Lífræn matvæli

Hugtakið “lífrænn” er notað til að visa til uppskeru sem fæst án þess að notast við skordýraeyði, illgresiseyði, tilbúinn áburð eða erfðabreytingar. Hugtakið á einnig við um kjöt, fuglakjöt, egg og mjólkurafurðir þegar ekki er notast við sýklalyf eða vaxtarhormóna við búskapinn og kvikfénaður er alinn á lífrænt ræktuðu korni eða öðru lífrænu fóðri.


Er hægt að treysta því sem stendur á umbúðum?

Kannski veltirðu fyrir þér hver munurinn sé á “lífrænn”, “náttúrlegur” “vistvænn” og svo framvegis. Hugtökin “vistvænn” og “lífrænn” þýða til dæmis alls ekki það sama. Sama má segja um “náttúrlegur” og “frjáls” (free range) sem einnig sést á umbúðum, en orðið hefur ekki verið skilgreint nákvæmlega. Margir halda að það þýði að kjúklingar, kalkúnar og kýr fái að leika lausum hala á viðkomandi býli. Það þarf þó ekki að vera svo. Þar til orðið hefur verið skilgreint opinberlega og merking þess staðfest má segja að hægt sé að setja það á hvaða umbúðir sem vera skal án sérstakrar ábyrgðar.

*Í stórum dráttum má segja að lífrænn búskapur byggist á lífrænni ræktun og taki til allra búgreina. Farið er eftir alþjóðlegum reglum. Búskaparhættir eru gæðavottaðir og afurðirnar merktar sérstökum
vörumerkjum. Allt eftirlit og öll vottun lífrænna búskaparhátta hérlendis er á vegum Vottunarstofunnar TÚN sem hefur fullgilda innlenda og alþjóðlega viðurkenningu. Á innfluttum vörum má sjá merkið BIO eða ORGANIC og merki sem vottar að fullyrðingin sé rétt.

*Vistvænn búskapur er frábrugðinn lífrænum búskap í grundvallar-atriðum. Vistvænn búskapur er í raun hefðbundinn, gæðastýrður landbúnaður því að notuð eru hefðbundin eiturefni , lyf og tilbúinn áburður.

Með því að leggja áherslu á næringu stuðlar þú að eins góðri heilsu og verða má og það er á þínu valdi. Þótt engar rannsóknir sýni fram á beint samband skordýra- eða illgresiseyðis og brjóstakrabbameins, segir heilbrigð skynsemi að það geti varla verið heilsusamlegt að fá þannig efni í líkamann. Að kaupa og neyta lífrænnar fæðu er eitthvað sem þú getur gert til að fá sem allra minnst með fæðunni af skordýra- og illgresiseyði, sýklalyfjum og vaxtarhormónum í líkamann. Fleiri rannsókna er þörf til að skera úr um hvort lífræn fæða sé næringarríkari eða heilsusamlegri fyrir konur með brjóstakrabbamein en fæða sem er framleidd eða ræktuð með öðrum búskaparaðferðum.

*Málsgreinar merktar stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB