Þreyta - orkuleysi
Þreytu getur verið erfitt að lýsa – og það er stór hluti vandans. Ekki er hægt að benda á ákveðinn stað og segja: “Sko, þarna er hún!” Nei, það er ekkert að sjá og þegar þú hefur lifað við þetta ástand í marga mánuði – jafnvel ár – fara sumir að halda að þetta sé bara ímyndun, jafnvel þú sjálf. En þreytan – orkuleysið - er raunverulegt fyrirbæri.
Fólk verður ÞREYTT eftir áreynslu, einhverskonar erfiði eða samfelld átök – af að hlaupa maraþon, sinna erindum allan daginn, hugsa um heimili, maka og börn. Sértu þreytt í lok dagsins en færð góðan og nægan svefn, líður þér við eðlilegar aðstæður betur daginn eftir; þú afþreytist. Þegar um langvinna þreytu eða orkuskort er að ræða er samband áreynslu og þreytu óljósara. Langvinn þreyta er daglegur skortur á orku; eins konar magnleysi eða fjötur sem leggst á allan líkamann. Þú missir áhuga á fólki og athöfnum sem þú hefur til þessa haft gaman að. Líkamleg þreyta og deyfð fléttast saman og útkoman verður þessi tegund þreytu.
Sértu í meðferð við brjóstakrabbameini, stendur líkaminn í stríði. Hann þarf á allri sinni orku og útsjónarsemi að halda til að berjast við sjúkdóminn. Þess vegna lokar hann fyrir orku til alls sem gæti truflað yfirstandandi baráttu. Niðurstaðan er þessi tegund lamandi þreytu.
Gagnstætt því sem halda mætti getur þreyta lagst á þig af mestum þunga meðan á auðveldasta hluta meðferðarinnar stendur. Einnig er hugsanlegt að hún leggist þyngst á þig þegar meðferðinni er lokið, þegar þú ætlar að hefjast handa og vinna upp eitthvað af því sem hefur orðið að sitja á hakanum. Í þeim sporum reynirðu að standa undir eigin væntingum um hvað í því felst að vera aftur orðin “frísk”, án þess þó að vera búin að ná þér. Hugsast getur að þá renni í fyrsta sinn upp fyrir þér hvað það raunverulega þýðir að þú skyldir greinast með krabbamein – og afleiðingin verður enn meiri þreyta.
Eftirtaldir læknar og sérfræðingar bera ábyrgð á efni þessa kafla um þreytu:
-
Lillian Nail, Ph.D., R.N., prófessor við Oregon Health Sciences University School of Nursing
-
Russell Portenoy, M.D., taugalæknir, Beth Israel Medical Center and President of the Fatigue Coalition
-
Marisa Weiss, M.D., krabbameinslæknir við Thomas Jefferson University Health System/Fox Chase Cancer Center Network.
Þessir læknar eiga sæti í læknaráðinu þar sem eru saman komnir yfir 60 læknar og sérfræðingar á margvíslegum sviðum sem tengjast brjóstakrabbameini.
Sumt af efni síðunnar er fengið úr bókinni Living Beyond Breast Cancer eftir Marisa C. Weiss, M.D. og Ellen Weiss.
-
Sigurður Böðvarsson, læknir með lyf- og krabbameinslækningar sem sérgrein, las góðfúslega yfir íslensku þýðinguna með hliðsjón af læknisfræðilegum atriðum.
-
ÞB