Að borða til að léttast að meðferð lokinni

Hvers vegna þyngjast sumar konur sem greinast með brjóstakrabbamein?

Margar konur þyngjast á meðan þær eru í meðferð með krabbameinslyfjum og sterum. Þessi aukakiló hverfa ekki endilega að meðferð lokinni, einkum ef haldið er áfram í andhormónameðferð (með tamoxifeni eða aromatase hormónahemlum). Fari konur inn í tíðahvörf við meðferð er þeim einnig hætt við að þyngjast.

Konur geta hins vegar þyngst þótt ekki komi til meðferð með krabbameinslyfjum. Áfallið við að greinast með krabbamein, röskun á daglegu lífi, að fara í gegnum skurðaðgerð og geislameðferð og jafna sig á því, álag af samskiptum við annað fólk, heima og í vinnu, hugsanlegar áhyggjur af fjármálum, minni hreyfing, allt getur þetta stuðlað að því að kílóunum fjölgar. Langflestar konur sem fara í andhormónameðferð bæta á sig kílóum sem virðist nær ómögulegt að losna við. Hins vegar hafa verið gerðar tvær mjög umfangsmiklar rannsóknir í Bandaríkjunum og Kanada (National Surgical Adjuvant Breast and Bowel Project: NSABP) sem sýndu að konur sem tóku inn lyfleysu (sykurpillu) voru allt eins líklegar til að bæta á sig kílóum og þær sem tóku inn tamoxifen (andhormónalyf). Þar sem stutt er síðan farið var að veita meðferð með aromatasetálmum liggja ekki fyrir niðurstöður rannsókna á sambandi þeirra og aukinnar líkamsþyngdar.

Hafir þú þyngst gæti þig langað til að komast að ástæðunni. Ef til vill hreyfir þú þig minna en borðar jafn mikið og áður (eða jafnvel meira). Kannski þarftu á FÆRRI hitaeiningum að halda til að halda þér í óbreyttri þyngd af því að tíðahvörf hafa áhrif á efnaskipti líkamans og brennslu. Kannski hættirðu að reykja en nartar í staðinn í hitt og þetta. Hugsanlega glímir þú við særða sjálfsmynd og berst gegn þunglyndi sem getur leitt til ofáts. Að léttast er miklu erfiðara þegar konur eldast en á yngri árum. Það er þó engu að síður hægt með því að hreyfa sig og gera skynsamlegar breytingar á mataræði. Vertu góð við sjálfa þig; ekki reka þig of harkalega áfram.


Hvaða kostir fylgja því að vera hæfilega þung?

Fjölmargt mælir með því að þú reynir að halda þér í kjörþyngd eða verða hæfilega þung. Þú ert sterkari þannig, hefur meiri orku og sjálfstraustið eflist við það. Einnig hafa rannsóknir sýnt að offita getur aukið hættu á að krabbamein taki sig upp á ný. Nokkrar rannsóknir hafa sýnt að konur sem voru of þungar þegar þær greindust, voru þriðjungi líklegri til að fá aftur krabbamein en hinar. (Til dæmist gætu líkurnar farið úr 6% í 8%, vegna þess að einn þriðji af 6 eru 2.) Aðrar rannsóknir sýndu að áhættan fimmfaldaðist. Fimm sínum meiri líkur þýðir að 6% líkur gætu hugsanlega farið upp í 30%. Það fyrsta sem þú þarft að gera ef þú vilt léttast er að tala við lækni þinn og viðurkenndan fæðuráðgjafa og fá hjálp við að setja á blað skynsamlega áætlun, sérstaklega sniðna fyrir þig og að þínum þörfum. Læknir þinn eða læknar vilja hugsanlega að þú bíðir þangað til þú hefur jafnað þig til fulls á meðferðinni eða öðrum kvillum sem kunna að vera fyrir hendi.

ÞB