Fæða sem styrkir ónæmiskerfið

Máttur næringar í því að styrkja ónæmiskerfið­ er að mestu óleyst gáta. Tveir leiðandi vísindamenn á þessu sviði - Dr. Keith Block (University of Illinois and the Block Medical Center, Evanston, Illinois) og Dr. Mitch Gaynor (Strang-Cornell Cancer Prevention Center, New York City) - hafa um langt skeið rannsakað mataræði sem lið í að draga úr líkum á krabbameini, lengja líf og auka lífsgæði. Þeir leggja áherslu á fæðu úr jurtaríkinu, að skera niður fituneyslu, minnka streitu og styðjast við óhefðbundnar lækninga- og heilunarleiðir.

Kannski hefðurðu áhyggjur af því hvernig ónæmiskerfið muni bregðast við meðan á meðferð við brjóstakrabbameini stendur. Hlýtur það ekki að hafa skaðleg áhrif á ónæmiskerfið þegar eitlar eru fjarlægðir og farið í meðferð með krabbmeinslyfjum? Jafnvel svo mjög að það verði ófært um að starfa eðlilega? Því er til að svara að ónæmiskerfi fólks er afar þrautseigt og sveigjanlegt, en óneitanlega geta ákveðnar meðferðarleiðir við brjóstakrabbameini, eins og krabbameinslyfjameðferð, veikt það eða bælt. Að neyta hollrar fæðu meðan á meðferð stendur og að henni lokinni getur styrkt ónæmiskerfið þannig að á skömmum tíma nái það sér til fulls.


Hvers konar mataræði er æskilegt á meðan ónæmiskerfið er veiklað?


Hafi ónæmiskerfi þitt veiklast, gerirðu rétt í að halda þig frá gerlum og öðru sem getur valdið sjúkdómum. Mikilvægur liður í því er að vanda innkaup og matseld. Um það getur þú lesið nánar í greininni Matvælaframleiðsla og öryggi.


Fæða sem rétt er að forðast

Í sumum matvælum er mjög mikið af gerlum. Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (The U.S. Food and Drug Administration - FDA) mælir með því að börn, gamalmenni og ónæmisbælt fólk forðist eftirtalin matvæli:

 • Hráar spírur og frjónálar (alfalfa, radísur, brokkolí, múngbaunir o.s.frv.) vegna mikillar hættu á salmonellu og E.coli gerlum í þessum tegundum.

 • Ósoðin egg, þar á meðal ógerilsneytt eggjapúns, hráa salatsósa (t.d. dæmigerða Caesarsalatsósu) og hráan marengs vegna hættu á salmonellusýkingu.

 • Ógerilsneyddan ávaxta- og jurtasafa, þar á meðal eplasafa nema þú búir hann til sjálf og hafir þvegið hráefnið vandlega.

 • Hrátt eða lítið soðið kjöthakk eða fuglakjöt.

 • Tófú sem liggur í vatnslegi í umbúðunum.

Nær undantekningarlaust mæla flestir menntaðir fæðuráðgjafar með því að forðast eftirtalda fæðu meðan á meðferð með krabbameinslyfjum stendur vegna þess að gerlamagnið kann að vera nóg til þess að fólk með veiklað ónæmiskerfi veikist:

 • Hrár eða léttsoðinn matur, þar með taldar eftirfarandi fæðutegundir: kjöt, fiskur, skelfiskur, reyktur lax, sushi, sashimi, fuglakjöt, egg, pylsur í brauði, tilbúnir kjötréttir í verslunum og á samlokubörum, tófú, ósoðnar reyktar pylsur og beikon.

 • Matur sem inniheldur ósoðin egg eins og hollandaise-sósa, óbakað smákökudeig eða heimatilbúið majones.

 • Ógerilsneydd mjólk og mjólkurvörur unnar úr ógerilsneyddri mjólk.

 • Mjúkir ostar eins og bríe, camembert, blármygluostar (gráðostur, roquefort, stilton, gorgonzola o.fl.), svo og ostar eins og þeir sem notaðir eru í mexíkóskar ostasósur.

 • Óþvegið nýtt grænmeti og ávextir svo og allir ávextir og grænmeti sem hægt er að sjá á einhver myglumerki.

 • Hrátt hunang.

 • Sólte (te sem er látið trekkja við sólarljós).

 • Ógerilsneyddur bjór.

 • Ósoðið ölger.

Forðastu einnig mat af salatbörum, samlokubörum, hlaðborðum, götusölu og samskotaborði. Öllu þessu fylgir viss hætta á að matvælin hafi ekki verið geymd á réttan hátt í kæli eða frysti, auk þess sem ekki er hægt að vera þess fullviss að nægilegs hreinlætis hafi verið gætt af hálfu þeirra sem meðhöndluðu eða útbjuggu matinn.

Víða þarf fólk að láta athuga hjá sér kranavatnið, og kannski ættirðu að láta gera það ef þú færð vatn úr eigin brunni eða frá lítilli vatnsveitu í bæ eða sveit. Í stærri bæjum og borgum þar sem vatni er veitt til mikils fjölda íbúa er það rannsakað reglulega til að ganga úr skugga um að það sé hreint og ómengað. Það á hins vegar ekki endilega við um minni vatnsveitur. Verðir þú vör við einhver vandamál, lestu þá það sem er að finna í Matvælaframleiðsla og öryggi því þar finnurðu ábendingar um hvernig þú getur gengið úr skugga um að vatnið sem þú neytir sé í lagi. Hugsanlega viltu ræða það mál við lækninn þinn.


Fæða sem getur styrkt ónæmiskerfið 

Rétt eins og það er mikilvægt fyrir þig að fá nógu margar hitaeiningar til að viðhalda þyngd er mikilvægt að þú fáir nógu mikið af prótíni (eggjahvítuefnum) til þess að ónæmiskerfið haldist sterkt.

Hér á eftir fara nokkrar fæðutegundir sem eru góð uppspretta prótíns fyrir fólk með veiklað ónæmiskerfi:

 • Magurt kjöt, fiskur, egg eða gerilsneytt tófú, allt vel soðið. Athugaðu hitastigið inni í matnum með hitamæli til að ganga úr skugga um að hann hafi náð nægilega háum hita til þess að drepa alla gerla. *Listi yfir hitastig sem drepur gerla í mismunandi fæðutegndum er fenginn af síðu U.S. Department of Agriculture's food safety fact sheet, íslenskaður og umreiknaður í oC.

 • Gerilsneydd léttmjólk eða undanrenna.

 • Fitulítil kotasæla eða fitusnauð, gerilsneydd jógúrt.

 • Súpur úr dós eða pökkum.

 • Ein fjölvítamíntafla. Í stað þess að taka inn ­fæðubótarefni eða vítamín sem kunna að hafa truflandi áhrif á meðferðina, skaltu ræðu við lækni þinn hvort rétt sé að þú takir daglega inn fjölvítamíntöflu með steinefnum.

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB