Breytingar á kynlífinu

Orð læknis:

“Einn af sjúklingum mínum sagði mér að brjóst hennar hefðu gegnt mikilvægu hlutverki í kynlífi hennar áður en hún greindist með sjúkdóminn. Hún fékk krabbamein í bæði brjóstin og meðferðin fólst í fleygskurði og geislun. Brjóstin á henni litu ljómandi vel út en maðurinn hennar lét sem hann sæi þau ekki. Ég kom á viðtalstíma þar sem tryggt var að maður hennar gæti líka verið viðstaddur og tókst að fullvissa hann um að það væri óhætt að snerta brjóst hennar, hnoða þau, kyssa eða gera hvaðeina sem honum kæmi til hugar, það mundi ekki skaða þau á nokkurn hátt; engin hætta væri heldur á að hann smitaðist af krabbameini og að konan hans væri ekki geislavirk. Áður en á löngu leið höfðu þau tekið upp sín fyrri ástaratlot.”

- Marisa Weiss M.D.

Af öllu sem snertir krabbameinið finnst þér trúlega óþægilegast að tala um kynlífið og breytingarnar sem hafa átt sér stað með veikindum þínum. Hugsanlega veistu ekki hvað þarf að laga eða hvernig á að fara að því. Þú veist bara að hlutirnir eru öðru vísi en þeir voru.

Margar konur fullyrða að dregið hafi úr kynlífi þeirra eftir að þær greindust og fyrir því eru ýmsar ástæður:

  • Að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð hægir á allri líkamsstarfsemi. Langan tíma tekur að framkvæma hvað eina, þar með talið að fá áhuga á, hefja og ljúka samförum.

  • Samfarir geta valdið óþægindum og jafnvel sársauka, hafir þú t.d. farið inn í fyrirvaralaus tíðahvörf. Engin furða þótt tilhneigingin sé sú að draga úr kynlífi í bili. Margar konur hafa sjaldan mök eða aldrei frá því að þær greinast þar til meðferð lýkur.

Flestir halda sjálfsagt að í svefnherbergjum annarra sé meira líf og fjör en hjá þeim sjálfum. Það er hins vegar ástæðulaust að öfunda nágrannana: Að baki bókinni Sex in America sem rituð er af Michael, Gagnon, Laumann og Kolata liggja víðtakar kannanir. Í bókinni kemur glöggt fram að Bandaríkjamenn stunda kynlíf af mun minna kappi en gefið er í skyn í kvikmyndum, sjónvarpi eða myndum úr búningsklefum íþróttafélaga. *Þar sem Íslendingar hafa í mörgu tekið upp ameríska siði og verða fyrir miklum áhrifum af amerísku sjónvarpsefni og kvikmyndum er óhætt að gera ráð fyrir að þær hugmyndir sem verið er að vísa til séu kunnuglegar. Niðurstaða þeirra félaga um virkni landa þeirra á kynlífssviðinu og fjölda samfara í mánuði hverjum er þessi:

  • Á aldrinum 30 til 40 ára sjö sinnum í mánuði.

  • Á aldrinum 40 til 50 ára sex sinnum í mánuði.

  • Á aldrinum 50 til 60 ára fimm sinnum í mánuði.

Fjöldi samfara í mánuði minnkar áfram eftir sextugt. Haldir þú að fólk á sjötugs- og áttræðisaldri hafi ekki samfarir, er það hins vegar misskilningur.

Hér er vitnað til bandarískrar konu, Molly, 78 ára gamallar, sem lýsir kynlífi sínu svo eftir krabbameinsmeðferð: “Ég hætti þessu um tíma, en svo byrjuðum við aftur að minni ósk. Hann var bara að bíða eftir að ég gæfi grænt ljós.” Hilda, 82 ára gömul kona sem hafði lifað það að fá krabbamein, sagðist ekki eiga neinn elskhuga “í bili”. Sumir halda áfram að hafa samfarir fram á tíræðisaldur. Þar sem lyfið Viagra er nú komið til sögunnar er ómögulegt að segja hvar aldursmörkin liggja framvegis.

Láttu ekki sögur um kynlíf annarra trufla þig og það sem gerist hjá þér. Mundu líka að engar reglur eru án undantekninga.

Sé kynlíf þitt ekki eins og þú vilt hafa það, getur læknir þinn eða hjúkrunarfræðingur hugsanlega rætt við þig og maka þinn eða vísað ykkur á heppilegan aðila. Þú getur látið lækninn vita fyrirfram að þig langi til að ræða þessi mál því að ekki ósennilegt að hann eða hún hafi komið lauslega inn á þetta viðkvæma efni við þig á einhverri stundu. Ef til vill getur hann eða hún leiðbeint ykkur. Sé maki þinn viðstaddur þegar þú talar við krabbameinslækninn, hafið þið bæði tækifæri til að viðra ótta, eyða honum og skipta út sögusögnum og röngum upplýsingum fyrir staðreyndir.

Aðstoð fagmanneskju

Læknar og hjúkrunarfræðingar eiga misauðvelt með að ræða mál sem snerta kynlíf og kynlífsathafnir. Flestir læknar láta ógert að spyrja sjúklinga sína út í kynlíf. Yfirleitt lætur sjúklingur sömuleiðis ógert að ræða kynlíf sitt við lækni sem aldrei hefur minnst á neitt slíkt. Þannig að báðir aðilar þegja – enginn segir neitt!

Einhver verður að rjúfa þögnina. Þjálfaður félagsráðgjafi, kynlífsráðgjafi, geðlæknir eða sálfræðingur geta hjálpað þér að hefja samræður við maka þinn sem leiddar eru yfir í mál er snerta kynlíf ykkar og nánd.

Stuðningshópur getur líka gert ótrúlega mikið gagn. Konur í slíkum hópum eru oft reiðubúnar að deila heilræðum úr svefnherberginu, þar á meðal um leiðir til að auka kynlífsunað þeirra sem fengið hafa brjóstakrabbamein.

* Í janúar 2011 hófst sérstakt átak á LSH um kynlíf og krabbamein. Þetta var  samstarfsverkefni LSH og ýmissa aðila.  Jóna Ingibjörg Jónsdóttir, hjúkrunafræðingur og klínískur kynfræðingur stýrði verkefninu. Heilbrigðisstarfsfólk naut fræðslu og boðið var upp á meðferðarsamtöl. Þessu tiltekna verkefni er lokið en ekki hika við að ræða þessi mál við þinn lækni og hjúkrunarfræðing á spítalanum. Í Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélags Íslands  (Heimasíða á krabb.is) er einnig hægt að fá allar upplýsingar um hvert hægt er að leita með mál sem tengjast kynlífi og krabbameini.

Að mæta þörfum á annan hátt

Í flestum hjónaböndum eru óleyst vandamál. Hjónaband er pakki og í góðum hjónaböndum vegur það sem gott er þyngra en það sem er slæmt. Hafirðu fengið krabbamein og komist í gegnum meðferðina lifandi, gerist það hugsanlega að í veikindunum hafa vandamál hjónabandsins tekið að vega þyngra en það sem gott er. Geturðu lifað við vandamálin? Geturðu notið hjónabandsins þótt þér finnist vanta ýmislegt? Geturðu á einhvern hátt bætt þér upp það sem á vantar? Íhugaðu alvarlega hverjar þarfir þínar eru og hvernig hægt er að verða við þeim.

Aðrar leiðir til að verða við þörfum þínum:

  • Notaðu ímyndunaraflið til að auðga tilveru þína. Fjöldi kvenna les bækur til að fylla upp í tómarúm (ástarsögur eru gífurlega vinsælar).

  • Gakktu í bókaklúbb (eða myndaðu hann sjálf), sæktu kirkju eða umræðuhópa um fjárfestingar, kvikmyndir, stjórnmál eða annað sem þú hefur áhuga á.

  • Verðu meiri tíma með vinkonunum til dæmis í gönguferðir, búðarferðir eða ferðalög.

  • Gerðu meira úr afmælisdögum og öðrum tyllidögum.

  • Taktu þátt í samfélagsvinnu, hjálparstarfi, safnaðarstarfi eða félagsstarfi af öðrum toga.

ÞB