Einhleypar konur - að finna eigin leið

Leitarðu félaga? Nokkrar uppástungur:

 • Bókaverslanir þar sem hægt er að fá sér hressingu og hitta fólk.

 • Kaffihús ýmis konar t.d. í verslunarmiðstöðvum.

 • Heitu pottarnir í sundlaugunum.

 • Heilsuræktarstöðvarnar, einkum þar sem er að finna góða aðstöðu til að fá sér hressingu eða slaka á.

 • Taktu þátt í hverfispólitík, flokkspólitík eða sjálfboðaliðastarfi.

 • Farðu aftur í skóla eða á námskeið um tölvunotkun, skipulag fjármála og fjárfestingar eða smíðar.

 • Er boðið upp á starf fyrir einhleypa í félagsmiðstöðinni eða kirkjunni í hverfinu þínu? Notfærðu þér það.

 • Settu auglýsingu í einkamáladálk eða svaraðu þannig auglýsingu. Farðu á netið. Ekki gera grein fyrir því hver þú ert fyrr en þú ert tilbúin. (Þegar þar að kemur er líka vissara að hittast á opinberum stað til að byrja með þar til þú ert orðin örugg um að manneskjan sem þú “hittir” á þennan hátt sé heppilegur félagi.

 • Notaðu stefnumótaþjónustu.

 • Fáðu þér ómótstæðilegan hund og farðu út að ganga með hann á vel völdum stöðum.

Bandarísk kona, Linda Dackman, var 34 ára þegar tekin voru af henni bæði brjóstin. Sem einhleyp kona í leit að maka fann hún engar upplýsingar um það sem hana langaði mest af öllu til að vita, en það var hvenær og hvernig í samskiptum sínum við hitt kynið hún ætti að segja frá sjúkdómi sínum og að brjóst hennar hefðu verið fjarlægð. Hún skrifaði bók sem heitir Up Front: Sex and the Post-Mastectomy Woman, (Í návígi: kynlíf og kona sem misst hefur brjóstin) sem er persónuleg frásögn hennar af því hvernig hún fór að því að takast á við vandamálið. Því miður er bókin ekki til á íslensku og virðist vera ófáanlega á ensku líka þótt hugsanlega sé hægt að hafa uppi á henni á bókasöfnum erlendis.

Í hvert sinn sem Linda fór á stefnumót barðist hún við tilhugsunina um hvenær og hvernig hún ætti að fara að því að segja frá þessu, og hvernig hún ætti að bera sig að þegar kynnin yrðu náin. Til að byrja með var það þannig að hún gusaði öllu út úr sér á fyrsta stefnumóti og skelfdi bæði sjálfa sig og hugsanlegan elskhuga. Smám saman tókst henni þó að temja sér að bíða með að tala um þetta þar til hún hitti viðkomandi í þriðja eða fjórða sinn og gat þá rætt það þá án þess að koma sjálfri sér og vininum úr jafnvægi. Hún lærði líka að verja sig í upphafi náinna kynna með því að vera í fallegri silkiflík, náttkjól, serk eða öðru sem huldi hana, þar til kynnin höfðu komist á það stig að hún treysti sér til að sýna sig nakta.

Renee sagði Albert frá krabbameinsmeðferðinni sinni á fyrsta stefnumóti, þar á meðal þeirri staðreynd að líklega gæti hún aldrei eignast börn. Þau voru gift tíu mánuðum síðar. “Ég vann mig í gegnum óttann með honum – og hann hvarf alveg á meðan við höfðum samfarir. Kynþokkafull undirföt juku mér sjálfstraust og hjálpuðu mér til að finnast ég aðlaðandi,” segir hún.

Ekki láta brjóstakrabbameinið verða skilgreiningu á því hver þú ert sem manneskja. Þú þarft ekki að ganga með skilti sem segir “ég fékk brjóstakrabbamein,” og þú þarft alls ekki að minnast á þetta mál fyrr en þú ert tilbúin og finnst þú hafa raunverulegan áhuga á að samband takist. Hér eru nokkrar leiðbeiningar um hvernig þú getur hægt og rólega byrjað aftur að fara á stefnumót og stofna til náinna kynna eftir greiningu og meðferð:

 • Finndu vin. Mikilvægasta reglan í sambandi við makaleit eftir meðferð við brjóstakrabba er að vera viss um að félaginn líti á þig sem vin áður en þú lætur of mikið uppskátt.

 • Æfðu þig. Haldir þú að það verði erfitt að segja hugsanlegum vini frá krabbameininu, skaltu með góðum fyrirvara æfa þig í að tala um það fyrir framan spegil eða gera tilraunir með það á einhverjum sem þú treystir vel.

 • Vertu heiðarleg. Þegar þú ert tilbúin er mikilvægt að þú látir mögulegan elskhuga vita við hverju hann má búast. Þú þarft líka að gera meira en að segja frá sjúkdómsgreiningunni. Þú þarft að segja mjög skýrt og blátt áfram frá hvað var gert, hvernig þér heilsast núna og hvernig þér líður tifinningalega. Þú greindist ekki með sjaldgæfan sjúkdóm. Flestir þekkja einhvern úr sínu nánasta umhverfi sem hefur komist í kynni við brjóstakrabbamein.

 • Settu þig í spor væntanlegs elskhuga. Hvernig mundi þér sjálfri líða ef karlmaður sem þér litist vel á greindi þér frá því að hann hefði fengið krabbamein í blöðruhálskirtil? Mundirðu samt vilja gera hann að elskhuga þínum? Værirðu tilbúin að takast á við vandamál í kynlífi ykkar?

 • Láttu róa þann sem ekki ræður við vitneskjuna um bróstakrabbamein þitt. Þú átt skilyrðislaust betra skilið.

Að komast í samband

Að finna álitlegan vin sem auk þess er laus og liðugur er ekki auðvelt, en það eru samt nógu margar sögur um vel heppnaða vinafundi á kreiki til að hvetja þig til dáða. Þú verður einfaldlega að gera það sem hver einasta kona verður að gera sem er á höttunum eftir þeim Rétta eða þeirri Réttu. Þú verður að þora að taka áhættu rétt eins og aðrar konur.

Það ER til einhleypt fólk sem er að leita og vill komast í náið samband. Ef til vill uppfyllir það ekki draumamynd þína um útlit eða stöðu, en kannski er kominn tími til að gera raunsæjar kröfur og leita þess sem skiptir máli eins og eðliskosta og ábyrgðarkenndar.

Hvernig fer fólk að því að kynnast? Í gegnum fjölskyldu, vini, samstarfsfólk, bekkjarfélaga, nágranna. Leitaðu til fólksins sem þú þekkir og segðu því að þér þætti vænt um ef það gæti komið þér í kynni við góða, einhleypa manneskju með það í huga að stofna til framtíðarkynna. Ekki vera feimin. Fólkið í kringum þig þekkir mjög líklega einhvern sem gæti hentað, en þú verður að láta vini þína vita að þú sért að leita og að hverju þú leitar. Haltu samböndum þínum við annað fólk við og haltu í væntingar þínar og vonir. Það er aldrei að vita hvenær þú hittir hinn eina sanna.

Hér kemur hjartastyrkjandi saga um 35 ára fráskilda, einstæða móður fjögurra ára drengs. Hún greindist með brjóstakrabbamein og ákvað þá að hringja í gamlan kærasta frá því í menntaskóla. Hann hafði aldrei gifst og hafði ekki gleymt henni. Þau ákváðu að hittast strax næstu helgi og urðu ástfangin á nýjan leik; fjölskylda hans tók henni opnum örmum. Hann var henni til halds og trausts meðan á meðferðinni stóð, eftir að hún missti hárið, fór inn í tíðahvörf, bætti á sig 13 kílóum og þegar hún fékk blæðingar á ný (sem var stórkostlegur dagur, því þau langaði til að eignast barn saman) og margt fleira. Þau giftust að lokum og komu sér upp sameiginlegu heimili.

Að styrkja sambönd

Þú ert að fara í gegnum erfitt tímabil og með veikindunum hefur þú þurft að horfast í augu við sjálfa þig og leita inn á við. Kannski hefur sú skoðun hjálpað þér að takast betur á við ástarsambönd þín. Hugsanlega hættir þér til að sækjast eftir óheppilegum félaga eða þú sendir frá þér röng skilaboð. Hafir þú átt í erfiðleikum áður en þú greindist með brjóstakrabbamein hverfa þau vandamál ekki af sjálfu sér. Nú kann að vera runninn upp rétti tíminn til að skoða sjálfa sig nánar, hugsanlega með aðstoð sálfræðings. *Sálfræðiaðstoð á vegum LSH stendur þeim til boða sem fara í krabbameinsmeðferð. Talaðu við krabbameinslækni þinn og nýttu þér hana fyrir alla muni ef þú þarft á henni að halda.


ÞB