Að borða til að viðhalda þyngd

Þótt margar konur þyngist meðan á meðferð við brjóstakrabbameini stendur og eftir að henni lýkur eru aðrar sem léttast. Margar konur léttast um fáein kiló eftir að hafa farið í skurðaðgerð. Hliðarverkanir lyfjameðferðar, svo sem uppköst og niðurgangur, geta einnig valdið því að konur léttast. Að léttast getur framkallað síþreytu og getur dregið á langinn þann tíma sem það tekur að jafna sig á meðferð. Að léttast getur einnig veikt ónæmiskerfið og gert fólk viðkvæmara fyrir sýkingum.

Vigtaðu þig og ræddu síðan við lækni þinn um hvað er heppilegt að þú sért þung. Þegar þú hefur sett þér ákveðið markmið getur verið gott að tala við fæðuráðgjafa og fá hjálp við að setja saman mataræði sem hentar þér og þörfum þínum.

Nokkrar meginreglur sem þú skalt fylgja viljirðu komast hjá því að léttast:

  • Reyndu að snæða litla máltíð eða fá þér eitthvert snarl á klukkutíma eða tveggja tíma fresti. Hafðu við hendina bita sem innihalda mikið af prótíni og gnægð hitaeininga eins og ost í bitum, tekex með hnetusmjöri, harðsoðin egg, orkustangir og búðing í litlu máli eða hrísmjólk.

  • Reyndu að borða mat sem inniheldur mikið af prótíni en lítið af fitu. Sumar konur fá óbeit á fitu á meðan þær eru í meðferð við brjóstakrabbameini. Sé það þín reynsla, reyndu þá að borða mat sem inniheldur mikið af prótíni en lítið af fitu svo sem kotasælu, jógúrt, magran ost, egg, magurt kjöt, magran fisk og linsubaunir.

  • Borðaðu þær tegundir ávaxta og grænmetis sem innihalda fleiri hitaeiningar en aðrar. Til þess að fjölga hitaeiningum en fá engu að síður næringu úr ávöxtum og grænmeti, prófaðu þá að borða þurrkaða ávexti, hreinan ávaxta- eða grænmetissafa, ávexti og grænmeti svo sem maís, ertur, banana, kirsuber, mangóávexti, límabaunir og sætar kartöflur. Þessar tegundir innihalda fleiri hitaeiningar en aðrar tegundir ávaxta og grænmetis.

Að borða til að þyngjast eftir meðferð

Viljirðu þyngjast aftur eftir meðferð er mikilvægt að þú fáir nægilega mikið af prótíni engu síður en hitaeiningum. Magnið er breytilegt frá einum einstaklingi til annars. Með hjálp fæðuráðgjafa eða næringarfræðings getur þú sett saman áætlun sem hentar þér og markmiðum þínum.

Flestar fullvaxta konur þurfa að borða um það bil 30 hitaeiningar fyrir hvert kiló sem þær vega til að þyngdin haldist óbreytt. Hafir þú lést meðan á meðferðinni stóð og þarft að þyngjast, auktu þá hitaeiningaskammtinn um 500 hitaeiningar. Ef þú varst 65 kíló fyrir meðferð og horaðist meðan á meðferð stóð, þarftu 1.950 hitaeiningar (30 x 65) plús 500, samtals 2.450 hitaeiningar.

Prófaðu eitthvað af þessum hugmyndum til að fjölga daglegum hitaeiningum:

  • Notaðu léttmjólk eða undanrennu í stað vatns við eldamennskuna þar sem því verður við komið.

  • Bættu granóla í smákökur, formkökur, brauð og klatta. Stráðu því yfir jógúrt, búðinga, heitt eða kalt morgunkorn og grauta. Blandaðu saman granóla og þurrkuðum ávöxtum og notaðu sem millimál.

  • Bættu þurrkuðum ávöxtum út í deigið þegar þú bakar muffins, smákökur, brauð, formkökur, klatta o.s.frv., út á morgkorn og í soðin hrísgrjón.

  • Notaðu salatsósur og bakaðar sósur út á grænmeti, kjöt og fisk.

  • Bættu söxuðum harðsoðnum eggjum út í salöt, á brauðið og í pottrétti.


Hvernig hægt er að auka magn prótíns í mataræði:


Eggjahvítuefni (prótín) eru aðalbyggingarefnið og á þátt í að lækna og búa til nýjan vef. Á meðan á meðferð stendur getur verið ágætis þumalputtaregla að borða eitt gram af prótíni fyrir hvert kiló sem þú vegur. Sértu 80 kg að þyngd, reyndu þá að hafa 80 grömm af prótíni í daglegri fæðu.

Góðar uppsprettur prótíns eru magurt kjöt, magur fiskur, fuglakjöt, mjólkurafurðir, hnetur, þurrkaðar baunir, ertur, linsubaunir og soja.

Prófaðu eitthvað af þessu til að auka prótínmagn í daglegri fæðu:

  • Bættu osti ofan á brauðsneiðar, fisk, grænmeti, í súpur, pottrétti, pasta, hrísgrjón og núðlur.

  • Settu magurt kjöt, fisk eða tófú út í pastasósur, pottrétti, súpur og sósur. Steiktu þetta með grænmeti til að matreiða fljótlega og bragðgóða máltíð.

  • Notaðu léttmjólk eða undanrennu í stað vatns þar sem því verður við komið í eldamennskunni.

  • Borðaðu harðsoðin egg. Geymdu þau í ísskápnum þar sem þú getur gripið til þeirra milli mála. Bættu harðsoðnum eggjum út á salöt og ofan á brauð.

  • Settu hnetur, fræ og hveitikím út í pottrétti, brauð, smákökur, formkökur, muffins, klatta og morgunkorn. Stráðu þessu á ís og niðurskorna ávexti.

  • Settu alls kyns baunir út í pastasósur og pottrétti.

  • Smyrðu hnetusmjöri á brauðsneiðar, ristað brauð, tekex, muffins og ávaxtasneiðar. Notaðu hnetusmjör sem ídýfu fyrir hrátt grænmeti.

  • Notaðu jógúrt sem ídýfu fyrir ávexti og niðursneitt grænmeti eða smákökur.

  • Bættu frystri jógúrt eða mjólkurís út í koffínlaust kaffi, te eða heitt súkkulaði.

  • Settu kotasælu og saxaða lárperu út í salsasósuna til að búa til bragðgóða ídýfu.

ÞB