Þú ræður ferðinni

Þegar þú lærir meira um líkama þinn og langanir skaltu vera blátt áfram og nákvæm. “Ég bið þig, ekki núna. Ég er ekki í neinu stuði eins og er.” Eða: “Getum við ekki sleppt því að hafa samfarir og þú heldur bara utan um mig/gælir við mig/nuddar mig hér/við prófum eitthvað nýtt/getum við reynt að hafa samfarir þótt við þurfum kannski að hætta við?” Það getur verið auðveldara að tala um kynlíf og kynlífsathafnir þegar þú ert ekki komin á fremsta hlunn með að hefja þær. Veldu tíma þegar þið eigið náðuga stund saman í hlutlausu umhverfi.

Ef til vill ertu alls óvön því að ræða um kynlíf en breytingar geta verið örvandi og æsandi. “Vertu virk,” segir Heiða, en hún fór í gegnum allan pakkann frá því að hafa óbeit á kynlífi eftir meðferðina þar til áhuginn vaknaði og loks löngunin. “Eigðu frumkvæði að kynlífsathöfnum á líflegan hátt. Sýndu að þér þyki þetta skemmtilegt og frábært. Ekkert er jafn eggjandi – kynlífið getur orðið hreint æðislegt.”

Meginatriðið er að þú gefir sjálfri þér tíma til að jafna þig. Það sem þér finnst núna bæði erfitt og sárt getur lagast og orðið þægilegt og jafnvel verulega yndislegt einhvern daginn.

ÞB