Plöntuefni
Plöntuefni (phytochemicals) eru margs kyns efni framleidd af plöntum (“phyto” þýðir planta). Þau finnast í ávöxtum, grænmeti, korni, baunum og öðrum jurtum. Talið er að sum þessara plöntuefna geti varið frumur gegn skemmdum sem ella gætu leitt til krabbameins.
Sumir vísindamenn telja að hægt sé að draga úr líkum á krabbameini um allt að 40% með því að borða meira af grænmeti, ávöxtum og öðru jurtafæði sem inniheldur ákveðin plöntuefni. Með rannsóknum hefur verið sýnt fram á að sum plöntuefni geta hugsanlega:
-
Átt þátt í að stöðva myndun efna sem möglega geta valdið krabbameini (krabbameinsvaka).
-
Átt þátt í að hindra krabbameinsvaka í að ráðast á frumur.
-
Hjálpað frumum til að stöðva og þurrka út allar breytingar sem kunna að líkjast krabbameinsbreytingum.
Nokkur gagnlegustu plöntuefnin eru:
-
Beta karótín og önnur karótínefni í ávöxtum og grænmeti,
-
resveratrol í rauðvíni,
-
pólýfenól (polyphenol) í mjög mörgum tegundum ávaxta og grænmetis og grænu tei,
-
ísóþíósýanatar í grænmeti af krossblómaætt. (Grænmeti af krossblómaætt tilheyrir kálfjölskyldunni: Bok choy, grænkál, spergilkál, rósakál, hnúðkál, garðakál, mustarðsblöð, næpublöð og blómkál.)
Þar sem öll þessi plöntuefni er að finna í ávöxtum, grænmeti, baunum og korni ætluðu til manneldis er tiltölulega auðvelt að fá þau í líkamann með fæðu. Í gulrót eru til dæmis yfir 100 mismunandi plöntuefni. Vísindamenn á sviði næringarfræði telja að borin hafi verið kennsl á rúmlega 4.000 plöntuefni. Þar af hafi aðeins um 150 verið rannsókuð til hlítar. Frekari rannsókna er þörf til að komast að því hvaða plöntuefni geta umfram önnur boðið upp á vörn gegn krabbameini og dregið úr líkum á sjúkdómnum.
Hafa ber í huga að engin sönnun er fyrir því að jafnhollt sé að taka inn plöntuefni í pillu- eða duftformi og að fá þau með því að leggja sér til munns ferska ávexti, grænmeti, baunir og korn sem inniheldur efnin. Flestir sérfræðingar eru ákveðið þeirrar skoðunar að flókið samspil þessara efnasambanda og annarar fæðu framkalli heilsusamleg áhrif þeirra á líkamann. Að birgja sig upp af einni eða tveimur tegundum plöntuefnis í pilluformi er trúlega ekki eins nytsamlegt og að borða vel samsetta og fjölbreytta fæðu með þessum efnum: Fimm bolla eða fleiri af ávöxtum og grænmeti á dag ásamt fleiri fæðutegundum úr jurtaríkinu svo sem brauði úr heilkorni, morgunkorni, hnetum, fræjum, hrísgrjónum, grófu pasta og baunum.
Heilsusamlegum plöntuefnum (lífvirkum náttúruefnum) er skipt í nokkra aðalflokka.
Flavonóíða er að finna í fjölmörgum tegundum korns, grænmetis og ávaxta. Flavonóíðar í sojabaunum, kjúklingabaunum og lakkrís virðast geta hagað sér í einhverjum mæli eins og estrógen, hormón sem getur haft áhrif á líkur á estrógenháðu brjóstakrabbameini og vaxtarskilyrðum þess.
Efnin í þessum plöntum (sem haga sér eins og estrógen) eru kölluð plöntuestrógen (fítóestrógen) eða estrógenvirk. Í flestum er estrógenvirknin afar lítil. Þegar efni með væga estrógenvirkni tekur sæti á frumum í stað venjulegs náttúrulegs estrógens, getur það haft svipuð áhrif og and-estrógen (móthormónalyf). Sé svo, geta plöntuestrógen hugsanlega unnið gegn brjóstakrabbameinsfrumum sem þurfa á estrógeni að halda til að fjölga sér. Plöntuestrógen eru til staðar í mjög litlum mæli í fæðutegundunum sem nefndar voru hér að framan. Lesa má meira um plöntuestrógen á síðunni þar sem fjallað er um soja. Vísindamenn eru að rannsaka eiginleika flavonóíða í því skyni að komast að því hvort þeir geti dregið úr hættu á ákveðnum tegundum krabbameins og hjartasjúkdómum.
Andoxunarefni verja frumur líkamans gegn sindurefnum – óstöðugum mólekúlum sem verða til við eðlilega frumustarfsemi. Mengun, geislun, tóbaksreykur, illgresiseyðir, allt getur þetta myndað sindurefni. Sindurefni geta skaðað arfbera og hrundið af stað ferli þar sem frumur taka að vaxa stjórnlaust. Hugsanlegt er að þær breytingar leiði til þess að krabbamein og aðrir sjúkdómar ná að myndast.
Andoxunarefni finnast í spergilkáli (brokkolí), rósakáli, hvítkáli, blómkáli, tómötum, maís, gulrótum, mangóávöxtum, sætum kartöflum, sojabaunum, kantalúpum, appelsínum, spínati, hnetum, blaðsalati, selleríi, lifur, lýsi, fræjum, korni, garðkáli, rauðrófum, rauðum papríkum, kartöflum, bláberjum, jarðarberjum og svörtu og grænu tei. Yfirleitt hefur litsterkt grænmeti meira af andoxunarefni en annað grænmeti og sama gildir um ávexti; því sterkari litur, þeim mun meira andoxunarefni.
Karótenóíð (karótín) gerir gulrætur, sætar kartöflur, kantalópur, grasker og apríkósur appelsínugul á lit. Karótenóíð og kann að draga úr hættu á krabbameini. Anþósýanín gefur rauðum vínberjum, bláberjum, trönuberjum og hindberjum dökkrauða eða bláa litinn sem sýnt hefur verið fram á með rannsóknum á tilraunastofum að hefur bólgu- og æxliseyðandi eiginleika.
Súlfíð er að finna í hvítlauk og öðrum lauktegundum og kann að verka styrkjandi á ónæmiskerfið.
Þær sannanir sem fyrir liggja um heilsusamleg áhrif plöntuefna (lífvirkra náttúruefna) hvíla að mestu leyti á því að fylgst hefur verið með fólki sem lifir fyrst og fremst á jurtafæðu (grænmetisætum). Hjá þessum hópi fólks greinast áberandi færri tilfelli krabbameins og hjartasjúkdóma en hjá öðrum. Samband sem stundum má greina milli ákveðinna plöntuefna og minni hættu á krabbameini er afar trúverðugt en þörf er frekari rannsókna. Til þessa hefur ekki tekist að sýna fram á með óyggjandi hætti að einhver ákveðin plöntuefni stuðli að því að minnka líkur á krabbameini eða lækna krabbamein
Ekki er við því að búast að einhver ein ákveðin fæðutegund verði ómissandi í mataræði þínu. Fæðuráðgjafar og aðrir í heilbrigðisstéttum munu ævinlega mæla með að neytt sé vel samsettrar fæðu sem inniheldur margskonar grænmeti, ávexti, belgjurtir og heilkorn.
Fullyrt hefur verið að ákveðnar fæðutegundir og plöntuefnin sem þau innihalda geti ýmist dregið úr eða aukið líkur á brjóstakrabbameini. Þú getur lesið um það á síðunni um hráfæði.
ÞB