Nokkur ráð við svefnleysi

  • Lestu leiðinlegustu bók sem þú getur fundið eða róandi bók sem þú þekkir og hefur lesið áður. Ljúfar barnabækur eins og Litli prinsinn eða Dimmalimm eru líka gott lesefni fyrir svefninn.

  • Teldu afturábak frá 100. Teldu kindur, hafi það reynst þér vel.

  • Prófaðu kynlíf. Sumum reynist það frábært lyf við svefnleysi. Á aðra virkar það þveröfugt. Maki þinn velur ef til vill óheppilegan tíma til að koma þér til. Komdu örlitlum aga að í forleiknum: Forðastu kvöld þegar þú þarft að vakna snemma til að fara til vinnu. Njóttu kynlífs á tíma sem hentar ykkur báðum.

  • Forðastu allan æsing skömmu fyrir háttatíma, þar með talið að gera líkamsæfingar, tala í síma eða fylgjast með fréttum. Í kvöldfréttum er yfirleitt ekkert sem verkar róandi. Eigirðu erfitt með að sofna skaltu halda þig frá rúminu nema til að sofa í því eða hafa samfarir. Notaðu ekki rúmið til að lesa í, horfa á sjónvarp eða hlusta á tónlist. Haltu svefnherberginu þínu rökkvuðu og hljóðu.

  • Farðu fram úr sértu ekki sofnuð innan 20 mínútna. Nuddaðu háls, handleggi, farðu í heitt bað, settu eyrnatappa í eyrun til að útiloka áreiti utan frá, láttu þig dreyma dagdrauma, farðu í hugleiðslu eða prófaðu sjónsköpun. (Því ekki að reyna að hafa það huggulegt: ímyndaðu þér sjálfa þig í gondóla á Grand Canal í Feneyjum eða í sólbaði á Kanaríeyjaströnd eða annars staðar þar sem sólin skín og sjór og sandur er hreinn og hlýr, eða ímyndaðu þér að þú liggir á bakinu úti í náttúrunni í góðu skjóli og hlustir á fuglasöng á meðan þú virðir fyrir þér góðviðrisský á himni.) Hrífi ekkert af þessu, skaltu athuga hvort “neikvæð styrking” getur hjálpað þér – stemmdu af bankareikninginn eða þrífðu baðherbergið.

  • Athugaðu með lyf eins og acetaminophen (Tylenol) eða ibuprofen (Advil) sem geta hjálpað þér að sofna. Sumir hafa góðu reynslu af ofnæmistöflum og/eða sjóveikitöflum sem virka slakandi. Valdi tímabundinn eða langvarandi kvíði svefntruflunum þínum, biddu þá lækni þinn um viðeigandi lyf. Sé engin sérstök ástæða fyrir svefnleysinu, getur “svefntafla” hjálpað, en reyndu að taka ekki inn svefntöflur oftar en tvisvar í viku svo að þær missi ekki áhrifamátt sin. Hafðu í huga að skammtímasvefntöflur geta hjálpað þér að sofna, en ekki endilega að sofa. Svefntöflur með lengri virkni geta hjálpað þér að sofa af nóttina en orðið til þess að þú ert “timbruð” að morgni. Neyttu aldrei áfengis hafir þú tekið eða ætlar að taka inn svefntöflu og aktu aldrei undir áhrifum annars hvors. Flest svefnlyf er aðeins hægt að fá gegn lyfseðli og ætti aðeins að taka með samþykki læknis. Ekki fá lánaðar töflur frá vinum eða ættingjum.

ÞB