Niðurgangur

Niðurgangur getur, líkt og hægðateppa, verið aukaverkun af krabbameinslyfjum. Ef þú ert með niðurgang sem hefur staðið í meira en sólarhring, ert með verki eða magakrampa, skaltu hringja í lækni þinn. Að breyta mataræðinu getur líka hjálpað. Drekktu mikið af vökva sem inniheldur helstu efni og steinefni svo að þú ofornir ekki. Drykkir sem innihalda kalíum, eins og ávaxtasafi og íþróttadrykkir, er mjög góðir. Læknir þinn getur skrifað upp á lyf ef niðurgangurinn er mjög slæmur.


Hvenær og hvernig er rétt að nærast ef þú ert með niðurgang:

  • Prófaðu að fá þér tæra vökva — vatn, milt te, eplasafa, tært soð, frystan sykur(gos)drykk eða ávaxtahlaup – um leið og niðurgangurinn byrjar eða þú finnur að hann er á leiðinni. Tærir vökvar koma í veg fyrir að þarmarnir erfiði og hindra ertingu.

  • Borðaðu oft og lítið í einu. Líkamanum getur reynst auðveldara að melta lítið í einu.

  • Hafir þú verið með niðurgang í tvo sólarhringa, skaltu byrja á fljótandi fæði eingöngu og bæta síðan við mat sem inniheldur lítið eitt af trefjum eftir því sem þú þolir. Það dregur úr ertingu í þörmunum og þú færð svolitla næringu.

  • Drekktu að minnsta kosti einn bolla af vökva eftir hverja ferð á salernið svo að þú ofþornir ekki.

Hvað er heppilegt að borða ef þú ert með niðurgang:

  • Borðaðu eitthvað sem er auðugt af pektíni eins og eplamauk, bláberjasúpu eða –graut, banana og jógúrt. Pektín er að finna í ávöxtum og er gjarnan notað sem hleypiefni í sultur. Pektín er vatnsleysanlegt trefjaefni sem getur dregið úr niðurgangi.

  • Neyttu fæðu með miklu kalíum. Ávaxtasafi, íþróttadrykkir, afhýddar kartöflur og bananar eru kalíumríkir. Kalíum er eitt þeirra efna sem líkaminn missir við niðurgang.

  • Neyttu fæðu sem er auðug af natríum (salti). Það getur verið súpa, seyði af grænmeti eða kjöti, íþróttadrykkir, tekex eða saltstengur. Saltið hjálpar líkamanum að binda vatn svo að þú ofþornir ekki.

  • Fáðu nóg af prótíni. Prófaðu magurt ofnsteikt lambakjöt, svínakjöt, kalkún, kjúkling, harðsoðin egg eða tofu. Það getur hjálpað þér að komast hjá þreytu og magnleysi.

  • Finnist þér einhverjir sérstakar grænmetis- eða ávaxtategundir góðar, borðaðu þær þá soðnar en ekki hráar. Niðurgangur getur versnað við að borða sumar tegundir nýrra ávaxta og ósoðins grænmetis. Prófaðu súpur lagaðar af soðnum spergilhausum (aspas), rauðrófum, gulrótum, afhýddum kúrbít (zucchini), sveppum eða selleríi. Tómatmauk eða bökuð afhýdd kartafla eru einnig góður kostur.

  • Forðastu koffíndrykki, áfengi og gosdrykki, mikið kryddaðan eða mjög kaldan mat. Þetta getur allt saman ert meltingarveginn.

  • Notaðu ekki tóbak því það getur ert meltingarveginn.

  • Forðastu fituríkan, steiktan, fitugan og þungan mat. Svona matur getur framkallað niðurgang.

  • Forðastu að láta upp í eða ofan í þig eitthvað sem getur framkallað loft eins og tyggigúmmí eða kolsýrða drykki. Allt slíkt getur ert meltingarveginn.

  • Dragðu úr neyslu mjólkur og mjólkurafurða. Erfitt getur verið að melta þannig mat og hann getur framkallað niðurgang.

  • Sneyddu hjá hnetum, ósoðnum ávöxtum og grænmeti, heilkornabrauði og matvælum unnum úr klíði. Þannig matvæli geta ert meltingarveginn.

ÞB