Að fá nægan vökva

Vatn er ómissandi í hollu mataræði. Eins og önnur fæðuefni – kolvetni, fita, prótín, fjörefni og steinefni – er vatn nauðsynlegt til að halda lífi. Áreiðanlegar heimildir eru fyrir því að manneskja geti lifað í mánuð eða lengur án þess að fá mat en aðeins í eina viku án vatns. Líkami mannsins er 50% til 65% vatn.

Að fá nægan vökva er afar mikilvægt meðan á meðferð við brjóstakrabbameini stendur. Sérfræðingar segja að til þess að fá nægan vökva sé nauðsynlegt að drekka um það bil 1,8 til 2,8 lítra á dag. Það virðist æði mikið, en er aðeins um átta til tólf glös á dag (ef glasið rúmar 2 desilítra). Þótt ekki séu allir á einu máli um þessar tölur í hópi vísindamanna, eru flestir læknar sammála um að yfirleitt drekki fólk ekki nægilega mikið vatn, jafnvel þótt það eigi greiðan aðgang að því. Settu þér það markmið að drekka átta glös af vatni á dag. Finnir þú fyrir aukaverkunum af meðferðinni eins og niðurgangi eða uppköstum, gætirðu þurft að drekka meira. Talaðu við lækni þinn um hve mikið vatn er skynsamlegt fyrir þig að drekka.

Þú getur ekki treyst því að þú fáir nægilega mikinn vökva þótt þú finnir ekki til þorsta. Þú finnur hugsanlega ekki til þorsta fyrr en þú hefur þegar misst töluverðan vökva. Reyndu því að drekka jafnt og þétt yfir daginn. Auðveld leið til að kanna hvort þú ert að fá nægilega mikið vatn er að skoða hvernig þvagið er á litinn. Ef þvag er ljóst eða glært færðu að öllum líkindum nægan vökva. Sé það dökkt, er minna af vatni í því og það þýðir að þú ert við það að ofþorna. Reyndu að auka vatnsmagnið og annan vökva sem þú drekkur. (Fjölvítamín getur stundum framkallað dökkt þvag og þarft þú að hafa það í huga ef þú tekur inn þannig vitamin.)


Hvernig þú forðast ofþornun:

  • Drekktu mikinn vökva. Að drekka vatn, nýpressaðan ávaxtasafa eða gerilsneyddan hreinan ávaxtasafa, léttmjólk (undanrennu) og alls kyns seyði er góð leið til að tryggja að þú fáir nægan vökva meðan á meðferð stendur. Sértu jafnframt að reyna að léttast, skaltu hafa í huga að í ávaxtasafa er mikið af sykri og margar hitaeiningar. Kannski er vatnið þá betri kostur eða seltzer (í seltzer er ekkert salt sem aftur á móti er yfirleitt að finna í sódavatni).

  • Drekktu koffíndrykki í hófi. Með því að drekka drykki sem innihalda koffín eins og kaffi, te, gosdrykkir og sumar tegundir rótarkryddaðra gosdrykkja eykur þú inntöku vatns. Hins vegar virkar koffín eins og þvagræsilyf þannig að vökvi skolast úr líkamanum í meira mæli en þegar neytt er drykkja sem ekki innihalda koffín. Þú skalt alls því ekki treysta á að drykkir sem innihalda koffín nægi þér til að fá þá vökvun sem þú þarft á að halda.

  • Neyttu matar sem inniheldur mikið vatn. Vatn í fastri fæðu reiknast inn í daglega neyslu. Sumir ávextir og grænmetistegundir innihalda allt að 90% vatn. Kantalúpumelóonur, greipaldin, jarðarber, vatnsmelónur, spergilkál (brokkolí), hvítkál, blómkál, sellerí, eggaldin, blaðsalat, paprikur, radísur, spínat, kúrbítur og tómatar innhalda að minnsta kosti 90% vatn. Í súpum, frostpinnum, og ávaxtahlaupi eða öðru hlaupi er einnig mikið vatn.

  • Settu sítrusávöxt út í vatnið. Finnist þér ekki gott að drekka hreint vatn, prófaðu þá að bæta sneiðum af súraldini, sítrónu eða appelsínu út í vatnið. Svo geturðu líka bætt út í það slettu af ávaxtasafa. Einnig geturðu fengið þér kolsýrt vatn ef þú finnur tegund sem ekki hefur verið bætt í sóda, sykri eða gervisykri.

  • Hafðu vatnsglas hjá þér hvort sem er að degi eða nóttu til að minna þig á að drekka vatn.

Hvað geturðu gert ef þú ofþornar?

Framkalli meðferðin mikinn niðurgang eða uppköst er hætt við að þú ofþornir. Finnir þú til mikilla verkja getur það einnig valdið því að þú drekkir og borðir minna en ella og það getur að sínu leyti framkallað vökvaþurrð. Þreyta getur verið fyrsta merkið um að þig skorti vökva. Aðrar vísbendingar eru munnþurrkur, svimi eða máttleysi, þú getur átt erfitt með að kyngja þurrum mat, húðin er þurr eða tungan og þú lætur frá þér lítið eða jafnvel ekkert þvag.

Talaðu strax við lækni þinn ef þú finnur fyrir þessum einkennum. Saman getið þið fundið út hvað veldur vökvaskortinum.


Ábendingar um hvernig bæta má vökvaskort:

  • Drekktu ekki of mikið í einu. Drekktu vökva hægt í litlum sopum og bættu svo smám saman við meiri vökva.

  • Sjúgðu ísmola til að halda vörum og munni rökum.

  • Borðaðu fæðu sem inniheldur mikinn vökva eins og vatnsmelónu eða agúrku.

  • Berðu varasalva á varirnar ef þær eru þurrar og berðu áburð á húðina ef hún er þurr.

  • Hafðu litla flösku með vatni eða ávaxtasafa við hendina svo þú eigir auðvelt með að fá þér slurk með stuttu millibili.

ÞB