Kynlíf er ekki bara samfarir

Nú er ef til vill rétti tíminn til að kynna sér fleiri aðferðir við kynlíf en beinar samfarir. Flestu nútímafólki er kunnugt um að margt fleira kemur til greina í kynlífi fólks. Kynlíf er ekki bara limur í leggöngum; alls kyns athafnir aðrar teljast til kynlífs og viðgangast.

Munnmök. Það getur verið fróðlegt að vita að talið er að um það bil fjórðungur fólks á aldrinum milli þrítugs og sextugs hafi munnmök reglulega. Ef marka má margumrædda kynlífsvæðingu nútímans er jafn líklegt að þessi tala sé nú þegar úrelt og þeir séu mun fleiri og á breiðara aldursbili. Munnmök gætu gefið viðkvæmustu líkamshlutum þínum tækifæri til að jafna sig en jafnframt framkallað næga nautn til að gera ykkur bæði ánægð og sátt. Fjórðungur fólks er býsna stór hluti af heildinni og nógu stór til að munnmök teljist fyllilega eðlilegur þáttur í kynlífi. Vonandi er það nægilega stór hópur til að þér finnist þú mega fara þessa leið ef þér finnst þú á annað borð þurfa eitthvert leyfi.

Sjálfsfróun. Orðið eitt og sér kann að vekja hálfgerðan hroll hjá sumum, en kynlífsrannsóknir staðfesta það sem við vitum öll: Sjálfsfróun er athöfn sem fáir hafa orð á eða ræða, eitthvað sem sumir fordæma og vekur með okkur sektarkennd – en mjög margir, ef ekki flestir, hafa um hönd – og fróa sér. Eftirtekt vekur að þeir fróa sér oftast sem lifa virku kynlífi eða eru giftir; sjálfsfróun örvar og örvast af öðrum kynlífsathöfnum.

Að það skuli fremur vera karlmenn en konur sem fróa sér kemur ekki á óvart. Ein ástæðan kann að vera hversu auðvelt og aðgengilegt það er; karlmenn eru með höndina á limnum nokkrum sinnum á dag hvort eð er á meðan þeir kasta af sér vatni og það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að setja eitthvað fleira í gang.

Konur þurfa hins vegar að hafa aðeins meira fyrir þessu. Þær þurfa einhvern stað til að sitja eða liggja á. Sumar konur vilja nota einhver hjálpartæki (hvar á að geyma það? hvað á að gera við það á eftir?) og svo þarf að tileinka sér tæknina. Auk þess gætu einhverjar þurft að losa sig við hömlur og sektarkennd.  Oft hafa konur bent á í umræðum um sjálfsfróun að  næði í sínu eigin svefnherbergi sé góður staður. Þar er konan frjáls og á fullan rétt á því að gera hvaðeina fyrir sjálfan sig sem veitir henni ánægju og skaðar engan.

Nudd: Haldi svörun þín á kynlífssviðinu áfram að vera lítil, gæti líkamsnudd frá hvirfli til ilja orðið mikilvægur réttur á kynlífsmatseðlinum. Örvun með höndum og eða fingrum og ríkulega af sleipiefni getur líka gefið ánægju og verið kærkominn staðgengill samfara á meðan þú ert að ná þér og venjast breytingunum. Það gæti líka hjálpað þér til að komast að því hvað þér finnst gott og veitir þér vellíðan jafnframt því að gera þér kleift að leiðbeina makanum orðalaust við að finna staðina þar sem þú örvast mest.

Fætur eru afar næmir. Við níðumst á þeim allan liðlangan daginn; það er afskaplega gott að veita þeim svolitla umhyggju aukalega að kvöldi. Ótrúlega margar konur vita fátt betra en fótanudd. Næst þegar elskhuga þinn langar til að gera eitthvað alveg sérstakt fyrir þig, biddu hann þá um að strjúka á þér fæturnar. Eða biddu um gamaldags baknudd – hér áður fyrr var það trygging fyrir svolitlu baknuddi á hverju kvöldi að dvelja á sjúkrahúsi því þá var hjúkrunarfólk meðvitað um hversu heilsubætandi það er.

Nudd er í senn dásamlega slakandi og örvandi. Láttu á þetta reyna, með tónlist og góðri nuddolíu.

Snertivenjur þínar

Hafi brjóst þín verið mjög mikilvægur þáttur í kynlífi þínu áður en þú veiktist er viðbúið að þú upplifir breytt viðhorf og breytta tilfinningu:

  • Kannski viltu alls ekki láta snerta þig, kannski viltu láta snerta þig meira eða bara lítið og mjög varlega.

  • Maki þinn vill kannski alls ekki snerta, snerta meira, eða lítið og varlega.

  • Brjóstið sem fékk meðferð er hugsanlega viðkvæmt eftir að það grær eða þú finnur til í því, kannski er það tilfinningalaust og dofið.

  • Konur sem fara í fleygskurð og halda brjóstinu að hluta eru líklegri til að njóta þess að látið sé vel að brjóstum við kynlífsathafnir miðað við konur sem hafa farið í brjóstnám og fengið nýtt brjóst.

  • Hafir þú látið byggja upp nýtt brjóst er tilfinningin mjög líklega lítil og jafnvel engin.

Þú verður að stjórna þeim sem snertir þig og koma til skila hvernig snertingu þú vilt og hvað þú vilt ekki. Hugsanlega þarftu að læra að vera ákveðnari heldur en þú varst áður en allt þetta kom til. Eigir þú erfitt með að orða óskir þínar, verður þú að nota hendurnar til að vísa til vegar og leiða athöfnina, sérstaklega ef þú vilt ekki að það sé komið nálægt brjóstinu eða því sem eftir er af því. Sumar konur vilja ekki heldur láta snerta heilbrigða brjóstið af því að það minnir þær um of á hvers þær sakna vegna brjóstsins sem er horfið.

Þótt þér þyki núna óþægilegt að láta snerta brjóstin kanntu að skipta um skoðun síðar meir. Það getur orðið auðveldara fyrir þig að biðja um að þú sért ekki snert á brjóstasvæðinu og auðveldara fyrir maka þinn að sætta sig við beiðnina, getir þú gefið til kynna að dyrunum hafi ekki verið lokað fyrir fullt og allt og þú sért tilbúin að endurskoða afstöðu þína þegar frá líður.

Endorfín og hreyfing

Á meðan þú ert að þreifa fyrir þér með nýjar lausnir í kynlífinu, reyndu þá að hreyfa þig reglulega. Þú skalt byrja rólega og bæta við eftir því sem þú treystir þér til. Hreyfing örvar framleiðslu endorfíns sem stuðlar að líkamlegri vellíðan. Sýnt hefur verið fram á að hreyfing hefur góð áhrif á kynlíf fólks. Auk þess styrkir hreyfingin, vöðvar verða stæltari og líkaminn liðugri. Það mun gera þig ánægðari með sjálfa þig og hreykna af sjálfsaga þínum. Kynþokki þinn eykst með auknu sjálfstrausti. Sjálfsörugg kona er kynþokkafull kona.

Nánari upplýsingar um grindarbotnsæfingarnar ( kenndar við dr. Kegel) o.fl. á ensku er að finna á http://www.mypleasure.com/

ÞB