstið á nýjan leik – jafnvel þótt umþóttunartíminn sé ef til vill stuttur – gæti samt tekið því fyrir þig að útvega þér innleggsbrjóst. Það eða þau geta hjálpað þér að sættast við útlitið þegar þú ert alklædd.

Að afklæðast af hispursleysi

Fínleg og falleg undirföt eru ágætt fyrsta skref í þá átt að taka aftur feimnislaust þátt í kynlífsathöfnum, en fyrr eða síðar þarftu að sættast við þær breytingar sem hafa orðið á útlitinu. Hér á eftir fara ráð Dr. Leslie Schover um “spegilmeðferð” í fjórum þrepum:

  1. Hafðu spegil í fullri lengd einhvers staðar þar sem þú getur lokað að þér og klæddu þig í uppáhaldsfötin þín.

  1. Virtu sjálfa þig fyrir þér í speglinum í stundarfjórðung og veldu einhver þrjú atriði sem þú ert virkilega ánægð með hjá sjálfri þér.

  1. Að því loknu skaltu endurtaka æfingunna í undirfötum/náttfötum.

  1. Að lokum skaltu taka stundarfjórðung í að horfa á sjálfa þig nakta í speglinum og leita uppi þau atriði hjá sjálfri þér sem þú ert ánægð með. Einbeittu þér að jákvæðum atriðunum.

Þér er nauðsyn að sættast við nakinn líkamann - jafnvel þótt þú hafir aldrei verið sátt við hann - og semja frið við sjálfa þig um útlitið. Líka er nauðsynlegt að þú leyfir elskhuga þínum að horfa á þig og komast að svipaðri niðurstöðu. Gerðu þetta smám saman. Sumum konum finnst það veita þeim frelsiskennd að ganga um svefnherbergið eða íbúðina allsnaktar. Kona ein bauð nánustu vinum sínum heim til kvöldverðar. Þegar máltíðinni lauk sýndu hún þeim nýju, endurgerðu brjóstin sem vöktu auðvitað ósvikna aðdáun allra.

Lokaskrefið er að birtast elskhuga þínum allsnakin. Trúlega er það síðasta skrefið í þá átt að losna við kvíðann vegna þess hvernig þér finnst þú líta út. Katrín segir frá því að hún hafi verið komin í nýtt samband og tók loks í sig kjark til að sýna nýja kærastanum nakinn barminn. Hann hrósaði henni með þessum orðum: “Það var frábært af þér að leyfa mér að sjá, en ég var búinn að segja þér að það mundi engu breyta.”

Staðreynd er að margar konur hafa enga ánægju af að sýna sig naktar jafnvel þótt þær séu með bæði brjóst ósködduð. þú þarft að vísu að horfast í augu við hvernig þú lítur út og sættast við spegilmynd þína en þú þarft alls ekki að neyða sjálfa þig til hegða þér á einhvern hátt sem hefur alltaf verið þér framandi. Auk þess er það nú svo að flestar samfarir eiga sér stað í myrkri. Þegar ljósin hafa verið deyfð og þú ert komin í ham getur líka farið svo að það skipti þig engu máli lengur hvort þú ert allsnakin eða ekki.

*Í verslunum í Reykjavík og nágrenni má finna töluvert úrval af gervibrjóstum, fallegum undirfötum og sundfötum. Þjónustan er góð og að auki hægt að panta upp úr bæklingum.

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB