Fæðuval meðan á meðferð stendur og að henni lokinni

Sértu að jafna þig eftir skurðaðgerð, í meðferð með krabbameinslyfjum, geislameðferð eða einhverri annar meðferð við brjóstakrabbameini, þá er markmið þitt fyrst og fremst að losna við krabbameinið. Að nærast rétt hjálpar þér að halda styrk af því að þá fær líkaminn þau næringarefni sem hann þarfnast.

Þú eða læknir þinn getið hvorugt sagt nákvæmlega fyrir um hvernig meðferðin muni fara í þig. Almennt heilsufar og hversu þung þú varst áður en þú greindist skiptir hvort tveggja máli. Hið sama má segja um þá tegund meðferðar sem þú færð, hve mikið af lyfjum þér er gefið og hve lengi; allt hefur þetta sitt að segja. Hlustaðu vel á líkama þinn eftir því sem meðferðinni vindur fram og reyndu að bregðast við þörfum hans. Hugsanlega heldur þú áfram að hafa gaman af að elda og borða og hefur sömu matarlyst og áður. Samt gætu komið dagar þegar þú hefur enga matarlyst, dagar þegar þú getur borðað hvað sem er, og dagar þegar aðeins sumt bragðast vel. Best er að hafa mataræðið sveigjanlegt þannig að þú getir brugðist við síbreytilegum þörfum líkamans og löngunum.

Heilsusamlegt mataræði —mataræði sem inniheldur fjölbreytta fæðu með mikið af ávöxtum og grænmeti og reglulegum prótínskömmtum – gefur þér þann næringarforða sem þú þarft að hafa til að halda kröftum á meðan þú berst við brjóstakrabbameinið. Þessi forði á þátt í að byggja aftur upp vefi líkamans og styrkja ónæmiskerfið þannig að það geti varið þig gegn sýkingum. Heilsusamlegt mataræði getur einnig hjálpað þér að vinna bug á aukaverkunum. Sannað er að sumar tegundir meðferðar við krabbameini skila betri árangri hjá þeim sem fá nóg af hitaeiningum og prótíni. Á meðan þú ert í meðferð við brjóstakrabbameini er mikilvægara en nokkru sinni að mataræði þitt sé hollt

ÞB