Bætiefni
Fólk tekur inn bætiefni —vítamín, steinefni, jurtir og jurtalyf – af margs konar ástæðum og með margvíslegar væntingar í huga. Óskinni um að bæta næringarinntöku og vellíðan frá degi til dags fylgir hjá konum sem greinst hafa með brjóstakrabbamein einnig vilji og löngun til að gera allt sem í þeirra valid stendur til að endurheimta heilsu og krafta í meðferð og að henni lokinni. Von þeirra er einnig sú að geta minnkað líkurnar á að fá nokkru sinni brjóstakrabbamein aftur. Konur sem þurfa að lifa með brjóstakrabbameini vonast til að geta með þessu móti hægt á sjúkdómnum eða snúið þróuninni við.
Líkt og aðrar konur hefur þú sjálfsagt fengið ótal ráðleggingar og ábendingar um margvísleg bætiefni frá fjölskyldu, vinum, úr sjónvarpi, útvarpi, tímaritum og dagblöðum – jafnvel frá fólki sem þú kannast aðeins lauslega við eða þekkir ekki neitt. Erfitt er að vita hverju trúa skal. Sum bætiefni, eins og fjölvítamín og steinefnatöflur sem uppfylla sett skilyrði um gæði og magn æskilegra efna, geta haft góð áhrif á almenna heilsu. Önnur bætiefni hafa hugsanlega ekki verið prófuð eða samþykkt og sum geta jafnvel truflað ákveðnar meðferðir við brjóstakrabbameini. Mikilvægt er að þú gerir þér grein fyrir að ekki er til neitt bætiefni sem læknar eða kemur í veg fyrir krabbamein.
Fjörefni (vítamín), steinefni, grös, amínósýrur og lækningajurtir eru flokkuð sem bætiefni. Allt er þetta tekið um munn og ætlað að vera heilsusamleg viðbót við fæðu. Bætiefni fást í margvíslegum myndum þar á meðal fljótandi, í töfluformi, sem duft, í hylkjum eða sem pillur. Yfirvöld í Bandaríkjunum setja bætiefni í sérstakan flokk. Þau eru ekki talin lyf og þurfa því ekki að gangast undir sömu ströngu rannsóknir eða lúta sömu reglugerðum og venjuleg lyf. *Í Bandaríkjunum eru leyfð ýmis jurtalyf sem ekki er leyft að flytja inn eða selja hér á landi.
*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.
ÞB