Hörfræ
Frá því um 1950 hefur verið talað um hörfræ sem fæðu er gæti fyrirbyggt eða unnið á krabbameini. Fræið er hægt að fá sem malað korn, fínt mjöl og heil fræ. Hörfræ er að finna í sumu fjölkorna brauði, morgunkorni, næringarstöngum og jafnvel í kökum og kexi. Hægt er að rista fræin og strá þeim yfir salat, setja þau út á jógúrt eða í mjólkur- og ávaxtahristing af ýmsu tagi (smoothies).*Meira um meðferð og möguleika hörfræs.
Rétt eins og omega-3 fitusýra er hörfræ góð uppspretta lignans – efnis sem hugsanlega hefur veika estrógenvirkni. Þegar veik estrógenvirk plöntuefni taka sæti venjulegs estrógens á estrógenviðtökum brjóstafrumna virkar veika efnið sem eins konar and-estrógen (móthormón). Með þeim hætti getur lignan hugsanlega unnið gegn þeirri tegund brjóstakrabbameins sem til viðgangs er háð estrógeni. Lignan finnst í samþjöppuðu formi í hýði hörfræsins. Þegar fræin eru möluð á líkaminn auðveldara með að nálgast efnið og nýta sér það.
Flestar staðfestingar á fyrirbyggjandi áhrifum hörfræs eru fengnar úr fáeinum litlum rannsóknum sem gerðar hafa verið á dýrum. Nauðsynlegt er að gera rannsóknir á fólki til að meta hugsanleg áhrif hörfræs á krabbamein.
Hörfræ getur stuðlað að því að halda kólestrólmagni niðri og þarmastarfsemi í lagi. Olía hörfræs, alfa-línóleum sýran, er ómega-3 kjarnafitusýra. Einnig er mikið af trefjum í hörfræi. Ákveðir þú að borða hörfræ, skaltu byrja smátt og gæta þess að drekka mikið af vatni. USDA gefur ekki neinar ráðleggingar um æskilegt daglegt magn en margir fæðuráðgjafar mæla með einni til tveimur matskeiðum af möluðu hörfræi á dag.
ÞB