Hvítlaukur

Hvítlaukur er náskyldur venjulegum lauk, blaðlauk, perlulauk, skalotlauk og graslauk. Í fjölmörg ár hefur því verið haldið fram að í hvítlauk sé liðstyrkur í baráttu við krabbamein og sýkingar. Því er einnig haldið fram að hvítlaukur sé góður fyrir magann og gegn margvíslegum krankleika honum tengdum.

Í hvítlauk eru alls kyns súlfíð (sambönd brennisteins og rafjákvæðra efnahópa eða vetnis), meðal annars efnið alliin. Þegar hvítlauksrif er marið breytist alliin í annað efni sem kallast allisín. Allisín virðist vera eitt af aðal efnasamböndunum í hvítlauk og gefur honum lykt og heilnæmi. Hvítlaukur er einnig andoxunarefni.

Hvítlaukur kann hugsanlega að draga úr magni helicobacter pylori, bakteríu eða sýkils sem getur valdið magasári og hefur verið nefndur í tengslum við magakrabbamein. Aðrar niðurstöður rannsókna á fyrirbyggjandi eða læknandi eiginleikum hvítlauks á krabbamein hafa ekki verið samhljóða.

Margar skoðanir eru í gangi á því hvernig magn og meðhöndlun hvítlauks getur haft áhrif á heilsuna. Með því að elda hvítlauksrif eða saxa breytist magn og tegundir virkra efnasambanda í hvítlauknum. Þess vegna mæla sumir með því að hann sé snæddur hrár.

Að borða mikið af hvítlauk, einkum ef hann er hrár, getur ert meltingarveginn og valdið ólgu í maga eða vindgangi. Að nota daglega fáein rif í pastasósu, salatsósu eða á hvítlauksbrauð ætti hins vegar að vera í lagi.

ÞB