Markfæða - matvæli blönduð bætiefnum

*Orðið markfæða er nýtt í málinu og hefur verið notað til að lýsa því sem á ensku er kallað functional foods. Stundum nær orðið heilsufæða einnig yfir þetta, en yfirleitt er hér um að ræða venjulega fæðu sem bætt hefur verið í næringarefnum til að auka hollustuna umfram það sem fæðan inniheldur öllu jöfnu.

Ýmis matvæli af þessu tagi er að finna. Appelsínusafi með viðbættu kalki, egg með viðbættu E-vítamíni og pasta með viðbættri ómega-3 fitusýru eru dæmi um slíkt.

Vísindamenn kanna nú áhrif þess að bæta andoxunarefnum (ákveðnum jurtaefnum eða phytochemicals ) í matvæli. Andoxunarefni verja líkamann sindurefnum – stakeindum sem verða til við eðlilega líkamsstarfsemi. Einnig getur mengun, geislun, vindlingareykur og illgresiseitur stuðlað að myndun sindurefna. Sindurefni geta skemmt erfðahluta frumna og hrundið af stað stjórnlausum vexti. Þær breytingar get átt þátt í að krabbamein myndast svo og aðrir sjúkdómar. Að bæta andoxunarefnum í ódýr matvæli sem eru fáanleg allt árið – eins og tekex eða tvíbökur – gerði fleirum mögulegt að fá þessi æskilegu efni.

Meiri rannsókna er þörf á s.k. markfæði og þeirri hollustu sem það kann að fela í sér. Þar til áreiðanlegar niðurstöður liggja fyrir er öruggasta leiðin að neyta fjölbreyttrar fæðu sem inniheldur fimm til níu skammta af ávöxtum og grænmeti á dag til að tryggja líkamanum þau næringarefni og þá orku sem hann þarfnast.

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB