Særindi í munnholi og hálsi

Krabbameinslyf geta framkallað sár í munni og hálsi. Sýking getur komist í þessi sár af sveppum, bakteríum eða vírusum sem halda til í munnholinu. Krabbameinslyf geta líka þurrkað slímhúð í munnholi eða ert hana þannig að blæðir. Sár í munni og koki geta gert það að verkum að sársaukafullt verður að matast og jafnvel uppáhaldsmaturinn veldur óþægindum.

Fáir þú sár í munninn, biddu þá lækni þinn um lyf sem hægt er að bera á þau; notaðu ekkert sem hægt er að kaupa án lyfseðils nema tala fyrst við lækninn. Notaðu varasalva ef varirnar eru þurrar. Sértu mjög þurr í munninum, biddu þá lækninn að ávísa á gervimunnvatn.


Þetta geturðu gert ef þú færð sár í munnhol eða háls:

  • Borðað mjúkan, bragðlítinn mat með mörgum hitaeiningum og miklu prótíni eins og rjómalagaðar súpur, osta, jógúrt, mjólkurhristing, búðing, mjólkur- eða rjómaís eða tilbúna prótíndrykki. Getir þú ekki borðað nema lítið eitt án þess að finna til, þá er mikilvægt að þú borðir eitthvað sem inniheldur mikið af hitaeiningum svo að líkaminn fái næga orku. Teskeið af köldum, sýrðum rjóma (sem þú getur bragðbætt með vanillu og sykri ef þér er illa við súra bragðið) getur mýkt fæðuveginn og gert það auðveldara fyrir þig að kyngja öðrum mat sem þarf að komast niður um vélindað.

  • Bleytt í matnum. Láttu morgunkornið liggja í útálátinu og blotna í gegn þannig að það sé mjúkt þegar þú borðar það. Bleyttu í hrísgrjónum og pasta með sósu þannig að það verði mjúkt. Bleyttu ristaða brauðið í eggjarauðunni ef þú færð þér ristað brauð og egg í morgunverð. Með þessu móti dregur úr óþægindum af sárunum í munninum.

  • Saxað matinn í smátt. Saxaðu kjötið eða fiskinn í smátt og stappaðu hann eða hakkaðu í matvinnsluvél. Svo geturðu blandað sósu saman við eftir smekk.

  • Borðað soðið grænmeti og niðursoðna ávexti. Hrátt grænmeti og ferskir ávextir geta sært þig í munninum. Ávexti og grænmeti má mauka í matvinnsluvél eða með töfrasprota.

  • Borðað eitthvað kalt eins og frostpinna, eplamauk, ávaxtahlaup eða frauðís. Kuldi slær á sviðann í munnholinu.

  • Forðast súran, beiskan og/eða saltan mat. Láttu sítrusávexti eiga sig og sömuleiðis tómata og tómatrétti. Þannig matur getur framkallað sviða í opnum sárum.

  • Forðast mat með grófri áferð eins og þurrar, ristaðar brauðsneiðar, saltkringlur og gróft morgunkorn eins og granóla (blanda af haframjöli, þurrkuðum ávöxtum og hnetum) því þannig matur getur verkað mjög ertandi á sár í munnholinu.

  • Forðast krydd sem getur ert sár í munni eins og chilipiparduft, karrý eða sterkar kryddsósur.

ÞB