Tillögur um notkun bætiefni

Áður en þú ákveður að taka inn einhvers konar bætiefni þarftu að leggja á þig dálitla heimavinnu. Það á ekki síst við sértu í meðferð við brjóstakrabbameini. Hafir þú hug á að taka inn bætiefni eða náttúrulyf, byrjaðu þá á að tala við lækni þinn og næringarráðgjafa um málið. Segðu þeim hvað það er sem þú hefur hug á að taka inn og ræddu hugsanlega ókosti eða kosti þess áður en þú byrjar.

Hafðu í huga þegar þú tekur ákvörðun um hvort þú ætlar að nota bætiefni eða ekki, að sumar tegundir bætiefna og náttúrulyfja geta haft truflandi áhrif á brjóstakrabbameinslyf og önnur lyf sem læknir ávísar.

Flestir telja að óhætt hljóti að vera að taka inn bætiefni á sama tíma og önnur lyf sem læknir skrifar upp á, en því miður er það ekki alltaf svo. Sum bætiefni geta haft áhrif á það hvernig ákveðin lyf og geislar virka, truflað meðferð og dregið úr áhrifamætti hennar. Til dæmis geta bæði rauðsmári (e.: Red clover, lat.: Trifolium pratense) og Jónsmessurunni (e.: St. John's wort, lat.: Hypericum perforatum) truflað verkun lyfsins tamoxifen í líkamanum.

Yfirleitt eru ekki gerðar rannsóknir á því, hvorki hjá lyfjafyrirtækjum né framleiðendum bætiefnia og náttúrulyfja, hver eru gagnvirk áhrif lyfja og bætiefna, þannig að í rauninni er ekki vitað hvaða áhættu er verið að taka með því að nota bætiefni meðan á meðferð stendur. Sértu að hugsa um að taka inn eitthvert ákveðið bætiefni er mikilvægt að þú talir við lækni þinn og ráðgist við hann áður en þú lætur af því verða.


Eftirlit með bætiefnum er ekki fyrir hendi í Bandaríkjunum.


*Það sem hér fer á eftir á við um Bandaríkin og getur komið sér vel fyrir þá sem kaupa eða láta kaupa fyrir sig bætiefni þar. Um eftirlit hérlendis er fjallað undir næstu fyrirsögn.

Af hálfu yfirvalda er eftirlit með öllum lyfjum sem læknar ávísa á, svo og lyfjum sem seld eru án lyfseðils (lausasölulyf). Í Bandaríkjunum er það FDA (Food and Drug Administration) sem sér um eftirlitið. Bætiefni og jurtalyf eru hins vegar ekki flokkuð sem lyf, þannig að ekki þarf að kanna áhrif þeirra og öryggi jafn ítarlega og lyfja. Með öðrum orðum telja yfirvöld bætiefni og jurtalyf að jafnaði „örugg” þar til annað kemur í ljós. Aftur á móti þarf að sanna að annars konar lyf séu örugg og hafi áhrif ÁÐUR EN þau eru sett á markað.

Þetta eftirlitsleysi veldur því meðal annars að engin trygging er fyrir því að bætiefni sé hreint – þ.e.a.s. að það innihaldi aðeins þau efni sem getið er um á merkimiðanum og ekkert annað. Engin trygging er heldur fyrir því að magn næringarefna, jurta eða lækningajurta sé í samræmi við það sem staðhæft er á merkimiðanum.

Áður en þú tekur inn bætiefni þarftu að afla þér þekkingar. Spurðu lækni þinn eða löggiltan næringarráðgjafna hvort einhverjar kannanir hafi verið gerðar á á samverkan bætiefnisins sem þú hefur áhuga á og meðferðarinnar sem þú ert í.

Þú þarft líka að finna áreiðanlegan framleiðanda sem þú getur treyst til að framleiða aðeins bætiefni í hæsta gæðaflokki. Lyf sem læknar ávísa á svo og lyf sem afgreidd eru án lyfseðils (lausasölulyf) þurfa að uppfylla kröfur og staðla sem settir eru af USP (U.S.Pharmacopeia). Lyfjastofnun þessi hefur gefið út staðla fyrir bætiefni. Hins vegar þurfa framleiðendur ekki að fylgja þeim frekar en þeim sýnist – þeim er það í sjálfsvald selt. Því getur verið góð regla að athuga hvort USP merkið er einhvers staðar á merkimiðanum. Ef merkið er þar að finna þýðir það að fyrirtækið hefur skuldbundið sig lagalega til að uppfylla USP staðlana gagnavart Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA).

*Eftirlit með bætiefnum hér á landi

Matvælastofnun hefur yfirumsjón með reglugerð um bætiefni og fer með innflutningseftirlit með bætiefnum hér á landi. Eftirlit með vörum á markaði er í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga.

Leiki vafi á því hvort vara teljist lyf, sker Lyfjastofnun úr um það. Við eftirlit er aðallega stuðst við upplýsingar sem fram koma á umbúðum en lítið er um að efnainnihald vörunnar sé rannsakað.

Þó að eftirlit með innflutningi bætiefna hafi verið aukið síðustu misseri er langt frá því að allar vörur séu skoðaðar áður en þær komast á markað. Meginhluti eftirlitsins er því markaðseftirlit. Vara getur þar af leiðandi komist í hillur verslana, og jafnvel staðið þar um skeið, áður en heilbrigðiseftirlitið uppgötvar að um ólöglega vöru sé að ræða og stöðvar dreifingu hennar.

Því er eins farið hér á landi og í Bandaríkjunum að engin trygging er fyrir því að bætiefni sé hreint og innihaldi aðeins þau efni og í því magni sem um er getið á merkimiðanum. Auk þess gæti varan flokkast sem lyf og því verið ólögleg á markaði hérlendis.

„Náttúruvara" þýðir ekki endilega að óhætt sé að taka hana inn.


Margir telja að fæða eða bætiefni í sinni upprunalegu, náttúrlegu mynd séu heilnæmari og öruggari en það sem hefur verið unnið eða búið til (kemísk bætiefni). Svo þarf þó ekki að vera. Sum eitruðustu efnin eru það í sinni náttúrlegu mynd. Sem dæmi má nefna eitraða sveppi og eiturefnið vomitoxin, framleitt af sveppum sem vaxa á korni. Hvort tveggja eru baneitruð en fullkomlega náttúrleg efni.

Ekki er mikilvægast að spyrja hvort eitthvað komi beint úr náttúrunni heldur :

  • Bætir það heilsuna?

  • Er óhætt að taka það?

  • Eru skammtar nákvæmir og allir eins?

  • Er það laust við aukaefni?

  • Hefur það áhrif á önnur lyf sem ég fæ vegna meðferðarinnar?

Flest öll næringarefni sem þú þarft á að halda áttu að geta fengið úr fæðu, einkum úr ávöxtum og grænmeti. Læknir þinn eða löggiltur næringarráðgjafi kann að mæla með að þú takir eina fjölvítamín- eða steinefnatöflu á dag eða eitthvert ákveðið næringarefni sem vantar í fæðuna. Sama á við þurfir þú á sérstaklega stórum skammti að halda.

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

*Kaflaheiti merkt stjörnu

Þessi texti er frá Lyfjastofnun og Matvælastofnun og birtur með þökkum. 

ÞB