Að styrkja ónæmiskerfið til að sigrast á krabbameini

Hver einasta kona sem greinist með brjóstakrabbamein á í erfiðleikum með að kyngja því að til að sigrast á krabbameininu þurfi að grípa til meðferðar sem getur lagt ónæmiskerfi hennar í rúst. Ósjálfrátt segir (eða ÆPIR réttara sagt) innri rödd að öflugt ónæmiskerfi og gott heilsufar að öðru leyti þurfi til þess að sigrast á krabbameini. Þegar rennur upp fyrir þér að á þennan alvarlega sjúkdóm duga engin vettlingatök og ert byrjuð í meðferð, þarftu eftir sem áður að hlusta á þína innri rödd. Það er skynsamlegt og rétt sem hún segir: það þarf að næra og styrkja ónæmiskerfið. Hér á eftir fara nokkur heilræði sem þú getur nýtt til að hjálpa sjálfri þér við það verkefni.

Nokkrar óhefðbundnar leiðir til að verjast sýkingum og krabbameini

Rétt næring, minni streita, stuðningshópar, hreyfing – forvitnilegar nýjar rannsóknir benda til að þessi óhefðbundnu en einföldu atriði kunni að styrkja ónæmiskerfið. Til dæmis hefur það verið skjalfest að framleiðsla hvítra blóðkorna jókst hjá fólki með sortuæxli ( illkynja tegund húðkrabbameins) við það að hittast reglulega í stuðningshópi. Í öðrum rannsóknum var komist að þeirri niðurstöðu að konur í stuðningshópum vegna brjóstakrabbameins lifa lengur en þær sem ekki tengjast slíkum hópum. Rannsóknarfólk veltir fyrir sér hvort ein ástæðan sé sú að slíkir hópar stuðli að því að draga úr streitu og styrki þannig ónæmiskerfið.

Næring

Öll starfsemi líkamans verður lakari en ella af lélegu fæði. Það á við um sár sem þurfa að gróa, þegar byggja þarf upp birgðir hvítra blóðkorna og jafnvel þegar tekist er á við streitu. Að huga að mataræði er auk þess skynsamlegt hvort sem það kemur ónæmiskerfinu að notum eða ekki. Enn er ekki fullljóst hvert er hlutverk næringar í starfsemi ónæmiskerfisins, en þeir vísindamenn eru til sem leggja áherslu á næringu sem lið í því að draga úr hættu á krabbameini, dauðsföllum af völdum krabbameins og í því skyni að bæta lífsgæði almennt. Nefna má vísindamennina Dr. Keith Block (University of Illinois og Block Medical Center, Evanston, Illinois) og Dr. Mitch Gaynor (Strang-Cornell Cancer Prevention Center, New York City). Í störfum sínum leggja þeir áherslu á grænmetisfæði, minni fitu, streitulosun og aðrar óhefðbundnar leiðir. Þeir eru þeirrar skoðunar að þessi atriði stuðli saman að því að styrkja ónæmiskerfið.

Talsmenn þessara nýju, óhefðbundnu aðferða fullyrða að það geti valdið krabbameini að vera of þung(ur) og að neyta of mikils af kólestrólmyndandi fæðu eða annarri fitu. Þeir benda á að fita virðist draga úr framleiðslu hvítra blóðkorna og hafi þannig áhrif á starfsemi T-frumna og átfrumna. Ennfremur fullyrða þeir að offita og lélegt mataræði skaði sogæðakerfið og geri líkamann viðkvæmari fyrir sýkingum og veikindum. Að borða mikið af prótíni eins og er að finna í dýraafurðum telja þeir að stuðli að sömu skaðlegu áhrifunum. Þess vegna er það mataræði sem þeir mæla með rýrt af dýraprótínum og óhollri fitu. Þeir mæla með einómettaðri fitu en vara við harðri fitu, hvort sem hún kemur úr jurta- eða dýraríkinu.

Lestu um mataræði og hugmyndir þar að lútandi í Mataræði meðan á meðferð stendur og að henni lokinni.

Fæðubótarefni og fæða

Allir sérfræðingar eru sammála um að best sé að fá fjörefni (vítamín) og önnur miklvæg næringarefni beint úr fæðunni í stað þess að taka þau inn sem unnin fæðubótarefni. Í heilfæðunni er auk þess hugsanlega að finna ýmis önnur dýrmæt efni sem enn er lítið vitað um. Ferskir ávextir og grænmeti, ÖRUGGAR korntegundir, sveppir, jurtir, te, ómega-3 fitusýra (sem er að finna í ferskvatnsfiski eins og laxi eða silungi), flókin kolvetni, jógurt og þari eru talin auka starfsemi T-frumna og fylgifrumna þeirra og auka framleiðslu mótefna og bardagafrumna.

Í hefðbundinni kínverskri læknisfræði eru jurtalyf og fæða hluti af sömu heildarmynd. Jurtir má nota sem lyf. Venjulega eru það vandlega samvaldar jurtir og eru þá ýmist notaðar rætur, börkur, lauf eða fræ hinna mismunandi jurta. Einnig eru jurtirnar notaðar sem uppistaða í rétti (sveppir) eða sem krydd. Hvort heldur sem er, þá auka jurtirnar á vellíðan. Líklegt er að allt styrki ónæmiskerfið sem hefur áhrif til hins betra á almenna líðan.

Hreyfing

Kannanir hafa fyrir löngu leitt í ljós hve góð áhrif hæfileg hreyfing hefur á ónæmiskerfið. Nú er verið að skoða áhrif hóflegrar hreyfingar á ónæmiskerfi krabbameinssjúklinga meðan á meðferð stendur. Í lítilli könnun kom í ljós að hófleg hreyfing (þrisvar sinnum eða oftar á viku í tuttugu mínútur í senn) fjölgaði ónæmisfrumum hjá konum í meðferð við brjóstakrabbameini upp að eðlilegum mörkum, auk þess sem það hafði góð áhrif á andlega líðan þeirra og auðveldaði þeim að takast á við tilfinningar sínar.

Streitulosun

Alkunna er að langvarandi og mikið magn streituhormóna (eins og adrenalíns) veikir ónæmiskerfi líkamans og dregur úr hæfileika hans til að verjast eða lækna sjálfan sig. Því er víða farið að bjóða upp á streitulosandi meðferð jafnframt hefðbundinni krabbameinsmeðferð svo sem lyfjameðferð og geislum. Hugleiðsla, sjónsköpun, jóga og aðrar slökunarleiðir geta styrkt ónæmiskerfið og átt þátt í að vinna gegn áhrifum krabbameinsins. Þú skalt ræða við lækni þinn eða hjúkrunarfræðing um hvernig þú getur nýtt þessar leiðir í tengslum við meðferðina að öðru leyti.

ÞB