Þú og maki þinn

Ummæli einstaklings

Vicky Cosgrove hafði verið gift í næstum 20 ár og átti fjögur börn á aldrinum 6 til 17 ára þegar hún greindist með krabbamein í febrúar árið 2000. Eftir ár höfðu bæði brjóst hennar verið fjarlægð og búin til ný. Hún hefur farið í gegnum lyfjameðferð, geislameðferð, og er byrjuð að taka inn tamoxifen, en hún fullyrðir að samlíf þeirra hjóna hafi aldrei verið betra. “Kannski hefur það eitthvað með það að gera að við viljum ekki að okkur finnist við sóa dýrmætum tíma, kannski er það vegna þess að mér finnst hann skynja betur hvers ég þarfnast,” segir hún, “hann er bara orðinn miklu meira gefandi.”

Hvað er það sem skiptir maka brjóstakrabbameinssjúklings mestu? Gagnstætt því sem þú ímyndar þér kannski eða óttast, sýna kannanir að það sem mestu máli skiptir er að ástvinurinn er á lífi og líður vel. Að brjóst er horfið eða útlit þess breytt hefur nánast enga þýðingu samanborið við það. “Mér er alveg sama hvað læknarnir taka ef ég fæ að hafa þig nálægt mér,” er algeng tilfinning. Flestir ástríkir makar (karlar og konur) sjá í ástvini sínum ótal þætti sem þeir elska og makinn er svo miklu meira en samtala þeirra þátta.

Ekki er þar með sagt að tilveran sveiflist ekki upp og niður. Á sama tíma og þú hefur áhyggjur af að vera minna aðlaðandi en áður er maki þinn hugsanlega að kljást við áhyggjur, kvíða og jafnvel sektarkennd og veltir fyrir sér hvort hann eða hún kunni á einhvern hátt að bera ábyrgð á veikindum þínum. “Getur hugsast að ég hafi á einhvern hátt stuðlað að krabbameininu? Verð ég fyrir geislavirkni ef ég snerti hana eða brjóstið á henni? Er krabbamein smitandi?” Og (með sektarkennd): “Hvenær fæ ég eiginlega tækifæri til að hugsa um sjálfa/n mig til tilbreytingar?”

Þér getur reynst erfitt að finna út fyrir sjálfa þig hvers þú þarfnast og hvað skiptir þig máli, hvað þá að koma því á framfæri við maka þinn. Ekki viltu gera lítið úr því sem hann hefur þegar gert fyrir þig, svo þú skalt orða óskir þína eins varfærnislega og jákvætt og þér er unnt: “Þú hefur lagt svo hart að þér, gert svo mikið fyrir mig – og það hefur skipt sköpum. En það sem ég þarfnast núna er að fá að vera nálægt þér og segja þér frá því sem veldur mér áhyggjur og gerir mér órótt. Ég þarf á því að halda að þú hlustir á mig eða haldir bara utan um mig.”

Samræður eru lykillinn

Samræður – það að tala hvort við annað, hlusta hvort á annað – er grunnurinn að nánu sambandi. Flestir hafa hins vegar ekki hugmynd um hvernig á að fara að því að tala um eitthvað jafn yfirþyrmandi og krabbamein. Hér eru því fáeinar ábendingar um hvernig hægt er að nálgast umræðuefnið.

  • Finndu tíma. Flest pör hafa yfirleitt takmarkaðan tíma hvort fyrir annað, jafnvel þegar allt leikur í lyndi. Krabbameinsgreining bætir ekki úr skák. Jafnvel þegar ykkur tekst að finna tíma til að tala saman er sífellt verið að trufla þannig að þið komist ekkert áfram. Taktu frá einhverja ákveðna stund á ákveðnum stað þar sem þú veist að þið verðið ekki trufluð.

  • Byrjaðu bara einhvers staðar. Byrjaðu á að tala um eitthvað þægilegt og viðráðanlegt – hvernig þið ætlið að verja sumarleyfinu eða bara um veðrið. Um leið og samtalið er komið í gang geturðu beint því að ótta þínum og áhyggjum, hvernig veikindin hafa breytt þér og hversu mikilvægt samband ykkar er þér.

  • Talaðu, talaðu, talaðu. Maki þinn segir ef til vill ekki margt en það þarf ekki að þýða að hann eða hún sé ekki að hlusta. Kannski þarft þú að sjá ein um að tala. Hvort sem þú trúir því eða ekki, þá MUN það sem þú ert að segja heyrast og það MUN síast inn. Þagnaðu öðru hverju til að fá viðbrögð. Augnsamband eða snerting getur gefið orðum þínum merkingu og áherslu.

  • Róaðu maka þinn. Kannski finnst maka þínum að þú eigir við nóg að glíma þótt þú þurfir ekki að hlusta á áhyggjur og ótta annarra. Gerðu ljóst að þig LANGAR til að vita hvernig honum eða henni líður og að þetta er eitthvað sem þið eruð að fara í gegnum SAMAN.

  • Leitaðu til utanaðkomandi aðila. Eigið þið bæði jafn erfitt með að tjá ykkur, gæti heimsókn til fjölskylduráðgjafa eða sálfræðings hjálpað ykkur af stað.

  • Skrifaðu. Stundum er auðveldara að skrifa bréf og lýsa því hvernig þér líður eða færa það í dagbók og leyfa makanum að lesa það en að segja hlutina augliti til auglitis.

Brjóstakrabbamein er ekki gott fyrir sambönd fólks, en góð sambönd geta engu að síður styrkst við að fara í gegnum erfiðleikana saman. Maki þinn er ef til vill fullur efasemda og saknar þín "eins og þú varst" og syrgir á sama hátt og þú gerir hugsanlega sjálf. Það þarf hins vegar ekki að merkja að hann sé reiðubúinn að láta þig róa. “Maðurinn minn stóð hjá á meðan ég grét og öskraði, en hann tók utan um mig þegar ég leyfði honum að koma nógu nálægt mér,” segir Dóra. “Hjónaband okkar er betra núna en nokkru sinni.”

Ættirðu að vera í þessu sambandi?

Lítir þú á sjálfa þig eins og hverja aðra skemmda vöru, er líklegt að þú gerir ráð fyrir því að maka þínum líði eins en það þarf alls ekki að vera svo.

Óttinn við að verða yfirgefin er ein afleiðing þess að finnast maður ekki vera elsku verður eða yndislegur á nokkurn hátt. Rétt er það að í einstaka tilfellum finnst karlmanni að breyttur líkami makans spegli á einhvern hátt hans eigið gildi – og vill bara losna. Önnur pör eða hjón þola einfaldlega ekki álagið og fara hvort sína leið.

Almennt má þó segja að í framhaldi af því að konur greinast með brjóstakrabbamein er jafn algengt að þær yfirgefi menn sína eins og að mennirnir yfirgefi þær. Þær vilja einfaldlega ekki sóa tíma sínum í ófullnægjandi og óhamingjusömu hjónabandi.

Slæm hjónabönd leysast ekki endilega upp þótt annar aðilinn greinist með brjóstakrabbamein. Skilnaðartíðni er ekki hærri meðal hjóna þar sem konan hefur fengið brjóstakrabbamein en hjá öðrum. Stundum virðist sem áfallið við að konan greinist með brjóstakrabbamein ýti fólki í slæmum samböndum af stað til að leita orsakanna að vandamálum sínum og snúa sér til ráðgjafa sem það annars hefði ekki gert.

Hugsanlega ert það ÞÚ sem bregst við á ófyrirsjáanlegan hátt. Dæmin eru mörg. Dæmi er þekkt um mjög sjálfstæða konu sem fylltist slíku óöryggi þegar hún greindist með krabbamein að hún varð afar háð maka sínum. Þessi áður óþekkti “veikleiki” hennar var að gera út af við hana og hjónaband hennar fór í gegnum mikla erfiðleika áður en hún náði að verða sjálfri sér lík á ný.

Að tala, segja frá og styðja hvort annað

Auðvitað væri indælt að eiga maka sem skilur hvernig þér líður og hjálpar þér að líða betur á meðan þú vinnur í að endurheimta sjálfstraustið en það kann að vera óraunhæft að búast við því. Honum eða henni líður trúlega illa engu síður en þér og á kannski erfiðara með að tjá vanlíðan sína en þú. Báðir aðilar grafa þá erfiðar tilfinningar einhvers staðar djúpt innra með sér.

Gréta gat engan veginn skilið þögn mannsins síns. “Hvað er eiginlega að þér? Af hverju talarðu ekki við mig um það sem er að gerast? Ég er með KRABBAMEIN! Ég gæti dáið! Segðu EITTHVAÐ!” Henni leið eins og hún væri að tala við vegg.

Brjóstakrabbamein er orðið svo algengt og útbreitt að flestir karlmenn þekkja einhvern nákominn sem hefur fengið sjúkdóminn. Engin leið er að segja fyrir um hvernig makinn kann að bregðast við, en enginn efi er á að mjög margir eru reiðubúnir að sýna þann stuðning sem þarf.

Konum getur reynst auðveldara að tala hvor við aðra og ­lesbíur geta verið sérlega skilningsríkar og sýnt traustan stuðning. Samt er það staðreynd að annarri konu í sambandi getur fundist hún berskjölduð og upplifað það sem persónulega ógnun þegar maki hennar fær brjóstakrabbamein. Óhjákvæmilega hugsar hún til þess að sjúkdómurinn geti líka hitt hana sjálfa fyrir og hún þurft að ganga í gegnum það sama.

ÞB