Að skipuleggja fram í tímann - ekki hika við að biðja um hjálp
Náir þú að undirbúa þig áður en meðferðin hefst getur þú sparað tíma og orku seinna meir með því að vera búin að athuga hvar þú getur keypt inn og fengið varninginn sendan heim, útbúa matseðla fram í tímann og athuga hverjir af vinum þínum eða vinkonum eru hugsanlega tilbúnar að hjálpa þér að elda og kaupa inn. Á dögum þegar þú ert vel fyrir kölluð getur þú hugsanlega eldað stóra skammta af mat sem þú skiptir í smærri skammta og frystir. Þá getur þú sótt mat í frystinn á dögum þegar þér líður ekki sem best. Borðaðu stærstu og næringarríkustu máltíðina á þeim tíma dagsins þegar þér líður hvað best og hefur mesta orku. Það gæti endað með því að í morgunverð er súpa eða pottréttur, en það gerir ekkert til, aðalatriðið er að þú fáir þá næringu sem þú þarft á að halda.
Hollráð frá konum sem hafa farið í meðferð við brjóstakrabbameini:
-
Láttu hvern munnbita skipta máli. Veldu næringarríkan (og hitaeiningasnauðan) mat og drykk fremur en tómar hitaeiningar. Grænmetislasagna og salat er miklu betri kostur en poki af flögum og gosdrykkur úr dós.
-
Hafðu koll eða stól við hendina sértu þreytt, þannig að þú getir tyllt þér á meðan þú eldar.
-
Hafðu matvæli til taks sem er fljótlegt og auðvelt að grípa til eins og t.d. litlar þvegnar gulrætur, ostastrimla, hnetur eða rúsínur. Smá snarl á milli mála getur hjálpað þér að fá nægilega mikið af prótíni og hitaeiningum.
-
Taktu inn fjölvítamín ef þú getur ekki komið niður nægilega miklu af mat. Biddu lækni um að mæla með heppilegri tegund.
-
Athugaðu hvort þú ættir kannski að fá þér prótíndrykk ef þú átt erfitt með að koma niður nægilega miklu af prótíni. Í verslunum eru til alls kyns prótíndrykkir. Biddu lækni þinn eða menntaðan fæðuráðgjafa að mæla með einhverri tegund eða gefa þér góð ráð í sambandi við mataræðið.
-
Athugaðu hjá félagsráðgjafanum þínum á deildinni hvort þú átt rétt á að fá sendan mat heim.
-
Talaðu við menntaðan fæðuráðgjafa og láttu meta mataræðið þitt ef þú ert ekki viss um að það sé nógu fjölbreytt. Láttu vita að þú sért í meðferð við krabbameini og viljir vera viss um að fæði þitt sé eins heilnæmt og kostur er.
-
Verslaðu þar sem þú getur fengið varninginn sendan heim. Athugaðu hvar og hvort þú getur pantað eða látið panta fyrir þig í gegnum netið, með því að hringja eða senda símbréf.
-
Verslaðu úti við, á markaði eða úr sölukassa fyrir utan búð, ef þess er einhver kostur. Ekki er ólíklegt að þér gangi betur að fást við matvæli utanhúss en innivið, einkum þar sem eru mikil þrengsli og sterk lykt.
-
Kauptu mikið inn í einu. Þegar þér líður vel skaltu fara og kaupa inn mikið af öllu sem geymist þannig að þú þurfir ekki að kaupa eins oft inn.
-
Biddu um hjálp við að bera varninginn út og setja hann í bílinn. Í flestum verslunum eru ekkert sjálfsagðara en veita þannig þjónustu ef beðið er um hana. Ef þú biður vin eða vinkonu að fara með þér, biddu þá líka um hjálp við að koma varningnum fyrir þegar heim er komið.
Að auðvelda vinunum að hjálpa til
-
Ekki láta þér finnast óþægilegt að þiggja aðstoð ef einhver vinur eða vinkona býðst til að elda eða kaupa inn fyrir þig. Hikaðu ekki heldur við að biðja um hjálp ef þú þarft á henni að halda. Hugsanlega vita vinir þínir ekki hvers þú þarfnast og því þarftu að segja þeim það. Þeim þykir vænt um þig – ef þeir geta hjálpað þér líður þeim betur! Hér eru nokkur ráð til að gera þér og vinum þínum auðveldara fyrir:
-
Hafðu við hendina lista yfir allar grunnvörur sem þú notar þannig að auðvelt sé fyrir einhvern annan að fara og kaupa inn.
-
Gerðu matseðla fyrir nokkrar máltíðir í einu með mat sem þér finnst góður (og láttu uppskriftirnar fylgja með) þannig að fólk sem vill hjálpa þér hafi eitthvað að styðjast við.
-
Gerðu lista yfir mat sem þú treystir þér til að borða þegar þér líður ekki sem best þannig að vinir þínir viti hvað þú átt auðveldast með að koma niður.