Hvað veldur stöðugri þreytu?

Ummæli hjúkrunarfræðings:

“Eitt af því sem sumar konur upplifa og finnst erfitt er að fólk segir við þær: “Þú ert ekkert þreytt, þú ert bara þunglynd.” Það er alvarlegt mál vegna þess að þá er litið framhjá því hver áhrif þreytu eru svo og eðli þunglyndis. Það er mikilvægt að meta báða þessa þætti, hvorn um sig, og við báðum er ef til vill hægt að finna lækningu.”

- Lillian Nail, Ph.D., R.N.

Margir þættir krabbameinsmeðferðar geta valdið stöðugri þreytu, þar á meðal eru:

  • Hitakóf geta verið að gera út af við þig. Þau geta verið sérlega bagaleg hafir þú lent í ótímabærum tíðahvörfum við krabbameinsmeðferðina, orðið að hætta á hormónalyfjum við tíðahvarfaeinkennum við það að greinast með brjóstakrabbamein eða ert á lyfinu tamoxifen. Að vera ýmist sjóðandi heitt eða ískalt getur tekið stóran toll af orkunni. Vaknir þú iðulega um miðjar nætur í hitakófi, getur það líka kostað þig næturhvíldina.

  • Ógleði og verkir geta svo sannarlega gengið á orkuforðann. Það kunna líka ýmis lyf að gera sem þér eru gefin til að slá á þess háttar óþægindi, eins og sterar og Compazine (prochlorperazine) við ógleði, og verkjalyf eins og morfín eða kódín.

  • Þyngdaraukning. Ef til vill borðarðu meira en áður til að slá á ógleði (eða sjálf meðferðin hefur í för með sér að þú þyngist). Skyndilega ertu 10 kílóum þyngri en áður og sjálfsmyndin í molum. Svo hefurðu ef til vill tilhneigingu til að hreyfa þig minna, og þar með er kominn í gang vítahringur: Því minna sem þú hreyfir þig, þeim mun minna langar þig til að hreyfa þig.

  • Sterar sem stundum eru hluti af meðferð við brjóstakrabbameini geta komið í veg fyrir djúpan, endurnærandi svefn. Hugsanlega ertu alls ekki úthvíld þótt þú hafir sofið í átta tíma. Að taka stera í langan tíma getur einnig orðið til að þess að auka mittismál og draga úr vöðvastyrk, einkum í mjöðmum og öxlum. Sértu þyngri en áður og hefur minni styrk getur það orðið til að framkalla þreytutilfinningu. Óvíst er hvort þú getir haft nokkur áhrif á lyfjagjöfina sem stendur, en að vita hvað veldur getur hjálpað þér að takast á við magnleysið. Góðu fréttirnar eru þær að flestar konur geta fyrr eða síðar hætt að taka stera og þá hverfa nánast allar aukaverkanir sem eiga rætur að rekja til þeirra.

  • Tilfinningalegt álag af brjóstakrabbameini er svo mikið að það getur svipt sterkustu konu orkunni. Frá því augnabliki að þig grunar að eitthvað sé að eða þér er sagt að það þurfi að rannsaka þig betur verður óvissan fylgikona þín. Tekin eru sýni, beðið eftir niðurstöðum, síðan koma viðtöl við lækna, krabbameinslækni, skurðlækni og e.t.v. fleiri og meðferðin er rædd. Síðan tekur sjálf meðferðin við – fleiri sýni, meiri meðferð. Og spurningin sem er þér efst í huga allan tímann er þessi: Virkar þetta? Kemst ég yfir þetta? Hvað gerist næst?

  • Þunglyndi getur fylgt því að greinast með brjóstakrabbamein og þreyta er oft fylgifiskur þunglyndis. Hugsanlega hefurðu að upplagi tilhneigingu til þunglyndis sem krabbameinsmeðferðin eykur síðan á. Hitt er einnig til í dæminu að þreytan sjálf geri þig viðkvæma fyrir þunglyndi. Að vita ekki af hverju þér finnst þú svona orkulaus viku eftir viku – vita ekki hvað þessi óeðlilega tilfinning er í raun og veru eðlileg – getur komið af stað þunglyndi. Ekki er einfalt mál að greina þunglyndi hjá konu sem gengið hefur undir krabbameinsmeðferð því að krabbamein og þunglyndi geta framkallað svipuð einkenni: skort á matarlyst, breytingu á þyngd, svefnvandamál og stöðuga þreytu. Meira um samband þreytu og þunglyndis

ÞB