Úttekt á ýmsum bætiefnum og jurtum
Yfirlit
- A-vítamín
- Alfa-lípóín sýra
- Aloe Vera
- Amygdalin
- Antineoplastons
- Astragalus (græðihnúta)
- Beta karótín
- Conjugated-Linoleic Acid (CLA)
- E-vítamín
- Engifer
- Essíak-seyði/te
- Evrópskur mistilteinn
- Fólínsýra
- Grænt te
- Hákarlabrjósk
- Hydrazine Sulfate
- Hörfræ eða hörfræolía
- Jóhannesarrunni
- Kamilla
- Kava
- Kínahvönn (Dong Quai)
- Kóensím Q10
- Lúpínuseyði
- Maitake sveppur
- Mjólkurþistill
- Ómega-3 fitusýra
- Rauðsmári
- Reishi sveppur
- Resveratrol
- Selen
- Slöngujurt (black cohosh)
- Svart te
- Túrmerik
- Villt Yam
- Ýviður
Cyndi Thomson, Ph.D., R.D., er sérfræðingur við rannsóknarstofnun í klínískri næringarfræði á krabbameinsmiðstöðinni við Háskólann í Arizona. Hún á einnig sæti í Ráðgefandi læknaráði breastcancer.org. Hún hefur sett saman lista yfir þau bæti- og jurtaefni sem oftast eru nefnd á nafn í sambandi við meðferð og lækningu brjóstakrabbameins. Þar sem listanum sleppir taka við vangaveltur um mögulega skaðsemi sumra þeirra svo og upplýsingar um rannsóknir á notkun þeirra og áhrifamætti. Dr. Thomson og breastcancer.org mæla eindregið með að þú talir fyrst við lækni þinn, hafir þú hug á að taka inn einhver bætiefni eða jurtaefni.
A-vítamín
CLA (Conjugated Linoleic Acid)
Rauðsmári (lat.: trifolium pratence, e.: red clover)
Slöngujurt (lat.: cimicifuga rasimosa, e.: black cohosh)
A-vítamín
Einnig þekkt sem: retinol, vitamin A1, og vitamin A2.
Möguleg not: A-vítamín er notað til að styrkja starfsemi ónæmiskerfisins. Það er einnig notað til að flýta græðingu og bæta sjón og augnheilsu.
Venjulegur skammtur: Ráðlagður skammtur er 700 míkrógrömm (2.310 alþjóðlegar einingar) á dag fyrir fullvaxta konur. Með því að borða fimm eða fleiri skammta af ávöxtum og grænmeti á dag fæst nægilegt A-vítamín. Mjólkurafurðir og morgunkorn eru yfirleitt A-vítamínbætt.
Er einhver hætta á ferðum? Of mikið af A-vítamíni getur framkallað ógleði, uppköst og höfuðverk. Stórir skammtar af A-vítamíni geta einnig aukið hættu á beinþynningu.
Hvað sýna rannsóknir? Rannsóknir á A-vítamíni sýna ENGIN áhrif á líkur á brjóstakrabbameini.
Alfa-lípóín sýra
Einnig þekkt sem: ALA (Alpha Lipoein Acid), biletan, acetate replacing factor, thioctic acid.
Möguleg not: Alfa-lípóín sýra er andoxunarefni og sagt að hún geti læknað ýmsa kvilla og sjúkdóma, þar á meðal sykursýki, gláku, minnisglöp, krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma.
Venjulegur skammtur: Skammtar teknir um munn eru frá 300 milligrömmum upp í 1.200 milligrömm á dag.
Er einhver hætta á ferðum? Klínískar rannsóknir sem hafa staðið frá fjórum mánuðum upp í tvö ár hafa ekki sýnt neinar marktækar aukaverkanir af því að taka inn alfa-lípóín sýru. Engin rannsókn hefur staðið lengur en í tvö ár.
Hvað sýna rannsóknir? Rannsóknir sýna að alfa-lípóín sýra bætir insúlínsvörun hjá fólki með sykursýki. Engin rannsókn hefur verið gerð sem sýnir fram á að konur með brjóstakrabbamein hafi gagn af alfa-lípóín sýru.
Aloe Vera Einnig þekkt sem: aloe barbadensis, aloe indica, aloe ferox.
Möguleg not: Aloe vera er yfirleitt notað til að slá á húðertingu. Stundum er það tekið inn til að meðhöndla bólgur, slitgigt og bólgusjúkdóma í görnum.
Venjulegur skammtur: Krem eða hlaup með 0,5% þéttni er borið á húðina þrisvar á dag.
Er einhver hætta á ferðum? Þegar aloe vera er borið á húð, geta flestir notað það. Þegar það er tekið um munn getur það lækkað blóðsykurmagnið. Ef þú ert með sykursýki, ættirðu ekki að taka inn aloe vera.
Hvað sýna rannsóknir? Til þessa hafa engar rannsóknir sýnt fram á gagnsemi aloe vera fyrir konur með brjóstakrabbamein, hvort sem það er borið á húð eða tekið inn. Aloe vera hlaup getur hjálpað húð að gróa sem hefur orðið fyrir bruna (t.d. af völdum geisla).
Amygdalin
Einnig þekkt sem: laetrile, B17 vítamín, apríkósukjarnar.
Möguleg not: Áður fyrr var talið að krabbameinsfrumur breyttu amygdalin í blásýru sem dræpi krabbameinsfrumur. Einnig var því haldið fram að skortur á amygdalini ylli krabbameini.
Venjulegur skammtur: Lyfið er hægt að fá bæði til að taka um munn og sem sprautulyf í Mexíkó, Ástralíu og fleiri löndum utan Bandaríkjanna. Skammtar eru frá 500 milligrömmum upp í 1 gramm á dag. *Hérlendis er efnið bannað og innflutningur þess óheimill.
Er einhver hætta á ferðum? Amygdalin breytist í blásýru í líkamanum og fleiri eitraða efnahvata (ensím). Skammtar af amygdalin sem teknir hafa verið um munn hafa leitt til blásýrueitrunar, meðvitundarleysis og dauða.
Hvað sýna rannsóknir? Ósannað er að amygdalin drepi krabbameinsfrumur eða minnki líkur á að krabbamein taki sig upp á ný. Ekki er mælt með því að konur með brjóstakrabbamein taki inn amygdalín.
Antineoplastons
Einnig þekkt sem: Burzynski þerapía (af því að læknirinn Stanislaw Burzynski þróaði þá).
Möguleg not: Antineoplastons er manngerð efnasamsetning unnin úr blóði og þvagi. Hún er talin hafa ónæmiseiginleika sem geti unnið á krabbameini.
Venjulegur skammtur: Antineoplastons eru gefin í æð og aðeins við stofnunina Burzynski Institute in Houston, Texas.
Er einhver hætta á ferðum? Upplýsingar hafa borist um aukaverkanir svo sem útbrot, vindgang, hita og breytingar á blóðþrýstingi.
Hvað sýna rannsóknir? Stofnunin Burzynski Institute er nú að láta gera rannsóknir undir handleiðslu Krabbameinssamtaka Bandaríkjanna (National Cancer Institute - NCI). NCI rannsóknum sem hófust árið 1993 var hætt árið 1995 vegna þess að efasemdir vöknuðu um hvernig að þeim var staðið. Þar til frekari niðurstöður af rannsóknum liggja fyrir er ekki mælt með antineoplastons við meðferð brjóstakrabbameins.
Astragalus (græðihnúta) Einnig þekkt sem: huang chi, milk vetch, astragalus membranaceus.
Möguleg not: Talið er að þessi jurt geti styrkt ónæmiskerfi og lifur og dregið úr hættu á krabbameini.
Venjulegur skammtur: 500 milligrömm þrisvar á dag.
Er einhver hætta á ferðum? Ekki hafa borist upplýsingar um neinar marktækar aukaverkanir. Séu þér gefin lyf sem bæla ónæmiskerfið, skaltu EKKI taka inn astragalus.
Hvað sýna rannsóknir? Engar rannsóknir hafa verið gerðar á fólki á astrogalus og brjóstakrabbameini.
Beta karótín
Einnig þekkt sem: Beta-carotene, carotenes, carotenoid, próvítamín A.
Möguleg not: Hugsanlegt er að beta karótín dragi úr hætti á sumum tegundum krabbameins, dragi úr aldurstengdri sjóndepilsrýrnun og styrki hjartað og starfsemi þess.
Venjulegur skammtur: Ekki er mælt með beta karótíni sem fæðubótarefni (til viðbótar við það sem fæst úr fæðunni) fyrir allan almenning. Ef fólk borðar fimm skammta af ávöxtum og grænmeti á dag, fær það um það bil sex til átta milligrömm af beta karótíni sem er nægilegt.
Er einhver hætta á ferðum? Beta karótín er talið öruggt þegar það fæst með því að borða vel samsetta fæðu. Stórir skammtar til viðbótar geta gert húðina gula eða appalsínugula og orðið til þess að AUKA skemmdir af völdum stakeinda í líkamanum.
Hvað sýna rannsóknir? Rannsóknir benda til að konur sem greinst hafa með brjóstakrabbamein og neyta fæðu sem inniheldur mikið af grænmeti og ávöxtum og þar af leiðandi allar tegundir karótíns (ekki eingöngu beta karótíns) eigi síður á hættu að brjóstakrabbamein taki sig upp. Engar sannanir eru fyrir því að fæðubótarefni eigi þátt í þessum fyrirbyggjandi áhrifum. Frekari rannsókna er þörf.
Conjugated-Linoleic Acid (CLA) (blanda mismunandi ísómera, þ.e. kemískra forma línólsýru. Línólsýra er fitusýra.)
Einnig þekkt sem: CLA, CLA-frí fitusýra, CLA-FFA.
Möguleg not: Talið er að CLA geti dregið úr hættu á krabbameini, unnið gegn miklu þyngdartapi af völdum krabbameins og hjálpað fólki almennt að léttast.
Venjulegur skammtur: CLA finnst í mjólkurafurðum, nautakjöti, villibráð, geitakjöti og kindakjöti. Skammtar frá 2 grömmum að 7 grömmum á dag hafa verið notaðir til að framkalla þyngdartap hjá offitusjúklingum.
Er einhver hætta á ferðum? Talið er óhætt að neyta þess magns sem finnst í fæðu. Hefur ekki verið nægilega rannsakað til að ganga úr skugga um hvort mögulegt sé að taka það inn sem fæðubótarefni
Hvað sýna rannsóknir? CLA getur hugsanlega minnkað fitumagn í líkamanum, en ýtir ekki undir þyngdartap. Engar rannsóknir hafa verið gerðar á fólki til að kanna áhrif CLA á brjóstakrabbamein.
E-vítamín
Einnig þekkt sem: tókóferól, tocopherol, tocopheryl acetate, tocopheryl acid succinate, tocopheryl succinate.
Möguleg not: E-vítamín er notað til að draga úr hættu á hjartasjúkdómum og meðhöndla þá og til að minnka hugsanlega hættu á krabbameini. Það er einnig notað við tíðahvarfaeinkennum svo sem hitakófum sem geta tengst meðferð við brjóstakrabbameini. Þegar það er notað sem áburður eða olía kann það að draga úr ertingu í húð af völdum geislameðferðar.
Venjulegur skammtur: Venjulegur ráðlagður dagskammtur fyrir konur er 200 til 400 alþjóðlegar einingar. Ráðlagður dagskammtur mundi í þínu tilfelli ráðast af greiningu og heilsufari að öðru leyti.
Er einhver hætta á ferðum? 400 alþjóðlegar einingar eða meira af E-vítamíni hefur verið sett í samband við aukna hættu á heilablæðingu sé það tekið lengi í svo stórum skömmtum.
Hvað sýna rannsóknir? E-vítamín virðist ekki hafa nein áhrif í þá átt að draga úr hitakófum hjá konum sem greinst hafa með brjóstakrabbamein.
Engifer
Einnig þekkt sem: Zingiber officinale, ginger, ginger root.
Möguleg not: Engiferrót er talin draga úr ógleði og uppköstum.
Venjulegur skammtur: Mælt er með skammti sem er minni en 5 grömm á dag. Hægt er að fá engifer í pilluformi, ferska engiferrót, sem te og sykraðan engifer.
Er einhver hætta á ferðum? Að neyta meira en fimm gramma á dag getur valdið brjóstsviða og útbrotum.
Hvað sýna rannsóknir? Verið er að skipuleggja rannsókn á vegum stofnunarinnar National Center for Complementary and Alternative Medicine (alríkisstofnun um viðbótar- og hjáleiðir í lækningum) til að kanna hvort dregur úr ógleði við að fá engifer jafnhliða krabbameinslyfjum. Fyrri rannsóknir hafa ekki gefið einhlít svör.
Essíak-seyði/te Einnig þekkt sem: Essiac Tea (betelrót, mulin hundasúrurót, mulinn börkur af hálum álmi (lat.: ulmus fulva, e.: slippery elm) og mulin rabbabararót, (þetta eru þær fjórar jurtir sem essíak-seyði er gert af).)
Möguleg not: Essíak-te er notað til hressingar og til að styrkja ónæmiskerfið. Því hefur verið haldið fram að það geti læknað krabbamein.
Venjulegur skammtur: 60 til 120 g á dag.
Er einhver hætta á ferðum? Meðal mögulegra aukaverkana eru ógleði og uppköst, niðurgangur og útbrot. Áhrifin geta versnað ef fólk er með léleg nýru eða skerta lifrarstarfsemi.
Hvað sýna rannsóknir? Ekki eru til neinar rannsóknir sem styðja við meinta gagnsemi essíak-seyðis. Ekki er mælt með því í því skyni að lækna eða minnka hættu á brjóstakrabbameini eða annarri tegund krabbameins.
Evrópskur mistilteinn
Einnig þekktur sem: Viscum album, European mistletoe, all-heal, devil's fuge, Drudenfuss, Eurixor, Helixor, Hexenbesen, Iscador, isorrel, visci, Vysorel.
Möguleg not: Sagt er að mistilteinn geti dregið úr hliðarverkunum meðferðar með krabbameinslyfjum og geislum. Einnig er talið að hann geti læknað þunglyndishöfuðverk, svefntruflanir og tíðahvarfaeinkenni.
Venjulegur skammtur: Laufblöð, stilkar og ber er notað jöfnum höndum. Einnig er hægt að gefa virku efnin í æð. Skammtar eru af mjög mismunandi stærð. Ekki er mælt með því að fólk reyni að lækna sig sjálft með mistilteini.
Er einhver hætta á ferðum? Rangur skammtur af mistilteini getur framkallað krampaköst og flog, of lágan blóðþrýsting, of hægan hjartslátt og getur leitt til dauða. Aldrei skyldi nota mistiltein í heilsubótarskyni án þess að tala fyrst við lækni.
Hvað sýna rannsóknir? Rannsóknir þær sem gerðar hafa verið hafa reynst illa hannaðar og niðurstöður misvísandi. Ekki er mælt með mistilteini til að meðhöndla eða draga úr hættu á brjóstakrabbameini eða í því skyni að ráða bót á aukaverkunum meðferðar við krabbameini. Af því getur hlotist alvarlegur skaði.
Fólínsýra
Einnig þekkt sem: B complex vitamin, folacin, folate.
Möguleg not: Folate er samheiti á fjölþátta B-vítamíni. Fólínsýra er hin manngerða tegund fjörefnisins. Fólínsýra er notuð til að koma í veg fyrir eða lækna skort á folate. Einnig er talið að hún geti dregið úr hættu á ristilkrabbameini, hjartasjúkdómum og þunglyndi auk þess að geta haft örvandi áhrif á heilastarfsemi.
Venjulegur skammtur: Skammturinn ákvarðast af ástandi og sjúkdómsgreiningu. Fólínsýra er yfirleitt tekin um munn sem hluti af alhliða B-vítamíntöflu (B vitamin Complex) sem gefur 400-800 míkrógrömm á dag.
Er einhver hætta á ferðum? Talið er óhætt að neyta vítamínbættrar fæðu með fólínsýru eða fjörefnatöflu með fólínsýruinnihaldi ef skammturinn er undir 1.000 mikrógrömmum á dag. Stærri skammtar en fimm milligrömm á dag geta valdið magakrampa og niðurgangi. Að taka inn stóra skammta af fólinsýru getur falið skort á B-12 vítamíni.
Hvað sýna rannsóknir? Neytir þú áfengis, hversu lítið sem það er, skaltu íhuga að taka daglega inn fjölvítamíntöflu eða B-complex hylki með 400 míkrógrömmum af fólínsýru. Með því að bæta þessu magni af folate við fæðuna geturðu hugsanlega dregið úr þeirri mögulegu (óverulegu) hættu sem bætist við líkur á brjóstakrabbameini af áfengisneyslu. Engar sannanir liggja fyrir um að fólínsýra geti dregið úr þunglyndi. Niðurstöður af rannsóknum á fólínsýru og heilastarfsemi hafa ekki gefið einhlít svör
Grænt te
Einnig þekkt sem: Camellia sinensis, green tea polyphenols, EGCG (epigallocatechin-3-gallate).
Möguleg not: Því er haldið fram að EGCG, helsta andoxunarefnið í grænu tei, geti dregið úr hættu á brjóstakrabbameini og öðrum tegundum krabbameins.
Venjulegur skammtur: Um það bil þrír til fjórir bollar á dag.
Er einhver hætta á ferðum? Í einum bolla af grænu tei eru um það bil 25 milligrömm af koffíni, minna en í svörtu tei og kaffi. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir koffíni geta orðið taugaspenntir og fundið til ógleði.
Hvað sýna rannsóknir? Í rannsóknum á tilraunastofum hefur komið í ljós að EGCG breytir vexti krabbameinsfrumna. Engar rannsóknir hafa hins vegar verið gerðar á fólki enn sem komið er. Rannsóknir á því hvaða áhrif grænt te kann að hafa á líkur á krabbameini eru stutt á veg komnar.
Hákarlabrjósk
Einnig þekkt sem: SC (Shark Cartilage), carticin, Cartilade, BeneFin
Möguleg not: Fullyrt er að hákarlabrjóst geti drepið krabbameinsfrumur, styrki ónæmiskerfið og komi í veg fyrir að nýjar æðar veiti næringu til krabbameinsfrumna.
Venjulegur skammtur: Hægt er að fá hákarlabrjósk í ýmsum myndum og magnið mismikið eftir því. Daglegir skammtar geta verið frá 500 milligrömmum upp í 2 grömm.
Er einhver hætta á ferðum? Meðal aukaverkana eru ógleði, uppköst, niðurgangur, vindgangur og hægðatregða.
Hvað sýna rannsóknir? Engar klínískar rannsóknir eru til sem sýni að hárkarlabrjóst hafi áhrif á brjóstakrabbamein eða annars konar krabbamein.
Hydrazine Sulfate
Einnig þekkt sem: hydrazine, hydrazine monosulfate.
Möguleg not: Fullyrt er að það megi nota til að meðhöndla mikið þyngdartap af völdum krabbameins.
Venjulegur skammtur: Þetta efni er tekið um munn eða gefið í æð, en FDA (bandaríska lyfjastofnunin) leyfir aðeins að það sé notað í klínískum rannsóknum, undir eftirliti lækna.
Er einhver hætta á ferðum? Mögulegar aukaverkanir eru m.a. ógleði, svimi, doði, smástingir og blóðsykurskortur.
Hvað sýna rannsóknir? Gerðar hafa verið nokkrar stórar klínískar rannsóknir, en þær hafa ekki leitt í ljós neitt gagn af því að fá hydrazine sulfate.
Hörfræ eða hörfræolía
Einnig þekkt sem: lat.: Linum usitatissimum, e.: flaxseed, linseed.
Möguleg not: Talið er að lignan í hörfræi geti bundist estrógenviðtökum og dregið úr hættu á brjóstakrabbameini.
Venjulegur skammtur: 30 til 50 grömm af hörfræi á dag. Hörfræ er hægt að kaupa í pökkum (heil fræ), sem olíu eða í hylkjum með hörfræolíu.
Er einhver hætta á ferðum? Konur sem einhvern tíma hafa fengið brjóstakrabbamein með estrógenviðtökum (estrógen-jákvætt brjóstakrabbamein) ættu að fara varlega í að nota hörfræolíu vegna þess að hún getur virkað eins og veikt estrógen. Meðal aukaverkana geta verið væg óþægindi í maga og ofnæmislost.
Hvað sýna rannsóknir? Sumar rannsóknir benda til þess að hörfræ dragi úr frumuvexti. Konum með brjóstakrabbamein án estrógenviðtaka (estrógen-neikvætt brjóstakrabbamein) er trúlega óhætt að taka inn hörfræ þótt gagnsemi þess hafi ekki verið sönnuð með klínískum rannsóknum.
Jóhannesarrunni
Einnig þekktur sem: Amber, demon chaser, fuga daemonum, goat weed, hypereikon, hyperici herba, hypericum, klamath weed, millepertuis, rosin rose, tipton weed.
Möguleg not: Sagt er að Jóhannesarrunni geti slegið á þunglyndi, kvíða og geðsveiflur af völdum tíðahvarfa.
Venjulegur skammtur: Til að meðhöndla vægt eða miðlungs þunglyndi hafa verið notuð 900 til 1.200 milligrömm á dag í klínískum rannsóknum. Til að meðhöndla kvíða voru notuð 600 milligrömm á dag
Er einhver hætta á ferðum? Jóhannesarrunni getur truflað áhrif margvíslegra lyfja og ÆTTI EKKI AÐ NOTA á meðan á meðferð með krabbameinslyfjum stendur. Hjá sumu fólki getur Jóhannesarrunni framkallað útbrot eftir að það hefur verið í sól. Meðal annarra hugsanlegra aukaverkana eru svefntruflanir, miklar draumfarir, eirðarleysi, kvíði, uppnám, pirringur, ólga í maga, niðurgangur, þreyta, munnþurrkur og svimi.
Hvað sýna rannsóknir? Sýnt hefur verið fram á að Jóhannesarrunni getur haft jafnmikil áhrif og sum lyf sem ætlað er að laga vægt til miðlungsmikið þunglyndi. Árangur af að nota hann til að stilla kvíða er ekki einhlítur.
Kamilla
Einnig þekkt sem: Matricaria recutita, manzanilla, matricaire, pin heads.
Möguleg not: Kamilla er notað til að skola munn og meðhöndla sár af völdum meðferðar með krabbameinslyfjum. Hún er einnig talin gott svefnlyf.
Venjulegur skammtur: Til að skola munn eru settir 10 til 15 dropar af kamilluextrakti í hálfan bolla af heitu vatni þrisvar á dag. Kamillu er einnig hægt að drekka sem te.
Er einhver hætta á ferðum? Ekki hafa borist upplýsingar um neinar marktækar aukaverkanir af því að drekka kamillute. Skammtímanot (allt að átta vikum) sem munnskol hafa heldur ekki leitt í ljós neinar marktækar aukaverkanir.
Hvað sýna rannsóknir? Ein rannsókn á fólki sýndi að sár í munnholi af völdum meðferðar með krabbameinslyfjum minnkuðu við að nota kamillu sem munnskol.
Kava
Einnig þekkt sem : Piper methysticum, ava, awa, gea, gi, intoxicating long pepper, kao, kawapfeffer, kew, malohu, maluk, rauschpfeffer, rhizome di kava-kava, sakau, tonga, wurzelstock, yagona. Kava er piparjurt. Í rótinni er mest magn virkra efna. Notkun hennar er rakin til eyjaskeggja í Kyrrahafi.
Möguleg not: Kava er tekið um munn og fullyrt að hún geti minnkað hættu á krabbameini auk þess sem hún geti dregið úr kvíðaröskunum, streitu, geðtruflunum, ofvirkni með athyglisbresti, svefnleysi, eirðarleysi og fleira.
Venjulegur skammtur: 100 milligrömm af extrakti þrisvar á dag.
Er einhver hætta á ferðum? Kava hefur verið sett í samband við lifrarskemmdir hjá litlum fjölda fólks sem tók inn venjulega skammt. Sumir kunna að vera viðkvæmari fyrir lifrarskemmdum en aðrir. Því ættu allir að fara í reglulega lifrarrannsókin áður en þeir taka inn kava.
Hvað sýna rannsóknir? Gerðar hafa verið tvær litlar rannsóknir sem sýna að kava skilar betri árangri en lyfleysa þegar kemur að því að stilla kvíða tengdan tíðahvörfum. Engar rannsóknir hafa verið gerðar á verkun kava á fólk með brjóstakrabbamein.
Kínahvönn (Dong Quai)
Einnig þekkt sem: Angelica sinensis, kínversk hvönn, dang gui, danggui, dong qua, ligustilides, tan kue bai zhi, tang kuei.
Möguleg not: Sagt er að kínahvönn dragi úr tíðahvarfaeinkennum, háum blóðþrýstingi, blóðleysi, hægðatregðu og ofnæmisviðbrögðum.
Venjulegur skammtur: 4,5 grömm af mulinni jurt á dag.
Er einhver hætta á ferðum? Talið er óhætt að taka inn kínahvönn í stuttan tíma. Áhrif þess að taka hana inn í langan tíma eða í stórum skömmtum hafa ekki verið rannsökuð.
Hvað sýna rannsóknir? Ekki hefur verið nægilega rannsakað hvort óhætt sé að taka inn kínahvönn eða hvaða áhrif hún hefur við tíðahvarfaeinkennum. Engar rannsóknir hafa verið gerðar með tilliti til áhrifa á fólk með brjóstakrabbamein.
Kóensím Q10
Einnig þekkt sem: Ubiquinone, ubiquinol, CoQ
Möguleg not: Kóensím dregur mögulega úr hættu á einhverjum tegundum krabbameins, styrkir ónæmiskerfið og ver mögulega hjartað gegn aukaverkunum af sumum tegundum meðferðar með krabbameinslyfjum. Kóensím Q10 verkar sem andoxunarefni.
Venjulegur skammtur: 180 milligrömm á dag. Verði skammturinn stærri, er mælt með að taka hluta hans að morgni og hluta að kveldi eða skipta honum jafnvel í þrjá minni hluta og taka með máltíðum.
Er einhver hætta á ferðum? Þótt engar upplýsingar hafi borist um marktækar aukaverkanir af því að taka inn Q10 kóensím, er vitað að sumar konur finna fyrir ógleði, niðurgangi, svefnleysi og minni matarlyst.
Hvað sýna rannsóknir? Rannsóknir á dýrum hafa sýnt að kóensímið Q10 örvar ónæmiskerfið. Sambærilegar rannsóknir hafa hins vegar ekki verið gerðar á fólki. Aðeins ein klínísk (handahófs) rannsókn hefur verið gerð á fólki sem hefur greinst með krabbamein. Sú rannsókn benti til að kóensímið Q10 drægi úr áhrifum krabbameinslyfsins doxorubicin á hjartað. Í öðrum rannsóknum þar sem valdar voru konur með brjóstakrabbamein, benti ýmislegt til einhverrar gagnsemi, en vandamál tengd rannsóknunum gerðu það ómögulegt að ákvarða hvort gagnsemin tengdist kóensíminu Q10.
Úttekt vantar, en með því að smella á heitið í listanum að ofan fæst aðgangur að ýmsum greinum sem varða þetta séríslenska jurtalyf.
Maitake sveppur Einnig þekktur sem: Grifola frondosa, king of mushrooms, dancing mushroom, cloud mushroom.
Möguleg not: Talið er að virka efnið í maitake sveppnum (beta-glúkan fjölsykrungur) geti styrkt ónæmiskerfið.
Venjulegur skammtur: Um það bil þrjú til fimm grömm á dag. Hægt að fá í hylkjum, töfluformi, fljótandi eða borða sveppinn hráan.
Er einhver hætta á ferðum? Áhrif þessa svepps á fólk hafa ekki verið ítarlega könnuð og því eru aukaverkanir óþekktar.
Hvað sýna rannsóknir? Á rannsóknarstofum þar sem mýs voru notaðar til að kanna áhrif sveppsins, hefur virka efnið verið sett í samband við aukin ónæmisviðbrögð í beinmergsfrumum og minnkandi eituráhrif af lyfinu Adriamycin (efnafræðiheiti: doxorubicin) í frumum. Engar áþreifanlegar sannanir eru þó fyrir því að maitake sveppir geti haft áhrif á brjóstakrabbamein. Frekari rannsókna er þörf.
Mjólkurþistill
Einnig þekktur sem : Silybum marianum, milk thistle, holy thistle, lady's thistle.
Möguleg not: Talið er að mjólkurþistill geti dregið úr þeim breytingum á lifrarstarfsemi sem meðferð með krabbameinslyfjum kann að framkalla. Sumir taka einnig inn mjólkurþistil til að draga úr hættu á krabbameini.
Venjulegur skammtur: 240 milligrömm tvisvar á dag.
Er einhver hætta á ferðum? Mjólkurþistill getur truflað virkni sumra tegunda krabbameinslyfja. Talaðu við lækni áður en þú byrjar að taka hann. Extrakt úr öðrum hlutum plöntunnar en fræjunum getur aukið estrógenmagn í líkamanum. Aukaáhrif geta m.a. verið magaverkir, ofnæmisviðbrögð og niðurgangur.
Hvað segja rannsóknir? Rannsóknir á tilraunastofum benda til þess að mjólkurþistill geti dregið úr vexti krabbameinsfrumna, en rannsóknir hafa ekki verið gerðar á fólki.
Ómega-3 fitusýra
Einnig þekkt sem: lýsi, fish oils, eicosapentaenoic acid (EPA)/docosahexaenoic acid (DHA), alpha-linolenic acid (plöntugerð af omega-3).
Möguleg not: Að draga hugsanlega úr hættu á krabbameini í brjóstum, ristli og blöðruhálskirtli.
Venjulegur skammtur: Hægt er að fá ómega-3 fitusýru úr feitum fiski eins og laxi, túnfiski, sardínum og makril, en einnig úr valhnetum, sojamat og hörfræi. (Um það bil tveir til þrír skammtar á viku er æskilegast). Lýsi er einnig hægt að fá í hylkjum og lýsispillum.
Er einhver hætta á ferðum? Fáir þú meira en þrjú til fimm grömm á dag af ómega-3 fitusýru í líkamann, getur það aukið hættu á blæðingu. Meðal annarra aukaverkana eru magakveisa og lágur blóðþrýsingur. Þegar ómega-3 fitusýra fæst úr fæðu (en ekki sem fæðubótarefni) eru slíkar aukaverkanir afar sjaldgæfar.
Hvað sýna rannsóknir? Í rannsóknum sem hafa verið gerðar á dýrum benda niðurstöður til að ómega-3 fitusýra geti aukið virkni krabbameinslyfja eins og doxorubicin og epirubicin í að drepa krabbameinsfrumur. Fæði venjulegs Bandaríkjamanns og þeirra sem hafa tileinkað sér sams konar mataræði inniheldur lítið af ómega-3 fitusýru.
Rauðsmári
Einnig þekktur sem: Daidzein, genistein, isoflavone, phytoestrogen, red clover, purple clover, trefoil, trifolium, beebread, clovone.
Möguleg not: Rauðsmári er notaður til að meðhöndla tíðahvarfaeinkenni og verki í brjóstum. Meðal virkra efna í rauðsmára eru plöntuestrógen (phytoestrogens).
Venjulegur skammtur: Til að minnka hitakóf hafa verið notuð 40-160 milligrömm á dag af extrakti. Að öðru leyti er engin ákveðin skammtastærð.
Er einhver hætta á ferðum? Meðal aukaverkana má nefna útbrot, höfuðverk, ógleði, blæðingar frá leggöngum og útferð. Rauðsmári getur aukið blæðingar, einkum ef jafnframt eru tekin inn blóðþynnandi lyf eða jurtalyf.
Hvað segja rannsóknir? Rauðsmári getur truflað verkun móthormónalyfja. Ekki er mælt með honum fyrir konur sem eru með brjóstakrabbamein með estrógenviðtökum (estrógen-jákvætt brjóstakrabbamein). Rannsóknir benda til að hann hafi lítil sem engin áhrif á hitakóf.
Reishi sveppur
Einnig þekktur sem: Ganoderma lucidum, ling chih, ling zhi, mannentake, mushroom of immortality, mushroom of spiritual potency, rei-shi, spirit plant.
Möguleg not: Talið er að reishi sveppir getir örvað ónæmiskerfið.
Venjulegur skammtur: Eitt til níu grömm af þurrkuðum sveppasneiðum EÐA eitt til eitt og hálft gramm af sveppaduftinu EÐA einn millilítri af fljótandi sveppatinktúru á dag. Einnig má sjóða te eða seyði af sveppunum.
Er einhver hætta á ferðum? Sumir hafa ofnæmi fyrir gróum reishi sveppsins. Við langvarandi notkun (í meira en hálft ár) geta aukaverkanir ma.a. orðið þurr slímhúð, kláði, magakveisa og blóð í hægðum.
Hvað segja rannsóknir? Ekki liggja fyrir nægar rannsóknir til að skera úr um gagnsemi reishi sveppsins. Engar klínískar rannsóknir eru til sem sýni áhrif hans á brjóstakrabbamein.
Resveratrol
Einnig þekkt sem: Kojo-kon, phytoestrogen, protykin.
Möguleg not: Talið er að resveratrol auki magn “góðs” kólestróls, HDL (high-density lipoprotein) í blóði. Einnig er staðhæft að resveratrol getur dregið úr hættu á ýmsum tegundum krabbameins. Resveratrol er veikt plöntuestrógen og virkar einnig sem andoxunarefni.
Venjulegur skammtur: Enginn ákveðinn skammtur er þekktur. Resveratrol er að finna í rauðvíni, hýði rauðra vínberja, í rauðum greipaldinum, mórberjum og í jarðhnetum (peanuts).
Er einhver hætta á ferðum? Af því að reservatrol hefur lítilsháttar estrógenvirkni er æskilegt að konur með brjóstakrabbamein neyti aðeins mjög lítils af því sem inniheldur resveratrol.
Hvað segja rannsóknir? Engar klínískar rannsóknir hafa verið gerðar sem sýni áhrif á brjóstakrabbamein. Engu að síður er talið að fæða sem inniheldur rersveratrol sé hluti af heilsusamlegu mataræði.
Selen
Einnig þekkt sem: selenium, selenomethionine, selenocysteine.
Möguleg not: Selen getur dregið úr hættu á krabbameini í blöðruhálskirtli, ristli, maga, lungum og brjóstum. Selen virkar sem andoxunarefni.
Venjulegr skammtur: 55 míkrógrömm á dag. Uppspretta selens í fæðu eru m.a. brasilíuhnetur, sjávarfang, morgunkorn og heilkorn.
Er einhver hætta á ferðum? Séu tekin inn meira ein 1.000 míkrógrömm á dag, getur það framkallað magakveisu, vöðvaslen, þreytu og doða eða náladofa í höndum og fótum (truflun í úttaugakerfi).
Hvað sýna rannsóknir? Með klínískum rannsóknum er nú kannað hvort selen eigi mögulega þátt í að draga úr hættu á brjóstakrabbameini. Ein rannsókn virðist benda til að selen kunni að eiga þátt í að draga úr sogæðabólgu sem afleiðingu af krabbameinsmeðferð. Selen kann einnig að minnka hármissi, magaverki og lystarstoli hjá sjúklingum með krabbamein í eggjastokkum á meðan þeir gangast undir meðferð með krabbameinslyfjum.
Slöngujurt (black cohosh)
Einnig þekkt sem: lat.: Cimicifuga racemosa, cimicifuga, e.: baneberry, bugwort, black snakeroot, rattle root, squaw root.
Möguleg not: Sagt er að slöngujurt geti dregið úr tíðahvarfaeinkennum, einkum hitakófum.
Venjulegur skammtur: Seyði, extrakt, sem inniheldur eitt milligram af virku efni, tekið inn tvisvar á dag.
Er einhver hætta á ferðum? Hugsanlega er óhætt að taka inn slöngujurt í þeim skammti sem mælt er með, en meðal mögulegra aukaverkana eru engu að síður lifrarskemmdir og sjálfsónæmis lifrarbólga.
Hvað sýna rannsóknir? Ein klínísk rannsókn sem vitað eru um gaf til kynna að hjá konum með brjóstakrabbamein hafði slöngujurt engin áhrif umfram lyfleysuna sem gefin var viðmiðunarhópnum. Forstigsrannsókn á einstökum frumum gefur til kynna að slöngujurt virki á einhvern hátt á estrógenviðtaka frumna. Þar til meira er vitað er konum með brjóstakrabbamein eða þeim sem miklar líkur eru á að fái það, ráðlagt að taka ekki inn slöngujurt.
Svart te
Einnig þekkt sem: Camellia senensis, camellia sinensis, English tea.
Möguleg not: Sagt er að svart te geti hugsanlega dregið úr hættu á ýmsum tegundum krabbameins, þar á meðal brjóstakrabbameini. Það er einnig notað til að slá á magaverki og kvilla eins og uppköst og niðurgang og minnka hættu á nýrnasteinum. Svart te er einnig notað sem þvagræsilyf til að losa uppsafnaðan vökva úr líkamanum.
Venjulegur skammtur: Einn til fjórir bollar á dag.
Er einhver hætta á ferðum? Í svörtu tei eru um það bil 55 milligrömm af koffíni í hverjum bolla þannig að það getur valdið svefnleysi, kvíða, eirðarleysi, magakveisu, ógleði, uppköstum og of hröðum andardrætti. Stórir skammtar geta framkallað höfuðverk, kvíða og of hraðan hjartslátt.
Hvað sýna rannsóknir? Svart te inniheldur andoxunarefni sem veita vörn gegn stakeindum. Þær rannsóknir sem til þessa hafa verið gerðar sýna þó ekki að svart te minnki hættu á brjóstakrabbameini eða öðrum tegundum krabbameins.
Túrmerik
Einnig þekkt sem: curcuma longa, turmeric, Indian saffron, curcumin.
Möguleg not: Sagt er að turmeric, sem er andoxunarefni, geti dregið úr hættu á mörgum tegundum krabbameins og sömuleiðis komið í veg fyrir sýkingar og bólgur.
Venjulegur skammtur: Túrmerik er krydd og notað í matseld (í ýmsa karrípottrétti og aðra asíska og indverska rétti). Nokkrar tegundir fæðubótarefnisins eru fáanlegar en engin ákveðin skammtastærð.
Er einhver hætta á ferðum? Flestir þola ágætlega það magn sem fæst með fæðu. Aukaverkanir af stórum skömmtum gætu orðið ofnæmisviðbrögð og magaverkur.
Hvað sýna rannsóknir? Rannsóknir á tilraunastofum gefa til kynna að túrmerik geti dregið úr vexti krabbameinsfrumna eða dregið úr hættu á krabbameini. Engar rannsóknir hafa þó verið gerðar á fólki.
Villt Yam
Einnig þekkt sem: Kínarót, Wild Yam, Dioscorea composita, barbasco, China root, yuma, colic root, devil's bones, rheumatism root.
Möguleg not: Í villtu yam er plöntuestrógen. Sagt er að dregið geti úr leggangnaþurrki að taka það inn og að áburður úr villtu yam geti slegið á hitakóf.
Venjulegur skammtur: Engir dæmigerðir skammtar.
Er einhver hætta? Villt yam inniheldur efnasambandið dehydroepiandrosterone (DHEA). DHEA er steri sem líkaminn getur breytt í estrógen. Þar sem það getur verkað eins og estrógen í líkamanum er ekki mælt með því fyrir konur með brjóstakrabbamein með estrógenviðtökum (estrógen-jákvætt brjóstakrabbamein).
Hvað sýna rannsóknir? Í klínískum rannsóknum kom fram að villt yam krem var engu gagnlegra en venjulegur handáburður (lyfleysa) þegar kom að því að slá á hitakóf. Enn hafa ekki verið gerðar nægilegar rannsóknir til að ákvarða hvort villt yam getur dregið úr leggangnaþurrki.
Ýviður
Einnig þekkt sem: Ýr, Yew, Chinwood, common yew, Pacific yew, taxus.
Möguleg not: Lyfið taxol (efnafræðiheiti: paclitaxel) er unnið úr berki kyrrhafsýviðar. Lyfið taxotere (efnafræðiheiti: docetaxel) er unnið úr nálum evrópska ýviðaris. Bæði lyfin, taxol og taxotere hafa verið samþykkt af Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna til meðferðar við brjóstakrabbameini og öðrum tegundum krabbameins. Ekki skyldi taka inn ývið sem fæðubótarefni.
Venjulegur skammtur: Enginn ákveðinn skammtur.
Er einhver hætta á ferðum? Ýviður er eitraður og má alls ekki taka um munn.
Hvað segja rannsóknir? Undir handleiðslu lækna eru taxol og taxotere gagnleg krabbameinslyf. Aldrei skyldi taka inn ývið öðru vísi en undir ströngu eftirliti.
*Annars staðar á þessum vef er frá því sagt að ýmislegt bendi til þess að jurtaefni með veikri estrógenvirkni geti stuðlað að því að koma í veg fyrir brjóstakrabbamein með því að setjast á estrógenviðtaka á brjóstafrumum. Virkni jurtaestrógens sé að öllum líkindum of lítil til að framkalla brjóstkrabbamein, en nógu mikil til að hindra venjulegt estrógen í að setjast á estrógenviðtaka og örva frumuvöxt.
ÞB