Heilræði um hollt mataræði með lítilli fyrirhöfn

Þegar krabbameinsmeðferð er um garð gengin getur hollt og gott mataræði og annað sem stuðlar að vellíðan eins og hreyfing hjálpað þér að endurheimta krafta og áhuga á tilverunni. Æskilegar breytingar á mataræði geta átt stóran þátt í að leggja grunn að góðri heilsu og vellíðan. Hér eru fáein hollráð um hvernig þú getur breytt mataræði og matseld án mikillar fyrirhafnar.

  • Breyttu til. Kauptu nýjan ávöxt, eitthvert grænmeti eða heilkornstegund sem þú hefur ekki prófað áður í hvert sinn sem þú ferð í matvöruverslun. Hollt mataræði þýðir fjölbreytt mataræði. Gulrætur eru vissulegar fullar af fjörefnum en ef þú borðar ekkert nema gulrætur er það ekki gott fyrir heilsuna. Láttu eftir þér að kaupa stórt, bleikt greipaldin. Vertu óhrædd við að prófa eitthvað nýtt! Settu granatepli eða mangóávöxt í körfuna. Í stórverslunum er oft hægt að finna leiðbeiningar um hvernig best er að bera fram eða matreiða nýjar ávaxtategundir eða grænmeti. Ef þú finnur engar slíkar leiðbeiningar má spyrja þann sem sér um ávaxtaborðið eða grænmetisdeildina.

  • Veldu undanrennu, mysu og magra osta. Hafir þú vanist því að drekka nýmjólk skaltu blanda henni saman við undanrennu eða léttmjólk á meðan þú ert að venjast fitulítilli mjólk.*Viljir þú sleppa mjólkurvörum, lestu þá meira hér.

  • Forðastu saltaðan, súrsaðan og reyktan mat. Yfirleitt er mjög mikið af salti og nítrötum (saltpétri) í slíkum matvælum.

  • Fáðu þér litla skammta (u.þ.b. 180 grömm) af mögru kjöti eða skinnlausu fuglakjöti á dag. Borðir þú tvær máltíðir á dag, ætti skammtur í hvorri máltíð að vera u.þ.b. 90 grömm.

  • Bakaðu í ofni eða grillaðu. Fækkaðu hitaeiningum í fæðunni með því að baka fremur en steikja.

  • Hyldu diskinn með mat sem inniheldur fáar hitaeiningar. Fylltu diskinn að tveimur þriðjuhlutum með grænmeti, ávöxtum, heilu korni og baunum og hafðu þriðjung eða minna kjöt eða mjólkurvörur. Prófaðu að elda spínatlasagna, chilirétt úr grænmeti eða léttsteikt grænmeti til að auka grænmetismagnið í daglegri fæðu.

  • Fáðu þér nýpressaðan ávaxtasafa eða hreinan ávaxtasafa og brauð úr heilkorni í morgunverð. Bættu rúsínum eða öðrum þurrkuðum berjum út í haframjölið. Bættu banana eða berjum út á morgunkornið. Ef fersk ber eru ekki fáanleg má finna ber og berjablöndur í frystikistum stórverslana – berin þiðna á djúpa disknum og halda útálátinu (undanrennunni) köldu.

  • Borðaðu eitthvað hollt á milli mála. Litlar gulrætur eða gulrótastrimlar, paprikustrimlar, appelsínubátar, fitulaus jógúrt eða nokkrar möndlur er tilvalið snarl.

  • Minnkaðu mettaða fitu. Veldu magra bita af kjöti og fuglakjöti. Skerðu burt aukafitu af kjöti og fjarlægðu skinnið af fuglakjöti. Fiskur af öllum tegundum er herramannsmatur og getur auðveldlega komið í stað kjöts. “Steikur” má búa til ýmist úr túnfiski eða laxasneiðum.

ÞB