Hvað varir svona ástand lengi?
Ómögulegt er að segja hversu lengi þreytuástandið kann að vara. Þumalputtareglan er þó sú að reikna má með að það vari að minnsta kosti jafn lengi og tíminn sem leið frá því að krabbameinið greindist þar til meðferð lauk. Hafi greining og skurðaðgerð tekið tvo mánuði og síðan tekið við sex mánaða lyfjameðferð, mun það því trúlega taka að minnsta kosti átta mánuði til viðbótar að losna við þreytuna. Að ná sér eftir stóra skurðaðgerð getur tekið allt að hálft ár. Þreyta sem tengist lyfjameðferð við brjóstakrabbameini getur varað í mörg ár, þó að það dragi úr henni smátt og smátt eftir því sem fram líða stundir. Líklegt er að þú finnir orkuna koma til baka í gusum, smáum eða stórum.
Hafir þú gert allt sem í þínu valdi stóð en ert samt þjökuð af þreytu, reyndu þá að sætta þig við að þreytan og orkuskorturinn eru þáttur í þeirri lífsreynslu að fá brjóstakrabbamein. Þú situr uppi með þetta ástand í bili og getur engu breytt. Eins þversagnarkennt og það kann að hljóma, ertu samt við stjórn, takist þér að láta berast með straumnum og njóta á sem allrabestan hátt þeirrar orku sem þér gefst þá og þá stundina.
ÞB