Annastu sjálfa þig

Þú kemst kannski ekki hjá því að taka á tilfinningalegum þáttum tilverunnar við þær aðstæður sem þú stendur frammi fyrir, en jafn einfalt ráð og að auka hreyfingu og bæta mataræðið getur einnig orðið til góðs og hjálpað þér að takast á við krabbameinsþreytuna og aukið lífsgæðin.

  • Hreyfðu þig. Farðu rólega af stað. Gakktu eftir uppáhaldsgötunni þinni eða göngustíg í nágrenninu, finndu einhverja leið sem þér finnst falleg eða notaleg. Komdu þessu í fastar skorður sem þú ert sátt við: þrisvar í viku, hálftíma í senn eða þú finnur þér heilsuræktarstöð og ferð á göngubrettið. Víða auðvelt að komast í sund. Líkamsæfingar eru þér ef til vill ekki að skapi til að byrja með, en öllum sem komast upp á lag með þær finnst þær skipta sköpum. Þú munt sofa betur dagana sem þú hreyfir þig. Hreyfing dregur úr hitakófum og þar með líkum á að þú hrökkvir upp um miðja nótt. Allir sem fást við meðferð við langvinnri þreytu mæla með einhverri tegund hreyfingar.

  • Drekktu nægan vökva og borðaðu hollan mat. Mundu eftir að drekka mikið af hreinu vatni til þess að halda þörmunum gangandi og hreinsa út nýrun. (Samt ekki of nálægt háttatíma; þú vilt ekki þurfa að vakna til þess að fara á klósettið.) Borðaðu rétt, dragðu úr fituneyslu og borðaðu ekkert of tormelt – það felur einnig í sér að minnka skammta og velja létta fæðu.

  • Prófaðu að fá þér stuttan lúr. Ekki fá þér of langan lúr um miðjan dag, þá liggurðu ef til vill glaðvakandi að nóttu til og veltir fyrir þér af hverju þú getur ekki sofið. Lúr að deginum ætti alls ekki að vera meira en hálftíma langur svo að þú farir ekki inn í djúpa svefninn. (Vaknirðu hálfrykuð, hefurðu trúlega sofið of lengi.) Finnirðu að þú þarft á því að halda að leggja þig á hverjum degi, reyndu þá að gera það á ákveðnum tíma og helst ekki eftir klukkan tvö síðdegis.

  • Hafðu reglu á sjálfri þér. Borðaðu kvöldmatinn eins snemma og þú getur. Finnist þér þú þurfa að fá eitthvað í svanginn áður en þú ferð að sofa, hafðu það þá létt og borðaðu ekki í rúminu. Farðu í háttinn á sama tíma á hverju kvöldi og á fætur á sama tíma á morgnana. Ekki liggja áfram í rúminu eftir að þú vaknar.

  • Dragðu úr koffínneyslu. Þú skalt alls ekki snerta koffín eftir klukkan tvö á daginn. Ef þú ert sérlega viðkvæm fyrir koffíni skaltu ekki snerta það eftir hádegi, eða hreinlega sleppa því alveg. Í te- og kaffitegundum sem eiga að heita koffínlausar leynist oft meira koffín en maður ímyndar sér. Best er að halda sig við háttatímagerðir af te og kaffi (“sleepytime”), límonaði, eplasíder eða flóaða mjólk með eða án hunangs. Í gosdrykkjum, hvort sem þeir kallast appelsín, kóka kóla, pepsí, eða einhverju öðru nafni, leynist heilmikið koffín innan um gosbólurnar. Sumir verða andvaka af súkkulaði. Áfengi kann að hjálpa þér að sofna, en þegar upp er staðið hefur það slæm áhrif því að þú verður þreyttari en ef þú hefðir sleppt því. Áfengi truflar djúpa svefninn, þú vaknar of auðveldlega og of snemma. Í sumum verkjalyfjum sem fást án lyfseðils er einnig töluvert af koffíni. Athugaðu því vel innihaldslýsingar áður en þú tekur inn þannig lyf.

ÞB