Hægðatregða

Matarvenjur þínar kunna að breytast á meðan á meðferð stendur og hugsanlega hreyfirðu þig minna en þú ert vön. Þú kannt að vera orkulaus, með verki eða óþægindi. Allt getur þetta valdið hægðatregðu. Þá líður langt á milli hægða og þær geta reynst erfiðar. Að fá ekki nægan vökva eða borða ekki nóg getur einnig átt þátt í að framkalla hægðatregðu. Ákveðnum krabbameinslyfjum getur einnig fylgt hægðatregða.
Talaðu við lækni þinn ef hægðir eru annað hvort óeðlilega harðar eða lausar, ef þú finnur fyrir magakrampa, magaverk, vindgangi eða hefur ekki haft hægðir í þrjá sólarhringa. Til eru lyf sem geta ráðið bót á þessu.


Hvernig þú getur brugðist við hægðatregðu:

  • Forðastu matvæli sem geta framkallað hægðatregðu. Meðal algengustu fæðutegunda sem geta framkallað hægðatregðu eru bananar, ostur og egg. Fólk bregst að vísu misjafnlega við mismunandi fæðu.

  • Drekktu nægan vökva til að koma í veg fyrir ofþornun — um það bil 8 til 12 glös á dag (nema læknir þinn hafi ráðlagt annað). Drekktu vatn, sveskjusafa eða heita vökva að morgni dags svo sem jurtate eða soðið vatn með sítrónu út í eða stofuheitt límonaði.

  • Borðaðu trefjaríka fæðu eins og brauð úr heilkorni, morgunkorn úr heilkorni, baunir, ferskt hrátt grænmeti, ferska ávexti eða ávexti sem hafa verið soðnir með hýðinu, þurrkaða ávexti, döðlur, apríkósur, sveskjur, poppkorn, fræ og hnetur. Líkaminn meltir ekki trefjar þannig að þær ferðast í gegnum meltingarveginn og út úr líkamanum með hægðum. Trefjar taka einnig upp mikið vatn í þörmunum og það gerir hægðirnar mýkri og auðveldara að losna við þær. Mundu að drekka því meiri vökva sem þú borðar meira af trefjaríkum mat því annars gæti hægðatregðan ágerst.

  • Sjáðu til þess að morgunverðurinn innihaldi trefjaríka fæðu og heitan drykk. Heitir drykkir virka róandi og geta örvað hægðir.

  • Drekktu koffíndrykki í hófi. Sýnt hefur verið fram á að þeir stuðla að harðlífi eða hægðateppu. Drekktu mikið af vökva sem ekki inniheldur koffín svo að tryggt sé að þú fáir nægan vökva í líkamann og ofþornir ekki.

ÞB