Getur fæða dregið úr hættu á brjóstakrabbameini?

Ummæli sérfræðings:

"Það getur ruglað mann í ríminu að lesa allar frásagnirnar í blöðum og tímaritum um hinar og þessar fæðutegundir. Næringarfræði er ung vísindagrein. Sérhver rannsókn bætir örlitlum mola við þá þekkingu sem fyrir er.”

- Diana Dyer, M.S., R.D., hefur lifað það að fá þrisvar sinnum krabbamein

Ekki er til nein sérstök fæða eða ákveðið mataræði sem getur komið í veg fyrir brjóstakrabbamein. Sumar fæðutegundir geta hins vegar stuðlað að því að halda líkamanum eins hraustum og hægt er, styrkt ónæmiskerfið og átt þátt í að minnka líkur á brjóstakrabbameini eftir föngum. Engin sérstök fæða eða ákveðið mataræði getur heldur læknað krabbamein* þótt sumt geti dregið úr aukaverkunum og átt þátt í að líkaminn nær sér aftur eftir krabbameinsmeðferð. Ákveðin fæða getur átt þátt í að styrkja áhrif meðferðar við krabbameini og stuðlað að því að þú endurheimtir heilsuna og haldir henni. Önnur fæða getur verið skaðleg og truflað meðferð og bata.

Hæfileg líkamsþyngd dregur bæði úr myndun brjóstakrabbameins og hættu á að það taki sig upp á ný

Að vera hæfilega þung getur dregið úr hættu á að brjóstakrabbamein taki sig upp. Í rannsókn sem kynnt var árið 2005 komust rannsakendur að þeirri niðurstöðu að konum sem þyngdust eftir að hafa greinst með brjóstakrabbamein var hættara við að meinið tæki sig upp en öðrum.

Rannsóknir á gildi þess að halda sér í hæfilegri þyngd og draga úr líkum á myndun brjóstakrabbameins benda til að konum sem eru of þungar eftir tíðahvöf sé hættara við brjóstakrabbameini en hinum sem eru hæfilega þungar miðað við hæð og aldur.

Sértu ekki viss um hvað er eðlilegt að þú sért þung, geturðu farið inn á Hvað ertu þung? og nýtt þér ráð og tæki sem þar er að finna. Hreyfing er ómissandi liður í áætlun um heilsusamleg mataræði. Reiknaðu með að byrja á að ganga í þrjár til fjórar klukkustundir í viku hverri á meðan þú ert að komast af stað. Sértu í meðferð sem stendur þarftu kannski að byrja rólegar og stefna svo hægt og bítandi að þessu marki.

Fitusnautt mataræði gæti dregið úr líkum á að þú fáir einhvern tíma brjóstakrabbamein eða það taki sig upp á ný

Með því að halda þig við fitulítið mataræði stuðlar þú hugsanlega að því að minnka líkur á að brjóstakrabbamein taki sig upp á ný (grein á ensku). Í rannsókn þar sem konur fengu aðeins 25% af daglegum hitaeiningum úr fitu voru færri tilfelli þar sem brjóstakrabbameinið hafði tekið sig upp. Þetta átti einkum við um konur sem höfðu verið með brjóstakrabbamein án estrógenviðtaka. Fleiri rannsókna er þörf til að komast að því hvaða konur eru líklegastar til að njóta í ríkum mæli góðs af því að breyta mataræðinu í einhverja ákveðna átt. Reyndar skiptir ekki máli hvers konar krabbamein þú hefur átt við að stríða, undir öllum kringumstæðum gætir þú haft mjög gott af því að minnka fitu í fæðunni. Líklegt er að ýmislegt fleira ávinnist með því að draga úr fituneyslu, borða meira af ávöxtum og grænmeti og léttast. Allar slíkar breytingar geta orðið liður í því verkefni að koma í veg fyrir að krabbameinið taki sig upp.

Umfangsmikil bandarísk rannsókn var gerð í því skyni að kanna og bera saman konur sem komnar voru yfir tíðahvörf og líkur þeirra á brjóstakrabbameini eftir því hvort þær fóru á fitusnautt fæði eða héldu sig við sitt venjulega mataræði. (Women's Health Initiative Trial.) Rannsakendur fundu engan marktækan mun á þessum tveimur hópum. Hins vegar bentu niðurstöður rannsóknarinnar til þess að hefðu konurnar verið á fituríku fæði og dregið úr fituneyslu dró það úr líkum á að þær fengju yfirleitt brjóstakrabbamein. Fleiri rannsókna er þörf til að sjá hvort þetta samband kemur skýrar í ljós með tímanum. Með því að draga úr fituneyslu og auka neyslu grænmetis, ávaxta og heilkorns er hins vegar öruggt að líkaminn fær þau næringarefni sem hann þarfnast og það styrkir heilsu þína almennt. Fituminna fæði mun að öllum líkindum einnig hjálpa þér að grennast, hafir þú hug á því.

Engin sérstök fæða eða fæðubótarefni eru talin tengjast brjóstakrabbameini sérstaklega

Engar ákveðnar sannanir liggja fyrir um að vissar fæðutegundir eða fæðubótarefni dragi úr líkum á að fá brjóstakrabbamein eða minnki líkur á að það taki sig upp.

Rannsóknir hafa sýnt að það að fá nauðsynlega næringarefni úr fjölbreyttri fæðu, einkum ávöxtum, grænumeti og heilkorni, er forsenda fyrir vellíðan og þannig fær líkaminn þá orku sem hann þarfnast. Nauðsynleg næringarefni fást að mestu úr fæðunni. séru að hugsa um að taka inn fæðubótarefni, er heillaráð að fá viðurkenndan fæðuráðgjafa til að fara yfir mataræði með þér. Huganlega þarft ívið meira af ákveðnum næringarefnum eins og fólatsýru eða A-vítamíni. Ástæðan fyrir því að margar konur taka inn fjölvítamíntöflu með steinefnum, hvort sem þær hafa fengið brjóstakrabbamein eða ekki. Margar konur þurfa auk þess að taka inn kalktöflur til að mæta daglegri þörf líkamans fyrir kalk.


Stöðugt er verið að gera rannsóknir á mataræði í tengslum við brjóstakrabbamein

Með rannsóknunum er verið að kanna samband mataræðis og líkinda á brjóstakrabbameini eða hættu á að mein taki sig upp aftur. Í rannsókn um fæðuval kvenna sem nefndist (2.3.1.5) The Women's Health Initiative Trial voru leiddar líkur að því að mjög fitulítið mataræði gæti hugsanlega dregið úr líkum á brjóstakrabbameini. Fleiri rannsókna er þörf á þessu mikilvæga sviði til þess að þær konur sem vilja borða rétt til að draga úr líkum á að fá einhvern tíma brjóstakrabbamein, hafi traustan grunn að standa á.

Læknar og næringarfræðingar bíða spenntir eftir niðurstöðum úr rannsókn sem nú stendur yfir á heilsusamlegu mataræði og líferni kvenna (Women's Healthy Eating and Living - WHEL). Í þeirri rannsókn er verið að kanna hvort fitulítið mataræði með miklu af ávöxtum og grænmeti geti stuðlað að því að fækka tilfellum þar sem brjóstakrabbamein tekur sig upp. Nokkur ár munu líða áður en niðurstöður liggja fyrir.

Þangað til mæla næringarfræðingar með eftirfarandi:

  • Haltu þér í æskilegri þyngd miðað við hæð, beinabyggingu og aldur. Þótt fitumæling sé ekki óskeikul aðferð (BMI=Body mass index) þá getur hún þó gefið hugmynd um og hjálpað þér að meta hvað þú ættir að vera þung.

  • Borðaðu mikið af grænmeti og ávöxtum (meira en fimm bolla á dag).

  • Af þeim hitaeiningum sem þú færð daglega með fæðu er æskilegt að fimmtungur eða minna komi úr fitu (20%). Þetta er mjög lítið af fitu (yfirleitt er þetta hlutfall um 30 til 35% af heildarfjölda hitaeininga á dag). Byrjaðu á að sleppa mat sem er með hvað mesta fitu (steiktan mat og smjörlíki) og minnkaðu smám saman fituna sem þú neytir.

  • Borðaðu mat sem er með mikið af omega-3 fitusýrum.

  • Forðastu transfitu, rautt kjöt og brenndan eða reyktan mat.

Þú sérð fljótt að unnin matvæli passa verr inn í þessa tegund mataræðis en fæða úr fersku hráefni.


Til að leggja drög að hollu mataræði sem hentar þér og þörfum þínum getur verið gott að leita til næringarfræðings eða fæðuráðgjafa. Hann leggur mat á heilsufarssögu þína, núverandi mataræði og hvernig þyngd þín hefur breyst með árunum. Með hliðsjón af því verður mögulegt að ákveða í samvinnu við þig hvernig best sé fyrir þig að nærast til þess að ná takmarki þínu og til að:

  • Halda líkum á brjóstakrabbameini í lágmarki,

  • tryggja þér góða næringu,

  • viðhalda eftir föngum góðri heilsu.

*Dr. Jane Plant, höfundur bókarinnar Your life in your hands, sem er e.k. uppskrift að því sem stundum er kallað "kínverskt mataræði", er á annarri skoðun og rökstyður hana.

*Málsgreinar merktar stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB