Lýkópen

Lýkópen er efni sem gerir tómata rauða á lit svo og aðra rauða eða appelsínurauða ávexti og grænmeti. Mest er af lýkópeni (sem er eins konar frumgerð karótíns) í unnum tómötum, en einnig er mikið af því í vatnsmelónum, rauðum greipaldinum og ferskum tómötum. Nokkrar rannsóknir benda til að auðveldara sé fyrir líkamann að nýta sér lýkópen úr tómötum unnum með svolítilli olíu eða fitu (t.d. tómatsósu eða sólþurrkuðum tómötum) en úr hráum tómötum eða tómatsafa.

Lýkópen er kröftugt andoxunarefni. Rannsóknir benda til að fólk sem borðar mikið af tómatafurðum eigi síður á hættu að fá krabbamein í lungu, blöðruhálskirtil og maga. Hugsanlegt er einnig að lýkópen geti stuðlað að því að verja líkamann krabbameini í hálsi, brjóstum, brisi, ristli og vélinda en það hefur ekki verið sannað enn sem komið er.

Þyki þér tómatar góðir eru engir ókostir því samfara að borða þá í hvert mál. Verði þér að góðu!

ÞB