Erfðabreytt matvæli

*Nokkur umræða hefur átt sér stað hér á landi um erfðabreytt matvæli, en þó minni en víða annars staðar. Hérlendis er nú loksins gerð sú krafa að neytendur geti séð hvort viðkomandi afurð, innlend eða erlend, ávextir, grænmeti, kjöt eða önnur matvara, sé erfðabreytt eða ekki. Á vefsíðunni Erfðabreytt.net eru kortlagðar lög og reglur sem gilda um erfðabreytta framleiðslu og fluttar nýjustu fréttir af því sem gerist á þessu sviði á Íslandi.


Stundum má sjá á umbúðum innfluttrar matvöru upphafsstafina GMO, en þeir standa fyrir (Genetically Modified Organism), sem þýðir einfaldlega að afurðin er erfðabreytt. Sömu merkingu hafa orðin transgenetic og bioengineered sem þýðir annars vegar að erfðavísum fleiri en einnar tegundar hefur verið blandað saman og hins vegar að átt hafi verið við erfðavísana. Þessi blöndun erfðavísa er gerð af vísindamönnum á rannsóknarstofum. Erfðaefni er breytt þannig að tegundin eigi auðveldara með að ráða við illgresi, skordýr og sjúkdóma, til að auka magn næringarefna eða lengja geymsluþol uppskeru eða afurðar. Bændur í Bandaríkjunum, Argentínu og Kanada eru með hlutfallslega mesta erfðabreytta ræktun og búskap í veröldinni.

Vísindamenn vonast til þess að geta í framtíðinni þróað erfðabreyttar korntegundir sem hafi meira næringargildi en nú er, geti ráðið niðurlögum sjúkdóma, gegnt hlutverki bóluefnis eða orðið grunnur að nýjum efnum eða orkulindum. Gott dæmi um erfðabreytingu af þessu tagi eru gullnu hrísgrjónin, orðin til með erfðaefni páskalilju, þannig að þau hafa meira af beta karótíni en önnur hrísgrjón. Gullin hrísgrjón hafa verið notuð til að berjast gegn A-vítamínskorti hjá börnum í Afríku.

Erfðabreytt matvæli virðast búa yfir sömu hættu og sömu nytsemi og önnur matvæli. Víða er haft strangt eftirlit með erfðabreyttum matvælum og nákvæmra upplýsinga er krafist áður leyft er að setja nýja, erfðabreytta afurð á markað. Hingað til hafa rannsóknir ekki sýnt fram á að erfðabreytt matvæli geti haft áhrif á líkur á krabbameini eða valdið heilsutjóni þegar til lengri tíma er litið. Kærir þú þig ekki um að neyta erfðabreyttra matvæla er öruggast að halda sig við það að kaupa vottaða lífræna matvöru. Hvergi í heiminum er leyft að nota erfðabreytt fræ eða uppskeru í vottaðri, lífrænni ræktun og því á að vera óhætt að treysta merkingum eins og BIO eða BIO ORGANIC eða ORGANICALLY GROWN o.fl. af sama toga, ásamt merkinu.


*Málgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB