Að breyta lifnaðarháttum til að sigrast á þreytu
Þú getur gert ýmsar breytingar á daglegu lífi og væntingum þínum til sjálfrar þín sem geta létt þér baráttuna við langvinna þreytu. Hér komar nokkrar ábendingar:
-
Haltu dagbók yfir líðan þína. Haltu dagbók yfir þreytuna til að átta þig á hvenær hún er mest og hvenær hún truflar þig minnst. Gerðu það sem þú þarft að gera á þeim tíma sem þú veist að orkan er mest og gerðu ráð fyrir hvíld á þeim tíma þegar orkan er minnst. Skipulegðu hvern dag. Áttaðu þig á hverju þú verður óhjákvæmilega að koma í verk og hvenær þú getur gert það. Að framkvæma á eigin hraða hjálpar þér að halda í þína dýrmætu orku yfir daginn og frá einum degi til annars.
-
Finndu út hvað veldur þér streitu. Það kann að vera vinnan, fjölskyldan, fjármálin. Sé þess nokkur kostur, reyndu þá að finna leið til úrbóta. Ekki láta það samt auka á þreytu þína að vita að þú þarft að draga úr streitu. Reyndu bara að halda áttum, og ef þú hefur ekki áttað þig á að það er í lagi að biðja um hjálp, þá er núna kominn tími til að gera það.
-
Biddu um hjálp. Þiggðu þá hjálp og aðstoð sem fjölskylda og vinir bjóða. Þótt enginn hafi boðist til að hjálpa til og allir virðast hafa of mikið að gera, skaltu samt biðja um það sem þú þarfnast – jafnvel þótt það að biðja um hjálp sé það erfiðasta sem þú gerir. Finndu einhvern einn sem getur skipulagt tíma og verkefni – eins konar verkefnisstjóra. Ekki er verra ef viðkomandi kann á tölvur og getur sent tölvupóst með beiðnum um sendiferðir og annað. Reyndu að halda sjálfri þér utan við þetta allt þangað til þú hefur fundið eitthvað af þinni gömlu orku. Fáðu hjálp við jafnvel smæstu hluti: einhver fer út með ruslið, brýtur saman þvottinn, greiðir reikninga. Gerðu lista yfir það sem þú ert einfaldlega of uppgefin til að ráða við, þannig að spyrji þig einhver hvort eða hvernig hægt er að hjálpa þér, þá getir þú látið þann hin sama hafa listann.
-
Finndu þér stuðningshóp. Að deila tilfinningum sínum með öðrum getur létt þreytubyrðina og gefið þér fleiri hugmyndir um hvernig þú getur tekist á við ástandið. Læknirinn þinn eða hjúkrunarfræðingur á göngudeild getur veitt þér upplýsingar um hvar stuðningshópa er að finna. Upplýsingar um stuðningshópa og félög er einnig að finna á vef Krabbameinsfélags Íslands.
-
Hættu við ókláruð verk sem ekki skipta máli. Gerðu það sem þig langar til að gera, ekki það sem öðrum finnst að þú ættir að gera. Það felur meðal annars í sér að spara orkuna fyrir þær manneskjur sem eru þér kærar.
-
Hafðu stjórn á óvissunni. Þú skalt takast á við þær spurningar sem þú kannt að hafa um sjúkdóm þinn og meðferðina og leita svara hjá þeim sem geta veitt þau. Aðrar spurningar sem engin svör eru til við, skaltu skrifa niður á fallegt bréfsefni og stinga niður í skúffu – þar sem þú hvorki sérð þær né hugsar frekar um þær.
ÞB