Að njóta matarins

Þegar þú leggur niður fyrir þér hvernig þú vilt hafa þitt holla mataræði þannig að líkaminn fái allt sem hann þarfnast máttu ekki gleyma ánægjunni. Ekki neita þér um það sem þér þykir best. Finnist þér þú alltaf vera að fara á mis við eitthvað er viðbúið að skapið versni og þá er hætt við að fögur fyrirheit um hollt mataræði fái að fjúka. Makkarónur með osti, kjötbúðingur og súkkulaðibúðingur er meðal þess sem í Bandaríkjunum telst fæða sem huggar og gleður. Hjá okkur er það kannski sviðasulta, kindakæfa, ostabrauð úr ofni eða heimatilbúinn rjómaís. Að borða það sem maður hefur vanist í uppvextinum veitir gleði og öryggistilfinningu. Matur tengist svo margs konar minningum og að neyta hans vekur þær til lífins. Galdurinn er að neyta matarins þannig að hver munnbiti veiti sem mesta nautn. Í stað þess að spæna í þig úr heilu ísboxi skaltu láta duga að fá þér eina eða tvær matskeiðar og taka eftir hvernig bragðið og áferðin breytist í munninum. Borðaðu aldrei beint úr umbúðunum. Settu lítinn skammt á fallegan disk. Njóttu þess að finna matinn bráðna á tungunni og í munninum. Gaumgæfðu hvert smáatriði á meðan þú tyggur og kyngir.

Finnist þér súkkulaði dásamlegt, splæstu þá á þig einum eða tveimur dýrum, innpökkuðum molum fremur en að kaupa fullan poka af einhverju súkkulaðimolablandi af sælgætisbarnum. Í þannig mola er að vísu meiri fita, en hann bragðast líka betur og veitir þér meiri fullnægju þegar upp er staðið. Fyrir utan þá staðreynd að eigir þú ekki fullan poka inni í skáp, borðarðu ekki allt úr honum!

Ákveðinn matur kann að hafa þau áhrif á þig að þú getur með engu móti hamið þig – eins og þegar þú kemst í heimalagðar kjötbollur í brúnni sósu, marengstertu eða nýbakaðar súkkulaðismákökur. Hugsanlega þarftu að neita þér í nokkra mánuði um að snerta við því sem framkallar stjórnlaust át þangað til þú ert orðin nógu örugg með heilsumataræðið til að borða bara eina bollu eða eina litla smáköku. Þá getur það líka gerst að þér finnist þetta ekki lengur jafn ómótstæðilegt.

Að borða ætti að vera ánægjuleg upplifun sem veitir líkamanum það sem hann þarfnast til að halda góðri heilsu. Virkjaðu sköpunargleðina og vertu óhrædd við að prófa nýjar uppskriftir og aðferðir eða óvenjulegar samsetningar. Láttu eftir þér að kaupa nýja matreiðslubók þar sem áhersla er lögð á holla rétti. Svo má líka finna margar góðar uppskriftir á netinu.

ÞB