Varað við ákveðnum kúrum sem staðhæft er að lækni krabbamein
Hundruð vísindalegra rannsókna renna stoðum undir þá fullyrðingu að fjölbreytt fæða sem inniheldur margs konar fæðutegundir, sé undirstaða heilsusamlegs mataræðis. Öfgakennt mataræði (kúrar) sem banna þér að borða nema eina tegund fæðu eða tvær er ekki heilsusamlegt. Grundvallaratriði er þó þetta: Engar vísindalegar sannanir eru fyrir því að einhver ákveðin fæða eða mataræði geti læknað krabbamein.
Forskrift að mataræði sem felur í sér að taka inn einhver ákveðin fæðubótarefni eða láta sprauta sig með þeim, langar föstur eða hreinsun með stólpípu geta spillt heilsu þinni – einkum og sér í lagi ef þú ert í meðferð við brjóstakrabbameini. Sértu í meðferð þarftu að tryggja að líkaminn fái öll nauðsynleg næringarefni og nægar hitaeiningar til þess að hann nái bata og starfi vel.
Hér á eftir eru nefndir þekktustu bandarísku kúrarnir sem fullyrt er að geti “læknað” krabbamein. Þetta er aðeins sett hér til fróðleiks. breastcancer.org MÆLIR EKKI MEÐ neinum þessara kúra.
Livingston-Wheeler þerapía
Í Livingston-Wheeler þerapíu er innifalin bólusetning, sýklalyf, vítamín og steinefni í fæðubótarformi, meltingarensím, stólpípur og grænmetisfæði. Ekki hefur verið sýnt fram á að kúrinn sé skaðlaus og engar vísindalegar sannanir eru fyrir því að Livingston-Wheeler þerapía lækni raunverulega brjóstakrabbamein eða nokkrun annan sjúkdóm.
Gerson þerapía
Gerson þerapía er efnaskiptaþerapía sem þýðir að áherslan er lögð á efnaskipti líkamans. Í Gerson þerapíu eru samþættir mismunandi matarkúrar og aðrir þættir sem er ætlað að vinna bug á og fjarlægja ákveðin “eiturefni” úr líkamanum sem samkvæmt kenningunni eiga að vera orsök sjúkdómsins. Þeir sem veita Gerson þerapíu telja að hjá konum með brjóstakrabbamein sé svo mikið natríum í líkamanum að jafnvægi við kalíumforðann hafi raskast. Við Gerson meðferð er allt salt og öll fita tekin úr fæðunni eftir því sem kostur er og eingöngu neytt grænmetisfæðis, m.a. er gefinn nýpressaður safi úr um það bil 10 kólógrömmum af ávöxtum og grænmeti á dag. Einnig eru gefnar kaffistólpípur. Engar vísindalegar sannanir eru fyrir því að Gerson meðferð minnki raunverulega krabbamein, dragi úr vexti þess eða auki lífslíkur. Skaðleg aukaáhrif geta falist í næringarskorti, alvarlegum vökvaskorti og ójafnvægi í rafvökum líkamans. Tíðar stólpípur geta einnig skaðað endaþarm og endaþarmsop.
Meðferðir kenndar við Kelly og Gonzalez
Meðferðir Kelly og Gonzalez eru báðar efnaskiptaþerapíur þar sem reynt er að fjarlægja svokölluð “eiturefni” úr líkamanum. Kelly-meðferðin felur í sér inntöku um það bil 150 mismunandi fæðubótarefna á dag, föstur, hreyfingu og notkun hægðalosandi lyfja og kaffistólpípu, hnykkmeðferð og bænir. Gonzalez-meðferðin er mjög svipuð. Báðar leggja þær áherslu á að “afeitra” líkamann og koma honum “aftur í jafnvægi”. Engar vísindalegar sannanir eru fyrir því að þessar þerapíur lækni krabbamein eða að þær séu skaðlausar heilsu manna. Skaðlegar aukaverkanir geta falist í næringarskorti, alvarlegri ofþornun og truflun í rafvökum líkamans. Tíðar stólpípur geta einnig skaðað endaþarm og endaþarmsop (tvo neðstu hluta garnanna).
ÞB