Hvernig borða má heilsusamlega á matsölustöðum og veitingahúsum

Nú á tímum eru margir sem ekki borða heita máltíð heima hjá sér nema endrum og eins. Hvort sem það er samloka og kaffi á næsta kaffihúsi eða íburðarmikill kvöldverður til að fagna því að meðferðinni er lokið, er það staðreynd að erfiðara er að hafa stjórn á því hvað og hve mikið er borðað þegar þú hefur ekki eldað matinn sjálf. Borðir þú oft að heiman í hverri viku eða sækir tilbúinn mat á næsta matsölustað er enn brýnna að velja skynsamlega.

Hér eru nokkur hollráð sem geta hjálpað þér að halda þínu striki þegar þú borðar á matsölustað eða veitingahúsi:


  • Vertu meðvituð um hvað þú borðar á öðrum tímum dagsins. Ætlir þú að borða kvöldverð á veitingahúsi, hafðu þá hádegisverðinn léttan. Gættu þess samt að mæta ekki banhungruð á veitingastaðinn. Þá pantarðu hugsanlega meira en þú getur torgað og borðar meira en þú hefur gott af vegna þess að þú vilt borða allt sem þú borgar fyrir.

  • Hikaðu ekki við að biðja um að útbúinn sé matur sérstaklega handa þér. Á flestum veitingahúsum er það metnaðarmál að þjóna þér, viðskiptavininum. Vertu ófeimin við að biðja um að einhver réttur sé útbúinn á sérstakan hátt (bakaður án smjörs eða olíu í stað þess að vera steiktur svo tekið sé dæmi). Sé ekki hægt að verða við óskum þínum, segir þjónninn þér það og mun stinga upp á einhverju sem gæti hentað í staðinn

  • Fáðu óskir þínar uppfylltar með því að panta eftir matseðlinum. Þannig geturðu fengið salat aukalega, lax án sósu og gufusoðið grænmeti í staðinn fyrir steiktan fisk, franskar kartöflur og salat í majonessósu svo eitthvað sé nefnt.

  • Biddu um að salatsósa, sósa, sýrður rjómi, smjör og annað útálát sé borið fram sérstaklega eða sleppt alveg.

  • Ekki borða hugsunalaust. Þegar þú hefur fengið þér smakk, skaltu biðja þjóninn að fjarlægja brauðkörfuna, hnetuskálina eða flögurnar sem eru á borðum. Haltu freistingunum frá þér.

  • Veldu matreiðsluhefð sem hentar þér. Sumar matreiðsluhefðir byggja á meira af grænmeti og ávöxtum en aðrar. Það á til dæmis við um indverskan, tælenskan og kínverskan mat, svo dæmi séu tekin. Prófaðu eitthvað nýtt! Ef þú veist ekki hvað velja skal, segðu þá þjóninum hverju þú sækist eftir (lítilli fitu og mikilli næringu) og biddu hann að mæla með einhverju.

  • Skoðaðu þann hluta matseðilsins þar sem er forrétti að finna og meðlæti. Passi enginn aðalréttur við mataræði þitt, geturðu hugsanlega sett saman holla máltíð með því að velja af meðlætis- og/eða forréttalistanum, t.d. salat, grillað grænmeti eða rækjukokkteil. Þú getur líka beðið um tvöfaldan skammt af salati ef þig langar í meira en það sem kemst fyrir í lítilli skál.

  • Láttu bæta við grænmetið. Sértu á samlokustað, biddu þá um að kjötskammturinn sé minnkaður eða tekinn út og í staðinn komi meira af grænmeti. Í staðinn fyrir samloku með beikoni, salatblaði og tómat, biddu um að fá salatblað, tómat, gúrku og græna paprika í heilkornabrauði.

  • Neyttu áfengis í hófi. Áfengi inniheldur mikið af hitaeiningum en lítið af næringarefnum og getur auk þess dregið úr viljastyrk þínum þegar kemur að eftirréttunum.

ÞB