Makróbíótískt fæði

Makróbíótískt fæði hefur með árunum orðið afar vinsælt meðal kvenna sem eru reiðubúnar að gera allt sem í þeirra valid stendur til að draga úr líkum á að þær fái brjóstakrabbamein eða krabbamein taki sig upp á ný. Uppistaðan í makaróbítótísku fæði er grænmeti og kornmeti. Flest fæða er lítt eða ekkert unnin og hvatt er til þess að sniðganga mjólkurafurðir, rautt kjöt, kaffi, egg og sykur. Einnig er hvatt til þess að sniðganga fæðubótarefni. Makróbíótískt fæði er hluti af yfirgripsmikilli hugmyndafræði sem leggur áherslu á líkamlega hreyfingu og hvetur fólk til að forðast öll tilbúin efni, illgresis- og skordýraeyði, svo og segulmagnsgeislun. Formælendur stefnunar mæla einnig með því að matur sé eldaður á sérstakan hátt og aðeins séu notuð áhöld úr tré, gleri, stáli eða með glerungi.

Rannsóknir á konum sem fylgdu makróbíótísku mataræði sýndu að samanborið við aðrar konur höfðu þær örlítið minna af estrógeni í blóði en þær. Það gæti dregið úr hættu á þeirri tegund brjóstakrabbameins sem þarf estrógen til að myndast. Sem stendur liggja ekki fyrir neinar sannanir fyrir því að makróbíótískt fæði dragi úr líkum á brjóstakrabbameini. Þar sem makróbíótískt fæði er auðugt af grænmeti og heilkorni, er í því mikið af plöntuefnum sem geta búið yfir margvíslegum heilsusamlegum eiginleikum. Að borða eingöngu makróbíótískt fæði með engum dýraafurðum getur haft í för með sér skort á eggjahvítuefni (prótíni), járni, kalki og öðrum mikilvægum steinefnum, einkum fyrir þá eða þann sem er í lyfjameðferð eða annarri meðferð við brjóstakrabbameini.

Fleiri rannsókna er þörf á makróbíótísku fæði og hvaða áhrif það kann að hafa á líkur á brjóstakrabbameini. Hafir þú áhuga á að snúa þér að makróbíótísku fæði skaltu tala við lækni þinn eða menntaðan fæðuráðgjafa til að ganga úr skugga um að þú fáir örugglega öll nauðsynleg næringarefni og fæði þitt sé fjölbreytt og vel saman sett. Hugsanlega getur þú lagað makróbíótískt fæði að þínum eigin þörfum og aðstæðum. *Lesa meira um makróbíótík.

*Málsgrein merkt stjörnu er innskot þýðanda.

ÞB