Bólusetning gegn krabbameini og mótefni

Bólusett gegn krabbameini

Notkun bóluefnis er algeng leið til að styrkja ónæmiskerfið í að sigrast á sýkingum. Að nota bóluefni til að vinna gegn brjóstakrabbameini er tiltölulega ný leið og enn á tilraunastigi. Bóluefni gegn brjóstakrabbameini má hugsa sér að væri mótefnablanda af eigindum úr veikluðum eða dauðum brjóstakrabbameinsfrumum sem gæti örvað mótefnisviðbragð. Bóluefnið má hvort heldur sem er hugsa sér að væri gert úr óvirkum krabbameinsfrumum frá þér sjálfri eða úr brjóstakrabbameinsfrumum sem framleiddar væru á tilraunastofu. Bóluefni af þessu tagi er aðeins að finna á rannsóknarstofum og hafa ekki verið viðurkennd til þessa.

Bóluefni er venjulega gefið með því að sprauta því í líkamann (venjulega undir húðina). Um leið og ónæmiskerfið verður vart við mótefnisvakann í bóluefni svarar það með því að búa til mótefni. Ef vel gengur getur mótefnið ráðist á og tortímt krabbameinsfrumum sem enn kunna að finnast í líkamanum. Síðar meir gæti mótefni sem er á sveimi í ónæmiskerfinu og hefur lært að þekkja krabbameinsfrumur, eytt þeim hið snarasta, láti þær á sér kræla á ný.

Vandkvæði tengd bólusetningu við krabbameini

Þó svo að bóluefni hafi gefist mjög vel gegn ýmsum alvarlegum sýkingum (svo sem lömunarveiki, hettusótt og mislingum) er notkun þess við krabbameini á algjöru tilraunastigi. Eitt vandamálið við þróun þess tengist því hvernig krabbamein þróast. Það byrjar með því að ein af eðlilegum frumum líkamans fer að haga sér óeðlilega og fjölga sér stjórnlaust, ættlið eftir ættlið. Hver ættliður myndar sitt eigið afbrigði. Áður en yfir líkur hafa krabbameinsfrumur tekið á sig margvíslegar myndir með ótölulegum fjölda mótefnavaka sem mótefnin þurfa að finna. Bóluefni gegn krabbameini er hins vegar með TAKMARKAÐAN fjölda mótefna og aðeins gegn mótefnavökum úr upprunalegu krabbameinsfrumunum sem notaðar voru við gerð bóluefnisins. Þessi mótefni virka hugsanlega ekki á nýjar stökkbreyttar krabbameinsfrumur.

Auk þess verður nothæft bóluefni að geta framkallað mótefni sem ræðst á krabbameinsfrumur eingöngu en lætur heilbrigðar frumur í friði. Galdurinn er að ná krabbameinsfrumum um leið og þær myndast og gera bóluefnið þannig úr garði að í því séu eigindir krabbameinsfrumna sem heilbrigðar frumur hafa EKKI.

Vísindmenn eru að kanna leiðir til að greina krabbameinsfrumur á forstigi. Þetta má hugsa sér að sé gert með efnafræðilegu efni sem “merkir” vandamálafrumurnar og breytir þeim nægilega til að ónæmiskerfið skynji þær sem óheilbrigðar og ráðist á þær.

Mótefni gegn krabbameinsfrumum

Önnur aðferð er sú að framleiða mótefni gegn ákveðnum krabbameinsfrumum sem kallast æxlisfrumur. Heilbrigðar æxlisfrumur hafa stjórn á frumuvexti og bæla niður krabbamein með því að framleiða herskara af sérstöku prótíni sem tryggir að eðlileg starfsemi haldi áfram umhverfis frumuna. Óeðlilegar og sjúkar æxlisfrumur eins og t.d. gallað HER 2/neu gen geta hins vegar ekki stjórnað vexti krabbameinsfrumna og afleiðinginn verður krabbameinsæxli. Þessir óeðlilegu erfðavísar (gen) og prótínin sem tengjast þeim eru heppilegt skotmark fyrir mótefni. Þar sem hina óeðlilegu erfðavísa er aðeins að finna í krabbameinsfrumum en ekki í þeim heilbrigðu, getur mótefnið með góðum árangri eytt krabbameinsfrumunum en látið aðrar frumur líkamans óáreittar. Í rauninni er krabbameinsfrumum ekki tortímt og þeim “skolað” úr líkamanum með ónæmiskerfinu, heldur hefur mótefnið þau áhrif að óeðlilega mörgum viðtökum krabbameinsfrumuna fækkar í eðlilegan fjölda og fruman verður eðlileg á ný - breyting sem er óafturkræf og varanleg.

Ein mótefnismeðferð sem beinist gegn prótíni því sem æxlisgenið HER2/neu framleiðir, byggist á lyfinu trastuzumab (Herceptin®). Margir vefir líkamans hafa í sér HER2/neu æxlisfrumur, en yfirleitt er það í litlum mæli. Herseptín mótefnið ræðst á krabbameinsfrumur sem hafa óeðlilega mikið af HER2/neu prótíni á yfirborðinu. Meðferð þessi felur í sér mikilsverðar framfarir fyrir konur sem greinst hafa með HER2/neu krabbamein vegna þess að lyfið vinnur með góður árangri á krabbameinsæxlinu en hefur afar lítil ef nokkur áhrif á eðlilegan vef, marksækin meðferð.

Nýjar fregnir herma að lyfið Herceptin hafi skilað miklum og góðum árangri í meðferð við krabbameini af ofangreindri tegund á fyrstu stigum þess, en til skamms tíma hefur aðeins verið gripið til lyfsins gegn krabbameini á síðari stigum. Um 20-25% kvenna greinast með illkynja brjóstakrabbamein af þessari tegund.

Enn eitt tilbrigði við þessa nálgun er að gefa mótefni með viðloðandi eiturefnum eins og t.d. sinnepgasi eða geislavirku efni sem gæti drepið krabbameinsfrumur. Tilraunir á dýrum með þannig aðferðum lofa góðu og í Bandaríkjunum er verið að prófa lyfið á sjúklingum sem valið hafa að taka þátt í þannig tilraunum.

Þegar þú lest þennan hluta hugsarðu ef til vill með þér að þetta sé alveg æðislegt og hvers vegna þetta sé ekki notað í meira mæli. „Hvers vegna er ekki búið að fullkomna þessar aðferðir?” Ekki er hægt annað en vera sammála því að mótefnameðferð gefur fögur fyrirheit. Engu að síður er tvennt sem reynist Þrándur í Götu við notkun mótefna til að vinna á krabbameinsfrumum. Í fyrsta lagi skiptir máli hver stærð mótefnissameindanna er samanborið við stærð krabbameinsfrumnanna. Sumum krabbameinsfrumum er því aðeins hægt að eyða að mótefnissameindirnar komist innfyrir ytri (og stundum innri) varnarmúra frumnanna. Séu mótefnissameindirnar of stórar komast þær hugsanlega ekki INN í frumurnar. Hitt vandamálið er að með hverri nýrri kynslóð krabbameinsfrumna myndast nýtt (stökkbreytt) afbrigði og því getur reynst örðugt að finna mótefni sem hefur áhrif á allar þær mismunandi tegundir frumna sem mynda krabbameinsæxli. Vonast er til að með áframhaldandi rannsóknum finnist lausn á þessum vanda.

Að örva starfsemi T-frumna

Unnið er að fleiri rannsóknum og leiðum til að vinna á krabbameini. Ein þeirra er sú að örva starfsemi T-frumna í baráttu þeirra við mótefnavaka þannig að T-frumur og aðrar bardagafrumur leggi harðar að sér og lengur í eðlilegri viðleitni til að leita uppi og eyða krabbameinsfrumum.

ÞB