Nýtt viðhorf til matar

Þegar þú leggur niður fyrir þér hvernig þú ætlar að haga mataræði þínu að meðferð lokinni máttu ekki gleyma að bæta ánægju í uppskriftina. Ekki neita sjálfri þér um það sem þér þykir best; súkkulaði, eplaköku eða hvað það nú kann að vera sem kitlar bragðlaukana. Borðaðu bara ekki hugsunarlaust. Leiddu hugann að því hvað þú ert að setja ofan í þig. Rétt fæða getur reynst hið besta lyf.

Áður en þú stingur einhverju upp í þig, hugsaðu þá um hvað það er sem þú ætlar að fara að neyta.

  • Hvað er það og hvers vegna ætlar þú að borða það?

  • Líttu á matinn á disknum þínum sem uppsprettu heilsusamlegrar næringar – hann er ekki bara orkugjafi, hann hjálpar þér að ná heilsu.

  • Virtu fyrir þér bitann á gafflinum og sjáðu fyrir þér hvernig hann getur hjálpað þér til að verða hraust.

  • Tyggðu hvern bita að minnsta kosti 30 sinnum. Upplifðu hvernig bragðið breytist á meðan þú tyggur.

  • Kyngdu og leggðu frá þér hnífapörin. Taktu hlé á milli munnbita.

  • Þegar þú hefur snætt í 15 til 20 mínútur, spyrðu þá sjálfa þig hvort þú sért ennþá svöng eða hvort það mega líða nokkrir klukkutímar áður en þú færð þér aftur að borða.

  • Borðaðu þegar þú ert svöng og hættu þegar þú ert orðin mett. Ekki halda áfram að borða þangað til þér finnst þú standa á blístri.

ÞB