Læknisráð við stöðugri þreytu
Ummæli læknis
“Hvað telst eðlilegt magn blóðrauða í blóði er dálítið mismunandi eftir rannsóknarstofum. Flestar konur með blóðrauða yfir 14 eða 14,5 eru taldar hafa eðlilegt magn blóðrauða. Nýjar upplýsingar benda til þess að blóðrauðastuðull á bilinu 10-12 geti haft afgerandi áhrif á hvort langvinn þreyta segir til sín eða ekki. Sjúklingur sem er illa haldinn af orkuskorti og er með blóðarauða undir 12, en ekki hægt að finna aðrar læknanlegar orsakir þreytunnar svo sem lélegt mataræði, þunglyndi, eða geðtruflanir, gæti haft gott að því að taka inn Procrit.”
—Russell Portenoy, M.D.
Ekki er til neitt töfralyf sem getur læknað þig af þreytu, en ýmis læknisráð kunna samt að virka. Taki læknir þinn ekki undir áhyggjur þínar af þessum vanda, skaltu leita til annars læknis sem gerir það. Þú verður að standa með sjálfri þér ef þú veist að þú ert komin út á ystu nöf og þarfnast hjálpar. Besti læknirinn er sá sem gerir sér grein fyrir við hvað er að etja, er tilbúinn að hlusta á umkvartanir þínar, er nógu vel að sér til að meta ástand þitt og er tilbúinn að taka á vandanum sem hluta af krabbameinsmeðferðinni. Vertu nákvæm þegar þú ræðir um þreytuna og bendir á atriði eins og “ég verð andstutt þegar ég geng upp stigana heima hjá mér eða í vinnunni.” Hægt er að grípa til ýmissa læknisráða eftir því hver orsök þreytunnar er:
-
Ónæmisfrumum hefur fækkað: Með góðri hvíld og hollu mataræði lagast þetta ástand þegar meðferðinni er lokið. Sérstök lyf sem kallast vaxtarþættir, eins og t.d. Neupogen (filgrastim) geta örvað framleiðslu nýrra ónæmisfrumna þar til forði þinni er aftur orðinn eðlilegur.
-
Sýkingar er hægt að meðhönda með viðeigandi sýklalyfjum og með því að gefa vökva ríkan af steinefnum sem þú kannt að hafa misst af því að þú svitnar óeðlilega mikið.
-
Blóðleysi sem stafar af of lítilli framleiðslu á rauðum blóðkornum má meðhöndla með því að gefa járn ef orsökin er járnskortur. Procrit (epoefin-alfa) hjálpar framleiði líkaminn of lítið af rauðum blóðkornum vegna lyfjameðferðar eða langvarandi veikinda. Sé hægt að stöðva blæðingu um sepa í görnum eða ristli eða frá æxli í maga eða görnum, getur það komið í veg fyrir áframhaldandi blóðmissi. Blóðgjöf bætir blóðbúskapinn á augabragði.
-
Skortur á blóðflögum getur framkallað blæðingar og þar af leiðandi blóðleysi og má meðhöndla með vaxtarþætti sem kallast Neumega (oprelvekin), og – ef nauðsyn krefur – blóðflögugjöf.
-
Lítilvirkan eða óvirkan skjaldkirtil má meðhöndla með því að gefa skjaldkirtilshormónalyf sem kallast levothyroxine (Levaxine®). Ein tafla á dag getur skipt sköpum án þess að kalla fram aukaverkanir.
-
Þunglyndi er hægt að meðhöndla með ýmis konar geðmeðferð (samtölum/meðferð hjá ráðgjafa, félagsfræðingi, sálfræðingi, geðlækni), lyfjagjöf eða hvort tveggja.
-
Óskýranleg þreyta sem lætur ekki undan síga við lyfjagjöf eða breytingu á lifnaðarháttum kann að lagast ef gefin eru örvandi lyf: kaffín, rítalín (methyphenidate), dexadrine (dextroamphetamine), eða provigil (modafinal). Að finna rétta lyfið í réttum skammti krefst þess að þú og læknir þinn vinnið náið saman. Kynntu þér rækilega hugsanlegar aukaverkanir og hver hætta geti verið á því að lyf reynist ávanabindandi áður en þú leggur inn á þessa braut. Kynntu þér líka óhefðbundnar lækningaleiðir áður en lengra er haldið og lestu vel kaflana hér á eftir.
ÞB