Getur ónæmiskerfi í hættu varið þig?

Hugsanlega ertu að velta fyrir þér spurningum eins og: “Hvað gerist með mig þegar ég missi eitla við skurðaðgerð eða fjöldi hvítra blóðkorna hrapar skyndilega vegna krabbameinslyfjameðferðar? Verður ónæmiskerfi mitt veikara en áður og verð ég viðkvæmari fyrir því að fá krabbamein aftur eða veikjast á annan hátt?”

Til allrar hamingju er ónæmiskerfið fljótt að ná sér á strik og afar sveigjanlegt. Ýmsir hlutar þess geta skipt um hlutverk og hlaupið í skarðið hver fyrir annan. Auk þess áttu töluverðar umframbyrgðir af ónæmisfrumum og –vefjum. Þótt nokkrir eitlar séu fjarlægðir taka aðrir við álaginu og sjá um að flytja sogæðavökva og sía burtu krabbameinsfrumur, bakteríur og aðrar óæskilegar örverur. Af því að þú ert með svo miklu meira af hvítum blóðkornum en líkaminn þarfnast mun það undir flestum kringumstæðum ekki heldur stofna þér í neina alvarlega hættu þótt hvítum blóðkornum fækki um tíma. Á augabragði getur ónæmiskerfið virkjað bæði eitilfrumur (lymfócyta) og átfrumur (macrophaga) og sett þær í varnarstöðu.

Blóðmælingar

Blóðmælingar eru notaðar til að fylgjast með öllum hugsanlegum skaða sem lyfjameðferð eða geislar kunna að vinna á ónæmiskerfinu. Aðeins þarf fáeina blóðdropa til að kanna allar gerðir blóðfrumna í líkamanum. Hve mikið hvítum blóðkornum fækkar við meðferð er einstaklingsbundið og háð heilsufari, tegund meðferðar, skammtastærð, hve langur tími líður milli lyfjameðferða og hversu mikið hefur verið gefið samanlagt af lyfjum frá því að meðferð hófst.

Krabbameinslyfjameðferð og blóðmælingar

Krabbameinslyf geta haft mikil áhrif á blóðkornafjölda vegna þess að þau virka á öll svæði sem framleiða blóðkorn. Ónæmisfrumur eru einkum viðkvæmar fyrir áhrifum krabbameinslyfja. Mjög lág blóðkornatala er venjulega aðeins tímabundið fyrirbæri en kann að vara lengur ef þér hafa verið gefin krabbameinslyf í reglulegum skömmtum um langa hríð eða þú hefur fengið mjög stóra skammta eins og þá sem gefnir eru fyrir blóðmergsskipti.

Þegar blóðkornatalan lækkar mikið, svara hóstarkirtillinn, miltað, beinmergurinn og eitlar með því að kalla út varalið og auka framleiðslu hvítra blóðkorna. Á meðan fjöldi ónæmisfrumna er í lágmarki áttu fremur á hættu að sýkjast en ella. Eins freistandi og það kann að vera að sleppa úr lyfjagjöf til að losna við eitthvað af hliðarverkunum, er samt betra að taka við þeim skömmtum sem þú þarfnast til þess að nýta til hins ýtrasta þá eiginleika lyfjanna að vinna bug á krabbameinsfrumum. Það sem þú hins vegar GETUR gert er að fara eftir næringarráðgjöf sem lýtur að því að styrkja þig og nýta óhrædd lyf sem geta hjálpað þér að komast í gegnum meðferðina á sem auðveldastan hátt.

Þegar ónæmisfrumum fækkar um of

Þegar fjöldi hvítra blóðkorna fer niður fyrir ákveðin mörk – sem eru í kringum 1.500 eða færri í framvarðarsveitinni (kallaðar niftsæknar frumur ) – ertu viðkvæmari en ella fyrir sóttkveikjum og veikindum. Fari fjöldi hvítra blóðkorna niður fyrir þetta tilgreinda magn er líklegast að læknir þinn láti hefja meðferð til stuðnings ónæmiskerfinu áður en þú sýkist á einhvern hátt, þar á meðal með sýklalyfjum ef minnstu merkja um sýkingu verður vart. Auk þess kann krabbameinslæknir þinn að ákveða að fresta næstu lyfjagjöf og, ef nauðsyn krefur, láta gefa þér vaxtarþátt til þess að hraða framleiðslu ónæmisfrumna. Kannski dettur þér í hug að hægt sé að gefa ónæmisfrumur í æð til að hækka blóðkornatöluna (á sama hátt og stundum er gefið blóð við ákveðnum tegundum blóðleysis), en það er afar sjaldan gert því það getur haft margvísleg vandamál í för með sér.

Um leið og fjöldi ónæmisfrumna er kominn upp fyrir lágmarkið er líkami þinn undir það búinn að sigrast á flestum sýkingum. Venjulega er talið unnt að byrja lyfjagjöf á nýjan leik þegar talan er komin upp í 2.000 eða 2.500. Næsti skammtur krabbameinslyfja mun síðan ráðast af því hvað ónæmiskerfið þolir. Læknir þinn mun hafa náið samráð við þig um allt þetta.

Geislameðferð og blóðkornamæling

Geislun á brjóstsvæðinu einu hefur mjög lítil áhrif á fjölda hvítra blóðkorna. Þegar geislað er á eitlasvæði í holhönd fækkar þeim hins vegar talsvert meira. Þegar bein eru geisluð til að meðhöndla meinvörp kann það einnig að fækka ónæmisfrumum til muna, einkum ef geisluðu svæðin eru hryggur, mjaðmargrind eða fótleggir, vegna þess að nýjar blóðfrumur eru fyrst og fremst framleiddar í merg þessara beina.


ÞB