Hráfæði

Hráfæði hefur orðið mjög vinsælt hjá fólki sem vill gera allt sem hægt er til að bæta heilsuna. Öll fæða er þá höfð hrá og ósoðin til þess að efnasamsetning hennar raskist ekki. Þeir sem aðhyllast hráfæði telja að í hráu fæði sé meira af heilsusamlegum ensímum (efnahvötum) en í soðnum mat vegna þess að suða brýtur niður ensím.

Í flestu gerðum mataræðis sem inniheldur eingöngu hráa fæðu eru eingöngu ávextir, grænmeti, hnetur og fræ. Þó er til í dæminu að þar sé einnig að finna nýmjólk, hrátt kjöt og egg. Í hráu eða lítt soðnu kjöti og mjólkurafurðum kunna að leynst bakteríur sem geta gert þig veika, neytir þú þeirra. Ástæða er til að hafa áhyggjur af því, einkum ef ónæmiskerfið er veiklað vegna meðferðar við brjóstakrabbameini. Hafir þú hug á að halda þig við hráfæði skaltu sniðganga hráar dýraafurðir.

Sem stendur liggja ekki fyrir neinar sannanir um að hráfæði dragi úr hættu á brjóstakrabbameini. Þar sem í hráfæði er mikið af ávöxtum, grænmeti og heilkorni sem allt inniheldur mikið af plöntuefnum er það sjálfsagt að mörgu leyti heilsusamlegt.

Með því að halda þig alfarið við hráfæði, án nokkurra dýraafurða, er hætt við að þú fáir ekki nóg af prótíni, járni, kalki og öðrum mikilvægum steinefnum, einkum ef þú ert í lyfjameðferð eða annarri meðferð við brjóstakrabbameini. Fleiri rannsókna er þörf á hráfæðinu og hvaða fyrirbyggjandi áhrif það kann að hafa gegn brjóstakrabbameini. Hafir þú áhuga á að reyna hráfæði skaltu tala við lækni þinn eða menntaðan fæðuráðgjafa til að tryggja að þú fáir öll nauðsynleg næringarefni og mataræði þitt sé nægilega fjölbreytt og vel saman sett. Hugsanlega getur þú sniðið hráfæði að þínu venjulega mataræði þannig að það svari þörfum þínum.

ÞB