Soja

Að borða sojabaunir eru útbreiddasta, ódýrasta og hitaeiningaminnsta leiðin til að fá mikið prótín, litla fitu og ekkert kólestról með fæðunni. Sojabaunir geta tekið á sig ýmsar myndir í meðförum manna. Nefna má tófú (soja-ysting), baunirnar sjálfar (edamame), sojamjólk, mísó, sojakjöt og sojaduft. Í soja eru mörg heilsusamleg plöntuefni. Í því eru prótínkinasetálmar sem eiga þátt í að halda frumuvexti í skefjum og frumustarfsemi eðlilegri (kínase er óvirkt efni sem getur breyst í ensím - efnahvata), plöntusteról og sapónín (sápuefni= heiti ýmissa efnasambanda sykrunga og steróíða) sem eiga þátt í að minnka kólestrólmagn, svo og fenól (karbólsýra) og plöntusýra sem eru hvort tveggja andoxunarefni. Í soja eru einnig ísóflavónar, vægt estrógenvirkt plöntuefni. Magn ísóflavóna er mismunandi eftir tegundum tófú og sojamjólkur. Estrógen sem líkaminn framleiðir er margfalt sterkara en ísóflavón með estrógenvirkni í soja. Taki veikt sojaefni sæti venjulegs estrógens á frumu, er hugsanlegt að soja verndi líkamann gegn krabbameini því að krabbameinsfrumur þurfa sterkari estrógenboð en þau sem estrógenvirk plöntuefni gefa frá sér.

Oft er mælt með soja sem raunhæfum prótínkosti fyrir fólk sem kýs að neyta ekki kjöts eða fiskjar. Niðurstöður rannsókna á fyrirbyggjandi eiginleikum soja gegn krabbameini eru ekki einhlítar. Margar þeirra hafa verið gerðar í löndum og menningarsamfélögum  þar sem fólk borðar miklu meira af soja og byrjar að neyta þess mun yngra en fólk á Vesturlöndum, til dæmis í Japan.

Raunar er það svo að konur í Austur-Asíu neyta um það bil tíu sinnum meira af soja en konur á Vesturlöndum. Staðreynd er einnig að hjá austur-asískum konum finnast miklu færri tilfelli brjóstakrabbameins með hormónaviðtökum heldur en í Bandaríkjunum

Fleiri þættir flækja “sojaævintýrið” og hugsanleg tengsl þess við færri tilfelli brjóstakrabbameins í Austur-Asíu en á Vesturlöndum. Í fæðu flestra asískra kvenna er soja eini prótíngjafinn. Þær neyta aðeins örlítils af nautgripakjöti, kjúklingi og svínakjöti – sem þýðir minna af dýrafitu og öðrum mögulegum skaðlegum efnum í þessum dýraafurðum (svo sem vaxtarhormónum og sýklalyfjum). Mataræði venjulegrar konu í Asíu er frábrugðið mataræði venjulegrar konu í Bandaríkjunum (*af hvaða uppruna sem hún kann að vera) að því leyti að hún

  • borðar meira af fersku grænmeti,

  • er nær því að vera í kjörþyngd

  • hreyfir sig meira

  • neytir líklega mun minna áfengis.

Öll eiga þessi atriði þátt í að gera lifnaðarhætti hennar heilsusamlegri og draga almennt úr líkum á brjóstakrabbameini hjá konum í Asíu. *Meira um "kínverskt mataræði".

Ekki er ljóst hvort ísóflavónar í soja hafa áhrif á brjóstakrabbamein, einkum þær tegundir sem eru hormónajákvæðar (hormónaviðtakar á frumum). Ísóflavónar geta hugsanlega haft áhrif á möguleika þess að andhormónameðferð skili tilætluðum árangri ef tvenns konar mólekúl keppa innbyrðis um að komast í sæti á sama hormónaviðtakanum. Sendi ísóflavónar veikari estrógenboð á hormónaviðtaka en t.d. tamoxifen (andhormónalyf) eða það estrógen sem líkaminn framleiðir, er hugsanlegt að ísóflavónar geti dregið úr estrógenháðum frumuvexti. Sendi ísóflavónar hins vegar brjóstafrumum sterkari estrógenboð en tamoxifen eða samsvarandi lyf, er vandi á ferðum.

Þar til úr þessu fæst skorið mæla flestir læknar með því að konur sem eru í andhormónameðferð við estrógenháðu brjóstakrabbameini taki ekki inn fæðubótarefni úr soja vegna þess hve mikið það inniheldur af ísóflavónum. Hins vegar er óhætt að borða soja í hóflegum skömmtum sem hluta af fjölbreyttu mataræði. Einn til þrír skammtar af sojafæðu á dag (einn skammtur er um það bil hálfur bolli) er það magn sem japönsk kona neytir daglega. Takir þú inn andhormóna í því skyni að vinna á brjóstakrabbameini með hormónaviðtökum og hefur áhyggjur af hugsanlegum áhrifum plöntuestrógens, spyrðu þá lækni þinn eða til þess hæfan fæðuráðgjafa hve mikið þér er óhætt að borða af sojafæðu.

´*Málsgreinar merktar stjörnu eru innskot þýðanda.

ÞB