Ómega-3 fitusýra
Ómega-3 fitusýra er mikilvægt næringarefni fyrir margs kyns starfsemi líkamans, einkum viðbrögð ónæmiskerfis. Líkaminn framleiðir ekki ómega-3 fitusýru og verður því að fá hana úr fæðu.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að ómega-3 fitusýra geta stuðlað að því að fyrirbyggja hjartasjúkdóma með því að minnka hættu á hjartsláttartruflunum sem geta leitt til skyndilegs hjartaáfalls. Ómega-3 fitusýra dregur einnig úr kölkun innan á slagæðaveggjum og minnkar magn skaðlegs kólestróls (LDL – Low Density Lipoprotein) og þríglýseríða í blóði.
Ómega-3 fitusýra er góð uppspretta lignan – plöntuefnis með væga estrógenvirkni. Þegar plöntuefni með vægri estrógenvirkni tekur sæti venjulegs estrógens á estrógenviðtökum brjóstafrumna getur það virkað sem and-estrógen (móthormón) þegar það keppir við virkari tegund estrógens. Hugsanlegt er að lignan stuðli á þann hátt að því að koma í veg fyrir estrógenháðan brjóstakrabbameinsvöxt. Rannsóknir á því hvort ómega-3 fitusýra hefur fyrirbyggjandi áhrif á brjóstakrabbamein hafa hins vegar ekki leitt til óyggjandi sannana.
Mest magn ómega-3 fitusýru er að finna í kaldsjávarfiskum eins og sardínum, laxi, síld, túnfiski, þorski, makríl, lúðu og hákarli. Sams konar fitusýra finnst einnig í minna mæli í hörfræjum, valhnetum, nýrnabaunum, snittubaunum og sojabaunum. Sumir fæðuráðgjafar mæla með mataræði með miklu af fiski, auðugum af ómega-3 fitusýru eða að taka daglega inn eina eða tvær teskeiðar af hörfræolíu.
Vísindamenn eru ekki lengur samdóma um það álit að hollt sé að borða fisk. Í mörgum villtum fisktegundum, auðugum af ómega-3 fitusýru, er einnig mikið af kvikasilfri og öðrum mengandi efnum úr umhverfinu. Rannsókn á eldislaxi (vinsælustu eldisfisktegundinni) sýndi að í honum var meira af eiturefnum (öðrum en kvikasilfri) en í villtum fiski. Magn eiturefna í öðrum fisktegundum samanborið við þær sem aldar eru í kvíum er óþekkt. Sums staðar er sjórinn trúlega hreinni og betri fyrir villtan fisk en annars staðar og á sumum fiskeldisstöðvum eru ræktendur trúlega meðvitaðri um heilsuþættina en á öðrum. Eins og sakir standa mæla sérfræðingar með því að breyta oft til og borða margs konar fisk til að draga úr hættu á að fá í líkamann of mikið af eiturefnum. Jafnframt mæla þeir með því að borða villtan fisk um það bil tvisvar í viku en eldislax ekki oftar en einu sinni í mánuði.
ÞB