Matvælaframleiðsla

Skordýra- og plöntueyðir er notaður við ræktun margra tegunda ávaxta, grænmetis og korns til að verja uppskeruna skordýrum, illgresi, sveppum, sýkingum, músum og öðrum dýrum, sýklum, vírusum og myglu.

*Hér á landi eru flest allir ávextir og stór hluti grænmetis innflutt vara og framleiðslan háð þeim reglum sem settar eru í framleiðslulandinu. Eftirlit með matvælum og hollustuháttum hér á landi er að mestu leyti á hendi Matvælastofnunar og meginmarkmið eftirlitsins að tryggja “eftir megni gæði, öryggi og hollustu matvæla með forvörn og neytendavernd að leiðarljósi; að tryggja að matvælafyrirtæki axli ábyrgð á framleiðslu og dreifingu matvæla og tryggja að neytendur fái allar nauðsynlegar upplýsingar um öryggi og gæði matvæla." Ýtarlegar upplýsingar er að finna á heimasíðu Matvælastofnunar.

Margir velta fyrir sér hvaða áhrif skordýra- og illgresiseitur geti haft á mannslíkamann. Þeir hinir sömu hafa áhyggjur af efnaleifum sem finnast í ávöxtum, grænmeti og dýrafóðri – sem berast síðan áfram í kjöt, fuglakjöt, fisk og mjólkurvörur. Ástæða er til að ætla að þessi efni geti valdið heilbrigðisvanda, þar á meðal aukinni hættu á brjóstakrabbameini. Fram til þessa hafa niðurstöður rannsókna ekki bent til þess að lítið magn efnaleifa í landbúnaðarafurðum auki hættu á brjóstakrabbameini. Sú hollusta sem vitað er að felst í fjölbreyttu mataræði með miklu af ávöxtum, grænmeti og heilu korni vegur mun þyngra en óskilgreind hætta á efnaleifum í þess konar matvælum. Þeirri spurningu er engu að síður ósvarað hvernig öruggast sé að rækta og matbúa ávexti, grænmeti, kjöt, fuglakjöt og fisk þannig að hollusta og næring verði sem mest með sem minnstri áhættu. Til að fá sem minnst af efnaleifum með matvælum er hægt velja þá leið að kaupa aðeins lífrænt ræktaða ávexti og grænmeti eða lífrænt framleidd matvæli úr dýraríkinu. Rækilegur þvottur getur einnig hjálpað til við að fjarlægja jarðveg og eiturefni.

Ósannað er hvort lífrænt ræktuð matvæli séu öruggari eða næringarríkari en matvæli sem framleidd eru á hefðbundinn hátt. Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (USDA) hefur ekki sett fram neinar staðhæfingar um slíkt. Fleiri rannsókna er þörf til að komast að því hvort lífrænt ræktuð fæða sé næringarríkari eða heilsusamlegri en fæða sem framleidd er með hefðbundunum aðferðum í landbúnaði.

Matvæli eru framleidd á marga mismunandi vegu. Þú getur lesið meira um:

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB