Ógleði og uppköst
Sumar konur finna aldrei til ógleði og kasta aldrei upp. Sumum er óglatt hvern dag sem meðferðin stendur. Margar lýsa því aftur á móti þannig að þær “viti af maganum” og langi ekki í mat, en sé samt ekki óglatt. Sumar finna fyrir flökurleika sem varir í rúma viku eftir krabbameins-lyfjagjöf. Til allrar hamingju er hægt að ráða við þessar aukaverkanir eða minnka þær með ýmsum lyfjum og breytingum á mataræði.
Neyddu ekki sjálfa þig til að drekka eða matast ef þér er flökurt eða kastar upp. Séu uppköstin tíð er ágætt að forðast mat í fjórar til átta stundir. Á meðan á uppköstum stendur skaltu dreypa á vatni eða engiferöli sem gosið er farið úr. Þegar maginn fer að róast þarftu að skila líkamanum vökva og einhverju af þeim efnum sem þú kannt að hafa misst með uppköstunum. Prófaðu að dreypa á grænmetisseyði eða kjúklingaseyði, orkudrykk eins og íþróttfólk notar eða fá þér litla bita af ávaxtahlaupi. Það getur komið í veg fyrir að þú ofþornir. Láttu ekki tæra vökva nægja lengur en tvo daga í röð – í þeim er ekki nóg af næringarefnum.
Stafi ógleðin af lyfjameðferð, kemstu hugsanlega að raun um að matarlykt getur framkallað einkennin. Hugsanlega geturðu þá beðið vin eða maka um að elda fyrir þig og sjálf farið út úr húsi á meðan svo að þú þurfir ekki að finna matarlyktina sem fylgir matseldinni. Að halda sig fjarri eldhúsinu getur bætt úr skák. Þar er matvælin að finna og þar er lyktin mest. Þú getur líka pantað mat og látið senda hann heim. Þú kannt einnig að komast að því að smekkur þinn á mat breytist frá degi tl dags. Prófaðu þig áfram þar til þú finnur eitthvað sem þú þolir eða getur hugsað þér. Reyndu að drekka átta eða fleiri bolla af vökva á dag ef þú mögulega getur. Athugaðu hvort þér tekst ekki að drekka hálfan bolla fyrir hvert skipti sem þú kastar upp.
Hvenær og hvernig er best að borða ef þér er óglatt:
-
Borðaðu lítið í einu en þeim mun oftar. Finnir þú til óþæginda í maganum á milli venjulegra máltíða, prófaðu þá að fjölga þeim í sex til átta litlar máltíðir á dag og fá þér svo eitthvert smá snarl fyrir háttinn.
-
Borðaðu kaldan eða stofuheitan mat, en ekki heitan mat til að minnka lykt og bragð.
-
Ekki matast í heitu herbergi. Þér kann að finnast loftlaust og það getur framkallað velgju og uppköst.
-
Burstaðu tennurnar eða skolaðu munninn fyrir og eftir máltíðir. Það losar þig við vont bragð í munni ef því er fyrir að fara.
-
Sittu uppi eða liggðu út af með hátt undir höfðinu í að minnsta kosti klukkutíma eftir máltíð ef þér finnst þú þurfa að hvílast. Að sitja með upprétt höfuð hjálpar til að draga úr ógleðinni.
Hvað best er að borða ef þér er flökurt:
-
Borðaðu fuglakjöt eða sojamat. Prófaðu kalkún, kjúkling eða sojakjöt ef þú hættir skyndilega að hafa lyst á rauðu kjöti. (Það eru algeng viðbrögð.)
-
Borðaðu þurran mat eins og tekex, ristað brauð, þurrt morgunkorn eða brauðstangir þegar þú vaknar og á nokkurra stunda fresti yfir daginn. Þú færð í þig næringu og þetta getur róað magann.
-
Borðaðu kaldan mat í staðinn fyrir heitan, kryddaðan mat. Heppilegt getur verið að borða fitusneydda jógúrt, ávaxtasafa, ávaxtakrap og orkudrykki. Kryddaður matur getur framkallað enn meiri ólgu í maganum.
-
Borðaðu ekki sætan, feitan eða steiktan mat. Þess konar matur getur farið illa í maga og líðan þín versnað. Athugaðu hvort þú hefur ekki lyst á bökuðum eða soðnum kartöflum eða kartöflumús, hrísgrjónum, súpu kremaðri með léttmjólk, ávaxtahlaupi. saltkringlum eða búðingi úr léttmjólk.
-
Borðaðu bragðlítinn, mjúkan og auðmeltan mat dagana sem færð krabbameinslyfin. Soðið egg á þurristaðri brauðsneið eða soðin kjúklingabringa með ókrydduðum núðlum gæti verið góður kostur.
-
Borðaðu mat sem lyktar ekki mikið. Sterk lykt getur framkallað ógleði.