Fæða sem dregur úr þreytu
Ummæli einstaklings
"Í þrjú ár á því tíu ára tímabili sem leið á milli þess að ég greindist með brjóstakrabbamein, upplifði ég yfirþyrmandi og lamandi þreytu. Það var ekkert hægt að finna að mér líkamlega. Ég var ekki þunglynd. Ég lifði bara einhvern veginn með þessu og að lokum lét þreytan undan síga smátt og smátt.”
—Diana Dyer, M.S., R.D., þreföld krabbameinskempa
Erfiðara er að átta sig á síþreytu en venjulegri þreytu. Við venjulegar aðstæður þreytist þú af að vinna, útrétta, hugsa um börnin, vinna í garðinum, fara í líkamsrækt o.sfrv. Þú ert þreytt að kvöldi, en fáirðu nægan svefn, afþreytistu yfirleitt og líður vel næsta dag. Síþreyta er aftur á móti stöðugur orkuskortur, einhvers konar þróttleysi eða athafnastol sem þú finnur fyrir í öllum líkamanum. Hún birtist líka í að þú missir áhuga á öðru fólki og því sem þú varst vön að sinna eða gera þér til ánægju. Líkamleg örmögnun og deyfð haldast í hendur og útkoman er síþreyta.
Hvað veldur langvinnri þreytu?
Sértu í miðri meðferð við brjóstakrabbameini stendur líkaminn í stríði við krabbamein. Hann þarf á allri sinni orku að halda til að berjast við sjúkdóminn og ná bata eftir áhrif meðferðarinnar og því lokar hann á alla orkunotkun aðra en þá sem fer í að berjast við sjúkdóminn. Afleiðinginn er stöðug þreyta.
Síþreyta er algengasta hliðarverkun meðferðar við krabbameini. Sumir læknar telja að 9 af hverjum 10 sjúklingum upplifi síþreytu á meðan á meðferð stendur.
Margir og mismunandi þættir geta valdið síþreytu, jafnvel eftir að meðferð við brjóstakrabbameini er lokið. Ógleði og verkir, hitakóf, sterar, streita og þunglyndi getur allt átt þátt í því að framkalla síþreytu. Hugsanlega reynirðu að koma meira í verk en tími og orka leyfir. Mataræði getur einnig haft áhrif á og framkallað þreytu:
-
Lélegt mataræði með litlu næringarinnihaldi getur átt þátt í að framkalla síþreytu. Borðir þú minna en vanalega svo að þú færð ekki nóg næringarefni vegna hliðarverkana af krabbameinsmeðferð getur það framkallað síþreytu.
-
Hafi meðferðin framkallað uppköst eða niðurgang þjáistu hugsanlega af vökvaskorti og ofþornun. Ef til vill ertu einfaldlega of þreytt eða framtakslaus til að drekka nægilega mikinn vökva. Það getur valdið ójafnvægi í rafvökum og gert það að verkum að þú finnur til þróttleysis.
Hvernig hægt er að takast á við langvinna þreytu
Eitt af því sem hægt er að gera til að vinna bug á stöðugri þreytu er að borða nægilega mikið og reyna að fá öll þau næringarefni sem líkaminn þarfnast. Heilsusamlegt mataræði er nokkuð sem þú þarft að tileinka þér, með mikið af ávöxtum, grænmeti og heilu korni. Sjáðu til þess að mataræði þitt innihaldi allt það sem þarf til að ná því markmiði í næringu sem þú og læknir þinn teljið í sameiningu að sé þér fyrir bestu.
Eigir þú við síþreytu að stríða er mikilvægt að þú fáir örugglega nóg af prótínum og hitaeiningum. Magnið er mismunandi eftir því hver konan er. Með góðum fæðuráðgjafa og lækni geturðu lagt línurnar að mataræði sem hentar þér. Hér á eftir fara almennar leiðbeiningar um hversu mikið af prótíni og hitaeiningum líkaminn þarfnast.
-
Þú þarft 30 kaloríur á dag fyrir hvert kíló sem þú vegur ef þú vegur nokkurn veginn það sama á meðan á meðferð stendur og þú vógst fyrir meðferð. Sértu 80 kg að þyngd, þarftu 2.400 hitaeiningar á dag til að viðhalda henni.
-
Hafir þú horast meðan á meðferð stóð, þarftu að bæta daglega 500 hitaeiningum við ofangreindan fjölda hitaeininga. Ef þú varst 65 kg að þyngd fyrir meðferð og léttist á meðan á henni stóð, þarftu 1.950 plús 500 hitaeiningar sem gerir samtals 2.450 hitaeiningar á dag til að ná fyrri þyngd.
-
Borðaðu eitt gramm af prótíni á móti hverju kílói sem þú vegur á meðan á meðferð stendur. Líkaminn þarf prótín til að gera við frumur og búa til nýjan vef. Ef þú vegur 80 kg reyndu þá að borða 80 grömm af prótíni daglega.
Þú þarft líka að tryggja að þú fáir nóg af fjörefnum og steinefnum. Best er að fá þau beint úr fæðu fremur en úr fæðubótarefnum. Sértu hins vegar lystarlaus og borðar lítið vegna aukaverkana, ráðfærðu þig þá við lækni þinn um hvort eða hvernig þú ættir að taka inn fjölvítamín.
Vertu líka viss um að þú drekkir nægilega mikinn vökva, sérstaklega vatn. Sértu með aukaverkanir eins og uppköst eða niðurgang, þarftu að drekka meira en venjulega. Fyrir utan vatn getur verið ágætt að drekka ávaxtasafa, mjólk eða seyði. Drykkir sem innihalda koffín (kaffi, te, gosdrykkir þar með talið kolsýrt vatn) geta stuðlað að ofþornun svo þú skalt láta þá eiga sig.
Hvernig heppilegt að nærast ef þú þjáist af síþreytu
-
Eldaðu mikið í einu. Þegar þú hefur næga orku til að elda skaltu búa til mikið af einhverjum næringarríkum rétti (grænmetispasta, túnfiskpottrétt, hrísgrjón og baunapottrétti), setja í örugg ílát sem rúma einn matarskammt og frysta. Þegar þú ert of þreytt til að elda geturðu hitað tilbúinn skammt. Eldi vinir eða einhver í fjölskyldunni fyrir þig, biddu þá um að þeir fari eins að.
-
Borðaðu mikið þegar þér líður vel. Reyndu að snæða stærstu máltíðina á þeim tíma dags þegar orka þín og matarlyst er hvað mest. Ef þú veist af reynslu að við lok dagsins verðurðu orðin of þreytt til að hafa matarlyst, reyndu þá að borða meira að morgni og fá þér ríflegan hádegisverð.
-
Fáðu þér næringarríka bita á milli mála til að auka neyslu á prótínum og hitaeiningum. Ostur í bitum, rúsínur, jógúrt, litlar gulrætur, niðurskorið grænmeti er allt eitthvað sem auðvelt er að hafa við hendina og grípa til. Með því móti geturðu komist hjá því að snæða stóra máltíð.
-
Fáðu þér tilbúinn, fljótandi næringardrykk eða orkustöng fremur en að sleppa alveg úr máltíð. Hver biti skiptir máli og gefur orku.
Að bæta prótínum í fæðuna
Góðar uppsprettur prótíns eru magurt kjöt, fiskur, fuglakjöt, mjólkurafurðir, hnetur, þurrkaðar baunir, ertur, linsubaunir og soja. Til þess að fá daglega meira prótín í fæðuna, prófaðu þá eitthvað af þessu:
-
Bættu osti á samlokur, fisk, grænmeti, í súpur, pottrétti, á pasta, hrísgrjón og núðlur.
-
Bættu mögru kjöti, fiski eða tófú út í pastasósuna, pottréttinn, súpur og sósur. Steiktu þetta með grænmeti og þú ert komin með fljótlega og bragðgóða máltíð.
-
Notaðu mjólk í stað vatns eins oft og þú getur þegar þú eldar.
-
Borðaðu harðsoðin egg. Geymdu harðsoðin egg í ísskápnum og borðaðu þau sem millimál. Bættu harðsoðnum eggjum út í salöt og á brauðið.
-
Bættu hnetum, fræjum eða hveitikími út í pottrétti, brauð, kökur, formökur, pönnurkökur og morgunkorn. Stráðu þeim yfir ís og ávexti.
-
Bættu alls kyns baunum út í pastasósu eða pottrétti.
-
Settu hnetusmjör á samlokur, ristað brauð, tekex, formkökur og ávexti. Notaðu hnetusmjör sem ídýfu fyrir hrátt, niðurskorið grænmeti.
-
Notaðu jógúrt sem ídýfu fyrir niðursneidda ávexti og grænmeti eða smákökur.
-
Settu frysta jógúrt eða mjólkurís út í koffínlaust kaffið, í te eða heitt súkkulaði.
-
Settu kotasælu og saxaða lárperu út í mexikósósuna til að fá bragðgóða ídýfu.