Mjólkuróþol
Meðferð með krabbameinslyfjum kann að framkalla tímabundið mjólkuróþol sem þýðir að líkaminn ræður ekki við að melta mjólkursykur (laktósa). Sértu með mjólkuróþol og drekkur mjólk eða borðar mat sem inniheldur mjólk, getur það framkallað niðurgang, vindgang og magakrampa. Í sumum mjólkurvörum er minna af laktósa en öðrum. Það á til dæmis við um kotasælu og jógúrt. Þú gætir hugsanlega borðað hvort tveggja án þess að fá í magann.
Getir þú ekki borðað mjólkurvörur án þess að því fylgi óþægindi, gætir þú þurft að fara á mataræði sem inniheldur lítinn eða engan mjólkursykur. Þú þarft að hafa í huga að mjólkursykur er einnig notaður til að sykra matvæli og gæti því verið að finna í matvöru þótt hún sé án mjólkur. Því þarftu að temja þér að lesa innihaldslýsingar til að ganga úr skugga um að laktósa (lactose), mjólkursykur, sé ekki að finna í matvörunni.
Hugsanlegt er að þú viljir ræða við lækni þinn um að fá að taka inn lactase-ensím (mjólkursykurkljúfa) eða probiotics (sem eru heilsusamlegir gerlar sem geta hjálpað líkamanum að melta mjólkursykur), þannig að þú losnir við einkenni óþolisins.
Sértu með mjólkuróþol geturðu:
-
Neytt annarrar kalkríkrar fæðu. Hafir þú áhyggjur af að fá ekki nægilegt kalk, borðaðu þá meira af blaðmiklu grænu kálmeti, hnetum, fræjum, baunum, þurrkuðum fíkjum, safa og kalkbættu morgunkorni.
-
Athugað hvort þú getur ekki hugsað þér að nota soja- eða hrísgrjónamjólk og látið hana koma í stað kúamjólkur. Ekki eru sömu næringarefni í þannig mjólk, en hvort tveggja má nota í stað mjólkur og gerir sama gagn ef hún er kalk- og D-vítamínbætt og þú gætir þess að fá nægilegt prótín úr öðrum mat.
-
Prófað eftirlíkingar af mjólkurvörum. Þar á meðal er sojaostur, sýrður rjómi, þeytirjómi og kaffirjómi sem getur komið í staðinn fyrir venjulegar mjólkurvörur.
-
Borðað frysta rétti úr hrísgrjóna- eða sojamjólk í staðinn fyrir venjulegan mjólkur- eða rjómaís.
-
Notað mjólkurvörur með gerlum, svo sem jógúrt, súrmjólk eða AB-mjólk ef þú getur ekki hugsað þér sleppa alveg mjólkurvörunum. Sumir ostar eru einnig af þessu tagi. Í svona matvælum er minna af mjólkursykri (laktósa) en öðrum mjólkurvörum og gerlarnir hjálpa líkamanum að melta hann.
-
ÞB