Breytt þefskyn og smekkur
Meðferð með krabbameinslyfjum getur orðið til þess að bragð- og þefskyn þitt breytist. Þér getur þótt matur beiskur á bragð eða þrár og getur fengið hálfgert eða algjört ógeð á ákveðnum fæðutegundum. Margar konur fullyrða að þeim finnist málmbragð af mat. Það gerist vegna þess að lyfjameðferðin breytir viðtökunum á frumum í munnholinu sem bera boð til heilans um hvernig matur bragðast eða lyktar. Þessi einkenni geta orðið viðvarandi meðan á meðferð stendur. Þefskyn og smekkur verður yfirleitt eðlilegur aftur að fáeinum vikum eða mánuðum liðnum frá því að meðferð lauk.
Hvernig bregðast má við ef þú finnur fyrir breytingum á bragð- og lyktarskyni:
-
Prófaðu eitthvað nýtt. Hafir þú ekki lengur lyst á uppáhalds matnum þínu, prófaðu þá eitthvað allt öðru vísi. Notaðu tækifærið til að prófa eitthvað nýtt þegar þér líður vel þannig að þú fáir ekki óbeit á fleiri tegundum matar.
-
Borðaðu léttmelta fæðu nokkrum klukkustundum áður en þú færð krabbameinslyfin. Það getur komið í veg fyrir að þú fáir óbeit á mat af völdum ógleði eða uppkasta eftir lyfjagjöf.
-
Biddu einhvern um að elda fyrir þig eða kauptu tilbúinn mat ef þú þolir ekki matarlykt. Víða er hægt að fá afgreiddan mat til að taka með sér heim.
-
Fáðu þér eitthvað kalt að borða eins og jógúrt, kotasælu eða samloku því að lyktin er minni af þannig mat.
-
Prófaðu að borða með plasthnífapörum ef þér finnst vera málmbragð af matnum.
-
Skolaðu munninn með te, engiferöli, saltvatni eða bökunarsóda sem leystur er upp í vatni áður en þú færð þér að borða. Það getur hreinsað bragðlaukana. Sumar konur segjast sjúga ísmola á milli þess sem þær fá sér matarbita því að það deyfi bragðlaukana þannig að þær ná að koma einhverju niður.
-
Neyddu ekki sjálfa þig til að borða mat sem þér finnst bragðast illa. Finndu eitthvað í staðinn sem þú ræður við að borða.
-
Borðaðu lítið í einu og þeim mun oftar. Þér getur reynst auðveldlega að koma niður mat með því móti.
-
Bíddu ekki með að borða þar til þú finnur til svengdar. Hafir þú litla eða enga matarlyst, líttu þá á það sem nauðsynlegan þátt í meðferðinni að nærast. Reyndu að koma einhverju smáræði niður með reglulegu millibili yfir daginn.
Hvað þú getur lagt þér til munns ef bragð- og lyktarskyn hefur breyst:
-
Reyndu að fá prótín annars staðar frá ef þér finnst vont bragð af rauðu kjöti. Prófaðu kjúklingakjöt, kalkún, fisk eða sojakjöt. Egg eru líka góð uppspretta prótíns. Þér gæti þótt eggin góð þótt þér líki ekki bragðið af fiski eða kjöti.
-
Borðaðu ferskt grænmeti. Það getur bragðast þér betur en frosið grænmeti eða grænmeti úr dós. Þér getur þótt málmbragð af súpum og grænmeti úr dós.
-
Prófaðu ávaxtaskyrdrykki eða frosna eftirrétti. Af þeim er lítil lykt og þér gæti þótt þeir lystugir.
-
Prófaðu litlu gulræturnar sem búið er að hreinsa í staðinn fyrir stórar óhreinsaðar gulrætur sem mörgum konum í meðferð með krabbameinslyfjum finnst oft mjög beiskar á bragðið.
-
Hafðu millimál við hendina ef þú átt erfitt með að matast sökum lystarleysis. Hafðu eitthvað prótínríkt tiltækt sem þú getur bitið í þegar þú hefur lyst á. Prófaðu ost og tekex eða hrökkbrauð, hnetusmjör, múslístangir, þunnar sneiðar af kjúklingabringu eða ávexti. Taktu eitthvað með þér að narta í þegar þú ferð út úr húsi.